Showing 1161 results

Authority record
Corporate body

Gamla Lagarfljótsbrúin á Héraði

  • HAH00905
  • Corporate body
  • 1905 -

Lagarfljótsbrú, byggð 1958. Hún var lengsta brú á Ís­landi fram til 1973, 301 m. Áð­ur var þar tré­brú, gerð 1905.

Gatklettur við Króksbjarg

  • HAH00268
  • Corporate body
  • (1950)

Svæðið frá Tjarnarbrekku inn að Fossá heitir Nes. Kálfshamarsvík er í Nesjum. Á Kálfshamarsnesi er viti, hann var fyrst reistur árið 1913 en var endurbyggður árið 1939. Mjög sérkennilegt og fallegt stuðlaberg er í Kálfshamarsnesi sem talið er um 2 milljón ára gamalt. Laxá í Nesjum, vatnslítil á, verður til úr lækjum í Skagaheiði og rennur í gegnum Laxárvatn á leið sinni til sjávar hjá bænum Ósi.

Króksbjarg er nokkru norðan við Hof, en það er 40-50 m hátt bjarg við sjó og nær að Fossá sem fellur af 20 m háu standbergi í sjó fram. Gatklettur reis úr sjó skammt norðan við fossinn en er nú fallinn vegna ágangs sjávar. Norðan Fossár taka við Skriðbjarg, Bjargabjörg og Bakkar.

„Á ysta hluta Skaga eru jökulsorfnar klappir og meðfram ströndinni eru malarkambar sem bera merki hárrar sjávarstöðu frá lokum ísaldar. Við Víkur og Hafnir eru fornir fjörukambar í 30-40 m hæð yfir sjávarmáli. Kálfshamarsvík skartar sérstökum stuðlabergsmyndunum og í Króksbjargi er sjávarberg og fossar.” Við Laxá á Refasveit eru fallegar gangbríkur og setlög.

Gautsdalur í Bólstaðarhlíðarhreppi

  • HAH00162
  • Corporate body
  • (1950)

Þar bjó Gautur, förunautur Ævars hins gamla og fóstbróðir Eyvindar sörkvis. Bærinn er á Laxárdal fremri að vestan, norðan við mynni Auðólfsstaðaskarðs, vegur liggur til bæja um brúá ánni neðst í túninu. Túnið liggur út með brattri fjallshlíð á bökkum Auðólfsstaðaár, að nokkru ræktað með framræslu. Vetrarríki er mikið á Laxárdal, en landgæði og landrými. Eyðijörðin Mörk, er eign bændanna í Gautsdal og á Æsustöðum. Íbúðarhús byggt 1948 steinsteypt 307 m3. Fjós yfir 9 gripi. Fjárhús yfir 300 fjár. Hesthús fyrir 33 hross. Hlöður 802 m3. Tún 18 ha. Veiðiréttur í Auðólfsstaðaá.

Geirastaðir í Þingi

  • HAH00932
  • Corporate body
  • (900)

Bæjarins er fyrst getið í Landnámu, kenndur þar við Geira þann er fyrst bjó á Geirastöðum við Mývatn en hraktist þaðan vegna vígaferla. Sat hann hér um vetur en settist að lokum að í Geiradal í Króksfirði í Varðastrandarsýslu og gaf öllum aðsetursstöðunum nafn sitt.

Geirsalda á Kili

  • HAH00994
  • Corporate body
  • 1959

Nærri vatnaskilum á hárri melöldu, er minnisvarði við veginn, sem Ferðafélag Íslands lét reisa 1959 í minningu um Geir G. Zoëga vegamálastjóra, en hann var forseti félagsins 1937-1959. Aldan heitir síðan Geirsalda.

Geitaskarð / Skarð Engihlíðarhreppi

  • HAH00210
  • Corporate body
  • [900]

Fornt höfuðból. Fyrst getið í Hallfreðarsögu og fyrstur ábúandi sem frá er greint, Gríss auðgi Semingsson. Byggingar standa vestur undir Skarðskarði og fara vel í umhverfi sínu. Þar sem hæst ber Illveðurshnjúk norðan skarðsins. Til jarðarinnar teljast nú 3 eyðibýli, Þorbrandsstaðir og Buðlunganes að norðan og Tungubakki á Laxárdal fremri. Fyrir landi jarðarinnar er vað á Blöndu, er Strengjavað nefnist. Nyrst í landi Geitaskarðs, vestan vegar, er smá stöðuvatn, er Buðlungatjörn nefnist. Sama ættin hefur búið á jörðinni frá 1886.
Íbúðarhús byggt 1910, endurbætt verulega 1967, kjallari 3 hæðir og ris 814 m3. Fjós fyrir 32 gripi. Fjárhús fyrir 490 fjár. Hesthús fyrir 25 hross. Hlöður 1509 m3. Votheysgeymslur 133 m3. Tún 47 ha. Veiðiréttur í Blöndu, Buðlungatjörn og Ytri-Laxá.
Hálfkirkja var í Geitaskarði

Geithamrar í Svínadal

  • HAH00269
  • Corporate body
  • [1300]

Skammt fyrir norðan Grund liggja Geithamrar í fjallsrótunum. Þar er mikið ræktanlegt land á láglendinu og rúmgott, notadrjúgt beitiland í fjallshlíðinni. Jörðin á land meðfram Svínavatni á 2-3 km kafla. Fram til 1961 voru byggingarnar uppi í brekkuhallinu, en hafa nú verið fluttar niður á flatlendið, nær veginum. Íbúðarhús byggt 1961 88 m2 431 m3. Fjós byggt 1973 yfir 16 kýr og 8 geldneyti, ásamt mjólkuhúsi og áburðargeymslu. Fjárhús yfir 320 fjár. Hesthús fyri 11 hross og auk þess torfhús yfir 20. Hlöður 1174 m3. Tún 25 ha. Veiðiréttur í Svínavatni.

Geysir í Haukadal

  • HAH00270
  • Corporate body
  • (1000-2019)

Geysir í Haukadal er goshver sem nú til dags lætur lítið á sér kræla. Geysir er einn frægasti goshver í heimi. Margir fleiri hverir eru á Geysissvæðinu, til dæmis Strokkur, Smiður og Litli-Strokkur.
Geysis er fyrst getið með nafni árið 1647 og er þá mikill og ákafur goshver, en á þeim tímum gat hann gosið nokkuð reglulega. Þá þeyttu hann vatni 60 til 80 metra upp í loftið. Fyrir árið 1845 varð hann allt að 170 metrar. [heimild vantar] Eftir árið 1900 dró mikið úr gosvirkni hans og var kólnunarflötur vatnsins (yfirborðið) orðið of stórt. Þá var brugðið á það ráð að gera skurð úr hvernum til að leiða á brott umfram-magn af vatni til að létta undir með hvernum. Einnig var losað út í hann 100 kg af handsápu til að vatnið myndi snöggsjóða. Eftir Suðurlandsskjálftana sumarið 2000 tók Geysir aftur að gjósa en hefur nú dregið sig í hlé.

Þann 9. apríl árið 1894 keypti írskur maður, James Craig (yngri), Geysi fyrir 3000 kr. Í kaupunum fylgdu einnig hverirnir Strokkur, Blesi og Litli Geysir eða svonefnd Óþerrihola ásamt dálitlu svæði kringum hverina, alls um 650 faðmar. Ábúandinn á Haukadal áskildi sér rétt til að hafa umsjón með hverunum, gegn hæfilegri þóknun þegar eigandi væri ekki viðstaddur, ennfremur forkaupsrétt að hverunum, ef þeir yrðu seldir aftur. Seljendur hveranna voru þeir Sigurður bóndi Pálsson á Laug og synir hans Greipur og Jón bændur í Haukadal, en þeir seldu þá vegna fjárleysis. Þeir voru ekki ásakaðir fyrir söluna, því að þeir höfðu boðið landssjóði hverina til kaups, en þingið vildi ekki kaupa. Sagt var í fjölmiðlum sama ár að vel getur verið að „hinn nýi eigandi sýni hverunum meiri sóma en landssjóður hefði gert, reisi þar gistihús o. s. frv., en talið er það mjög óvíst, af þeim er kunnugastir eru“. Faðir Craigs varð þó ekki ánægður með þessi kaup, og varð það til þess að Craig yngri gaf vini sínum, E. Rogers, svæðið. Honum þótti þó lítið til þessar gjafar koma. Síðar erfði frændi hans Hugh Rogers það, en árið 1935 keypti Sigurður Jónsson svæðið og gaf íslenska ríkinu.

Gil í Svartárdal

  • HAH00163
  • Corporate body
  • [1500]

Þorkell Vignir, son Skíða ens gamla, hann nam Vatnsskarð allt ok Svartárdal. Þannig segir í Landnámu, bls. 230, útgáfu Hins íslenska fornritafélags, Reykjavík, 1968. "Landnám Þorkels er einkennilegt. Það er í tveimur sýslum. Bæir í Vatnsskarði eru í Skagafjarðarsýslu allir nema hinn vestasti, Vatnshlíð, og liggja sýslumörk þar um vatnið. Hinn hlutinn, Svartárdalur, er í Húnavatnssýslu. Það er mikil byggð." Svo ritar Haraldur Matthíasson í hinni merku bók sinni, Landið og Landnáma, I. bindi, Örn & Örlygur, 1982.

Fyrsti bær fyrir austan Bólstaðarhlíð er bærinn Gil, en litlu austar Fjós, jörð, sem þrír bræður, Einar, Guðmundur og Friðrik Björnssynir, gáfu til skógræktar. Einar Björnsson (1891-­1961) og Guðmundur M. Björnsson (1890­-1970) voru kenndir við Sportvöruhús Reykjavíkur, en Friðrik Björnsson var læknir (1896­-1970). Þeir bræður voru frá Gröf í Víðidal, systursynir Guðmundar Magnússonar prófessors frá Holti í Ásum Péturssonar. "Guðmundarnir", þrír prófessorar í læknisfræði við Háskóla Íslands, voru allir Húnvetningar (skipaðir í stöður sínar 17. júní 1911 við stofnun HÍ). Guðmundur Björnsson, Guðmundur Hannesson og sá er fyrr er nefndur, Guðmundur Magnússon. Má telja með ólíkindum, að ein sýsla skyldi geta af sér slíka afburðamenn, sem lögðu grunninn að íslenskri læknamenntun.

Bærinn stendur norðan Gilslækjar ofan við Svartárdalsveg. Vestan árinnar rís Skeggsstaðafjall veggbratt og skriðurunnið, en í norðri Húnaver og Bólsstaðarhlíð með Hlíðarfjall í baksýn. Djúpt klettagil gengur upp til Svartárdalsfjalls og eru þar fjárhús og tún ofan brúna. Túnrækt bæði framræst mýrlendi og valllendi. Jörðin landlítil en landgott er til fjallsins. Íbúðarhús byggt 1964 429 m3. Fjós fyrir 10 gripi. Fjárhús yfir 480 fjár. Hesthús fyrir 10 hross. Hlaða 300 m3. Tún 22 ha. Veiðiréttur í Svartá.

Gilá í Vatnsdal

  • HAH00042
  • Corporate body
  • (950)

Gilá stendur á lítilli undirlendisskák norðan Gilár, smá á sem fellur úr djúpu og fögru kleyfagili rétt sunnan bæjar og til Vatnsdalsár vestan Gilárskróks, en þar hefur hún kastað sér þvert yfir dalinn og fellur síðan með hlíðarrótum út að Kötlustaðamel. Jörðin er landlítil og möguleikar til frekari ræktunar nánast enigir. Frá Gilá voru hinir kunnu bræður Guðmundur, Daði, Daníel og Díómedes Davíðssynir. Skógrækt ríkisins á nú jörðina 1975] og er hafist handa um skógrækt. Íbúðarhús byggt 1958, 344 m3. Fjárhús yfir 150 fjár og nautgriðir að hluta þar. Hlaða 794 m3. Tún 11,6 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá.

Gilá í Vatnsdal bændabýli, á og foss

  • HAH00042
  • Corporate body
  • 874 -

Fossinn sprettur fram úr sprungnu bergi Vatnsdalsfjalls.
Áin fellur úr djúpu og fögru kleyfagili rétt sunnan bæjar og til Vatnsdalsár vestan Gilárskróks, en þar hefur hún kastað sér þvert yfir dalinn og fellur síðan með hlíðarrótum út að Kötlustaðamel.

Gilsstaðir í Vatnsdal

  • HAH00043
  • Corporate body
  • (1300)

Bærinn stendur undir hálsinum þar sem hann er lægstur eftir að kemur út fyrir Fellið. Beitiland er mikið og gott og nær allt vestur að Gljúfurá. Undirlendi er mikið en mest votlent nema á árbakkarnir sem jafngilda túni til heyskapar. Jörðin er ættaróðal. Íbúðarhús byggt 1924 og 1938, 287 m3. Fjárhús yfir 287 fjár. Hesthús yfir 16 hross. Hlaða 490 m3. Skúr 50 m3. Tún 29,9 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá.

Gimli Manitoba Kanada

  • Corporate body
  • 21.10.1875 -

Gimli er sveitarfélag og kaupstaður í Manitoba-fylki í Kanada. Gimli er staðsett við Winnipegvatn og 75 km norður af Winnipeg sem er höfuðborg Manitoba. Gimli er stundum kallað „Höfuðstaður Nýja Íslands“.

Gimli er sveitarfélag og kaupstaður í Manitoba-fylki í Kanada. Gimli er staðsett við Winnipegvatn og 75 km norður af Winnipeg sem er höfuðborg Manitoba. Gimli er stundum kallað „Höfuðstaður Nýja Íslands“.

Íslendingar komu þangað fyrst 21. október 1875. Þangað fluttist stór hópur Íslendinga sem eru kallaðir Vesturfarar.
Sveitarfélagið Gimli var stofnað í október árið 1875. Það var hluti af Northwest Territories rétt við Manitoba-fylki. Manitoba var stækkað árið 1881 og var hluti af Manitoba. Það var formlega tekið inn í Manitoba 1887. Árið 1876 geysaði slæm bólusótt í sveitarfélaginu. Þann 23. júlí 1983 komst sveitarfélagið í heimspressuna vegna Gimli Glider-atburðarins.

Glanni og Grjótháls

  • HAH00272
  • Corporate body
  • (1950)

Fossinn Glanni er í Norðurá skammt frá Bifröst og segja sögur að hann sé dvalarstaður álfa og dverga. Paradísarlaut er skammt frá fossinum.

Örnefnið Glanni er að minnsta kosti á tveimur stöðum á Vesturlandi, annars vegar foss í Norðurá í Mýrasýslu, suður undan Hreðavatni. Hann hét áður Glennrar (máldagi 1306) eða Glennunarfoss (1397) (Íslenskt fornbréfasafn IV:122; Glunnrarfoss í nafnaskrá). Í sóknarlýsingu eftir sr. Jón Magnússon frá 1840 er talað um „sjónhending í Glannarafoss í Norðurá hvar hann hvítfaxar“ (Sýslu- og sóknalýsingar Mýra- og Borgarfjarðarsýslna, bls. 39).

Merking orðsins glanni er meðal annars ‘blika, gljá’ og orðsins glenna ‘birta, skin’ > ‘ljósop (í lofti eða skógi)’ > ‘rifa, auður blettur’. Orðin eru skyld orðunum gláma og glóa. Skyld orð eru glan (hvk.) sem merkir ‘gljái’ og glana (so) ‘birta til’. Sögnin hefur síðar orðið að so. glaðna (til) vegna merkingarskyldleika. Glan(u)r var maki sólar og hestsheiti, samkvæmt Snorra-Eddu og er afbrigði þess Glen(u)r ‘hinn skínandi’ (samkvæmt orðabók um skáldamálið forna (Lexicon poeticum (1931), bls.188)).

Orðið glanni merkti í fornu máli eins og í nútímamáli “fremfusende og overmodig person” (Lexicon poeticum (1931), bls.187). Það var einnig nafn á manni, samkvæmt handriti af Snorra-Eddu (Johan Fritzner, Ordbog over Det gamle norske sprog IV:128 (1972)). Á 18. öld er það þekkt úr Orðabók Björns Halldórssonar í merkingunni ‘importunus scurra’ á latínu, ‘en paatrængende Nar’ á dönsku. Líklegra er að merking fossnafnsins Glanni sé frekar ‘hinn skínandi’ en ‘uppáþrengjandi’ þó svo að merkingin ‘fremfusende’ geti út af fyrir sig hugsast um foss af þessu tagi.

En því má einnig velta fyrir sér hvort skyldleiki við sögnina glenna (sundur) ‘kljúfa í tvennt’ komi til greina.

Upp með Norðurá, frá Glanna, er góð leið á bökkunum upp á brúna hjá Glitsstöðum. Er þá ekki langt á Grjóthálsinn upp frá Glitstöðum. Af suðausturbrún Grjóthálsins er útsýni til margra bæja í Þverárhlíð, og sést vel yfir Norðtunguskóg.

Glaumbær í Langadal

  • HAH00211
  • Corporate body
  • (1950)

Bærinn stendur hátt, á brík milli brattra brekkuhalla. Land jarðarinnar, sem ekki er mikið, er grýtt og fremur gróðurrýrt til fjallsins en grösugt hið neðra. Ræktunarmöguleikar takmarkaðir. Býlið er nú í eyði, en er nytjað af Guðsteini Kristinssyni á Skriðulandi, sem jafnframt er eigandi þess. Hefur hann byggt stór fjárhús þar.
Fjós fyrir 12 gripi. Fjárhús fyrir 780 fjár. Hlöður 2825 m3. Votheysgeymslur 32 m3.
Tún 11,3 ha. Veiðiréttur í Blöndu.

Glaumbær í Skagafirði

  • HAH00415
  • Corporate body
  • (1950)

Bærinn í Glaumbæ er samstæða þrettán húsa. Níu þeirra opnast inn í göng sem svo eru kölluð og eru mjór gangur, sem liggur frá bæjardyrum til baðstofu, sem er aftasta húsið í húsaþyrpingunni. Sex húsanna snúa gafli/burstum að hlaði og hægt að ganga inn um þau þaðan. Þetta eru kölluð framhúsin. Inn í eitt bakhúsanna, sem svo eru kölluð, er hægt aða ganga og eru það bakdyr bæjarins þar sem heimilsifólk gekk vanalega um.
Fyrsta sýning safnsins var opnuð þar þann 15. júní árið 1952 og fjallaði hún, þá sem nú, um mannlíf í torfbæjum. Glaumbær er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Starfssvæði Byggðasafns Skagfirðinga, sem er elsta byggðasafn landsins, er allur Skagafjörður og í dag er safnið með bækisstöðvar á nokkrum öðrum stöðum í héraðinu.

Á bæjarhólnum, þar sem bærinn stendur, hafa hús staðið í mörg hundruð ár. Bæjarhúsin hafa breyst að stærð og gerð og færst til á hólnum, eftir efnum og ástæðum húsbænda á hverjum tíma. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld, í túninu austur af bæjarhólnum og virðist sem bæjarhúsin hafi verið flutt um set um eða fyrir 1100, um mannsaldri eftir að sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ. Snorri var fyrsta evrópska barnið, sem sögur fara af, fætt á meginlandi Ameríku.

Glaumbær er torfríkasti bær landsins. Skýringin er sú að grjót í veggjahleðslu er vart að finna í Glaumbæjarlandi, en torfrista er góð. Það má sennilega fullyrða að hvergi í veröldinni sé torf notað í jafnmiklum mæli í jafn stóra byggingu eins og í Glaumbæ. Veggirnir eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng. Rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum. Bæjarhúsin eru misgömul að efni og gerð því menn byggðu húsin eftir því hvort þörf var á stærri eða minni húsum er kom að endurnýjun.
Það sem skipti sköpum um varðveislu Glaumbæjar að breski Íslandsvinurinn Mark Watson (1906-1979) gaf 200 sterlingspund til varðveislu bæjarins árið 1938.
Bærinn var friðlýstur árið 1947. Sama ár fluttu síðustu íbúarnir burtu úr bænum. Árið 1948 er Byggðasafn Skagfirðinga var stofnað og fékk safnið bæinn fyrir starfsemi sína, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafn Íslands. Sá samningur var síðast endurnýjaður árið 2002.
Ýmsar getgátur eru um bæjarnafnið Glaumbær. Hvort það hafi verið dregið af hávaða eins og fossheitið Glaumur, hávaða af gleðskap, glymjanda í járnsmiðju eða klukknahljómi. Hvort hér hafi einhvern tíma heitið Gamlibær og við brottfall og hljóðvíxl hafi nafnið breyst í Glaumbær. Kenningin er þá sú að bærinn hafi flust til, jafnvel farið í eyði um tíma og byggst aftur í þá tíð er menn voru að þreifa fyrir sér með heppilegt bæjarstæði.28 Hugmynd er einnig um að nafnið geti verið dregið af orðinu glám, sem getur þýtt að vera áberandi, glóa29, glámbær, sem hafi í tímans rás breyst í Glaumbær. Þá hefur sú tilgáta verið orðuð að nafnið gæti verið dregið af járnvinnslu. Í Glaumbæ hafa löngum verið góðir járnsmiðir og jörðin er rauðarík. Kenningin byggir á því að rauðinn hafi verið kallaður gláma. Höfund brestur heimildir um þá orðnotkun. Hæglega gæti gjallandinn frá járnvinnslunni verið glaumurinn sem nafnið var dregið af, alveg eins og efnið sjálft, en allt eru þetta athygliverðar tilgátur.

Glaumbæjarkirkja var vígð 1926. Henni hafa þjónað 7 prestar, sem er merkilegt ef horft er til þess að frá siðbreytingu 1550 til 1925 höfðu samtals, á því tímabili, 14 prestar þjónað kirkjum Glaumbæjar.

Glóðarfeykir

  • Corporate body

Glóðafeykir er fjall í austanverðum Skagafirði, í miðjum Blönduhlíðarfjöllum beint á móti Varmahlíð, svipmikið, burstmyndað og klettótt ofan til en þó fremur auðgengt. Glóðafeykir, sem oft er kallaður Feykir eða Feykirinn er 910 m hár.

Djúpir dalir ganga inn í Tröllaskagafjallgarðinn beggja vegna Glóðafeykis, Flugumýrardalur að norðan en Dalsdalur að sunnan. Tveir bæir standa uppi undir fjallsrótum, Flugumýri að norðan og Djúpidalur í mynni Dalsdals. Sagt er að Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns Arasonar biskups, hafi sumarið 1551 falið sig í tjaldi í Húsgilsdragi á bak við Glóðafeyki fyrir hermönnum sem Danakonungur sendi til Hóla.

Ungmennafélag sem starfaði í Akrahreppi frá því snemma á 20. öld og til 1995 var nefnt eftir fjallinu, Ungmennafélagið Glóðafeykir. Héraðsfréttablaðið Feykir er einnig kennt við fjallið.

Gnýstaðir á Vatnsnesi

  • HAH00273
  • Corporate body
  • (1950)

Landamerkjaskrá fyrir þjóðjörðinni Gnýstöðum í Kirkjuhvammshreppi.

Að sunnan frá sjó úr Krosshól til landsuðurs upp í Ausugeir, og þaðan sömu stefnu fyrir norðan Sjónarhól í Gildru sem einkennd er með vörðu, og frá Gildru beina línu í grjótvörðu, og stendur á háholtinu nálægt ánni fyrir norðan Svartbakka og Tungubæ, og úr þeirri vörðu sömu stefnu til árinnar, ræður þá Tungu og Tjarnará til sjáfar. – Þess skal getið, að Tjörn á, sem í tak, trjáreka í Árvík.

Hvammi, 19. maí 1885
B.G. Blöndal umboðsmaður Þingeyrakl.jarða.

Jón Þorláksson prestur að Tjörn

Grænahlíð í Torfalækjarhreppi

  • HAH00551
  • Corporate body
  • 1948 -

Nýbýli stofnað 1948 úr hálfu Smyrlabergslandi. Bærinn stendur skammt vestan Svínvetningabrautar suðaustan í Smyrlabergsbungunni. Túninu hallar að þjóðveginum. Landið nær frá Laxárvatni austur að Blöndu. Við Blöndu eru grónar valllendiseyrar, svo tekur við votlendisræma, þá brekkurnar, hólarnir og loks mýrar meðfram þjóðveginum, nú framræstar og að hluta ræktað tún. Beitilandi óskipt við Smyrlaberg. Íbúðarhús byggt 1948, 342 m3. Fjós fyrir 10 gripi. Fjárhús yfir 200 fjár. Hesthús yfir 12 hross. Hlöður 528 m3. Geymsla 187 m2. Tún 25 ha. Veiðiréttur í Laxá á Ásum og Laxárvatni.

Grænamýri 1921

  • HAH00652
  • Corporate body
  • 1921 -

Hús þetta var í fyrstu geymsluskúr er tilheyrði Vegamótum, enda stóð það á lóð þess húss. Sumarið 1921 er húsi þessu breytt í íbúðarhús.

Grenjaðarstaðakirkja í Kinn

  • HAH00855
  • Corporate body
  • 1865

Heimildir eru fyrir því að prestur var að Grenjaðarstað árið 1106 og hefur verið þar síðan. Kirkjan var lénskirkja þar til að með biskupsbréfi dags. 28. ágúst 1896 að hún er afhent söfnuðinum til eignar og varðveislu. Núverandi kirkja var reist af sr. Magnúsi Jónssyni 1865 og á aldarafmæli hennar 1965 var hún endurbætt og stækkuð. Bætt var við hana kór og forkirkju og reistur var turn á vesturstafni.

Grenjaðarstaður í Kinn

  • HAH00746
  • Corporate body
  • 1865 -

Grenjaðarstaður var landnámsjörð samkvæmt því er segir í Landnámu, og bjó þar landnámsmaðurinn Grenjaður Hrappsson. Grenjaðarstaður var höfðingjasetur til forna og þar bjó meðal annars Kolbeinn Sighvatsson, sonur Sighvats Sturlusonar. Hann féll í bardaganm á Örlygsstöðum 1238 en var jarðsettur á Grenjaðarstað.

Grenjaðarstaður var eitt af bestu brauðum landsins. Var staðurinn lagður til jafns við Odda, sem þótti besta brauð í Sunnlendingafjórðungi. Átti staðurinn fjölda jarða auk hjáleigna, reka, laxveiði og önnur ítök en heimaland var mikið og gagnsamt. Á meðal presta á Grenjaðarstað má nefna Þorkell Guðbjartsson (d. 1483), Jón Pálsson Maríuskáld (d. 1471) og Sigurð Jónsson (d. 1595), son Jóns biskups Arasonar, sem gerði skrá um eignir biskupsstólsins á Hólum og eignir kirkna á Norðurlandi. Þá má nefna Gísla Magnússon (1712-1779), síðar biskup á Hólum, sem lét byggja kirkjuna þar.

Árið 1931 var Grenjaðarstað skipt í 5 býli og er prestssetrið nú aðeins fimmtungur jarðarinnar.

Grettishæð á Kili

  • HAH00979
  • Corporate body
  • 874 -

Grettishæð er nálægt miðjum Stórasandi. Er það móbergsdrangur, sem stendur upp úr sandinum. Segir sagan að þar hafi Grettir Ásmundarson setið og hugað að mannáferðum yfir sandinn og munu þær hafa verið meiri þá en nú.
í Grettissögu er frásögn um för Þorbjarnar önguls, er hann reið til þings og ætlaði að hafa höfuð Grettis með sér þangað. Halldór Önguls, hitti hann á leiðinni og réð honum frá þeirri fyrirætlan. „Þá voru þeir komnir á veg og ætluðu að ríða Sand suður. Öngull lét þá taka höfuð Grettis og grafa það í sandþúfu eina. Er það kölluð Grettisþúfa". Þannig segir höfundur Grettissögu frá. Hér getur tæplega verið átt við aðra leið en þá, sem nú heitir Skagfirðingavegur. Stórisandur var jafnan kallaður Sandur og ber það heiti enn hjá flestum, sem næstir honum búa. Grettisþúfunafnið er ekki lengur notað, en Grettishæð heitir alkunnur og mjög áberandi staður á Stórasandi fast við Skagfirðingaveg. Sést hún langt að úr öllum áttum.

Grettishellir í Kjalhrauni

  • HAH00352
  • Corporate body
  • (1950)

Kjalvegirnir voru tveir, annar lá um miðjan Kjöl og yfir Kjalhraun, en hinn um Þjófadali og suður með Fúlukvísl. Um síðustu aldamót var vegurinn yfir Mið-Kjöl leitaður uppi og varðaður fyrir atbeina danska höfuðsmannsíns Daniels Bruun. Hann varð þó aldrei fjölfarinn. Vestari leiðin var vörðuð sumarið 1920.

Kunn er harmsaga Reynistaðarbræðra og förunauta þeirra. Þeir urðu úti á Kjalvegi árið 1780. Beinhóll er kenndur við beinaleifar af sauðfé og hestum þeirra. Á hólnum er minnisvarði um þá. Látið beinaleifarnar liggja óhreyfðar. Grettishellir er 2 km sunnan Rjúpnafells, stór hraunhóll með mörgum vörðum. Í honum er hellir, opinn í báða enda, nefndur Grettishellir. Ekki er vitað, hvort Grettir var þar.
Förum frá hestarétt hjá Múla við Fúlukvísl í norðausturátt, austur fyrir Kjalfell, þaðan sem leiðin er vörðuð. Síðan með fellinu að austanverðu og áfram norður um Beinhól og Grettishelli og vestan við Rjúpnafell. Á veg 35 sunnan við Þúfunefsfell, með honum vestur að Hveravöllum.

Grettistak vestan undir Suðurmanna Sandfelli

  • HAH00275
  • Corporate body
  • (1900)

Grettistak vestan undir Suðurmanna Sandfelli norðanvert.

Grettistök heita stóreflisbjörg, sem sagt er, að Grettir sterki hafi lyft upp á smærri steina, sem þau hvíla á. Grettistak er á Þingmannaheiði og annað á Trékyllisheiði. Grettir lifði fram á 11. öld, og er til saga af honum, sem er allmjög þjóðsagnakennd. Hefur hún nýlega verið gefin út á Hólum. Steinatök þessi eru svo stór, að óhugsandi er, að nokkur maður hefði getað náð tökum á þeim til þess að hreyfa þau, enda þótt hann hefði haft næga krafta til þess. En í fornöld, þegar landið var miklu fólksfleira en nú og menn riðu í hópum um fjallvegu þessa, þá er trúlegt, að margir menn í sameiningu hafi lyft þessum björgum, en það gátu þeir auðveldlega, ef þeir hafa haft með sér reipi. En líklega hafa þeir skemmt sér við tilhugsunina um það, að seinni tíma menn héldu, að forfeður þeirra hafi verið svo miklu sterkari og stærri en þeir, og þekkjast þess dæmi frá öðrum stöðum. Á Grettistakið á Þingmannaheiði er krotaður rúnastafur, sem sagt er, að sé nafn Grettis, en þetta er einungis 100 ára gamalt fangamark og því enginn eiginlegur rúnastafur.

Frá Álkuskála til Arnarvatns.
Álkuskáli er kenndur við Álftaskálará á Haukagilsheiði. Dæmigerð reiðleið um opnar og víðfeðmar heiðar Húnavatnssýslna. Að miklu leyti er landið gróið á þessari leið norðan Fellaskála. Mestur hluti hennar er á jeppaslóð, sem liggur úr Víðidal upp á Víðidalstunguheiði. Síðari hluti leiðarinnar, þegar komið er suður fyrir Fellaskála, er í vesturjaðri Stórasands. Þar lá hinn forni Skagfirðingavegur úr Borgarfirði eftir að ferðir lögðust að mestu af um Kjöl. Stórisandur er lítt gróið hæðaland, í 700-800 m hæð, í Húnaþingi norðan Langjökuls. Milli Arnarvatnsheiðar og Kjalvegar norðan Seyðisár. Þarna eru jökulsorfin og víða stórgrýtt grágrýtishraun, sem eru þó víða greiðfær. Borgfirðingar riðu þessa leið til Örlygsstaðabardaga 1238.
Förum frá Álkuskála í 560 metra hæð eftir reiðgötu til vesturs og suðvesturs að slóð norðan úr Víðidal. Fylgjum þeirri slóð til suðurs, í tæplega 600 metra hæð, vestur fyrir Litla-Sandfell og Suðurmanna-Sandfell. Komum að Fellaskála austan við Kolgrímsvötn. Fylgjum jeppaslóðinni áfram til suðurs vestan við Fossabrekkur, unz við komum hjá Grettishöfða að jeppaslóð yfir Stórasand. Förum þá slóð til vesturs að Skammá, sem rennur úr Réttarvatni í Arnarvatn. Förum yfir ána og síðan suður fyrir Arnarvatn og vestur fyrir það að Hnúabaksskála norðvestan við vatnið, í 540 metra hæð.

Suðurmannasandfell är ett berg i republiken Island. Det ligger i regionen Norðurland vestra, 130 km nordost om huvudstaden Reykjavík. Toppen på Suðurmannasandfell är 713 meter över havet, eller 107 meter över den omgivande terrängen. Bredden vid basen är 2,0 km.
Trakten runt Suðurmannasandfell är nära nog obefolkad, med mindre än två invånare per kvadratkilometer. Det finns inga samhällen i närheten. Trakten runt Suðurmannasandfell består i huvudsak av gräsmarker.

Grímstunga í Vatnsdal

  • HAH00044
  • Corporate body
  • (950)

Forn kirkjujörð og prestssetur til 1847. Bærinn stendur á sléttu hólbarði rétt sunnan Álku spöl neðan brekkna. Takmarkast jörðin af Vatnsdalsá að austan, en Álku að vestan. Beitarhús [Kvisthagi] móti Forsæludal. Þar hét Litlidalur áður. Fyrrum átt jörðin alla Grímstunguheiði suður á há Stórasand. Fjölfarinn reiðvegur lá yfir yfir heiðarnar niður hjá Grímstugu. Heimagrafreitur er efst í túni. Í túnjaðri var Grímstungukot, en sel við Selkvísl, er skilur heimaland og heiði. Skútabær við Álku á Skúteyrum. Grímstungusel var í Fremridal. Íbúðarhús byggt 1921, 754 m3. Fjós fyrir 11 gripi. Fjárhús yfir 255 fjár. Hlaða 450 m3. Votheysgryfjur 120 m3. Haughús 160 m3. Tún 29,3 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá og Álku.

Grímstunguheiði

  • HAH00017
  • Corporate body
  • (1950)

Þorgils skarði og Sturla Þórðarson sendu framvarðarsveit á undan sér um Grímstunguheiði, þegar þeir fóru að Ásgrími Þorsteinssyni í Hvammi í Vatnsdal árið 1255. “Þeir höfðu hestakost lítinn og fórst þeim seint; en þeir Bergur riðu ákaft norður eftir heiðinni og gátu tekið njósnarmenn Nikuláss hjá Grímstungumannaseljum; voru þeir þegar bundnir og barðir mjög.” Þessi heiði var á Sturlungaöld sjaldnar farin til Vatnsdals en Haukagilsheiði, sem er næst fyrir vestan hana. Báðar höfðu þann kost, að þær lágu ekki um byggðir, svo að minni líkur voru á, að njósn bærist þeim, sem riðið var að.
Förum frá Grímstungu beint suður Tunguna á Grímstunguheiði og suðsuðaustur um Hestás og Sílvatnsás. Síðan til suðurs vestan við Sílvatn og Austara-Gilsvatn og suður Illaflóa. Þar förum við austan við Þórarinsvatn og vestan við Svínavatn, síðan til suðsuðausturs austan við Gedduvatn og vestan við Galtarvatn að vegamótum. Þar er slóði um þrjá kílómetra austur í fjallakofann í Öldumóðu.

Nálægar leiðir: Stórisandur, Öldumóða, Forsæludalur.
Öldumóða: N65 10.928 W19 54.823.

Helstu vötnin á Grímstunguheiði eru Þórarinsvatn Svínavatn, Galtarvatn og Refkelsvatn. Úr Refkelsvatni rennur Refkelslækur. Góð bleikju veiði er í þessum vötnum og lækjunum sem renna í/úr þeim

Grjótá á Kjalvegi

  • HAH00279
  • Corporate body
  • (1950)

Vegagerð ríkisins lét smíðabrú yfir Grjótá sumarið 1992 yfir Grjótá á Kjalvegi undir Bláfelli . Grjótá er að jafnaði vatnslítil en varð gjarnan örðugur farartálmi í vatnavöxtum vor og haust. Smíði 23 metra langrar brúar yfir ána hófst í lok júlí og lauk framkvæmdum á þriðjudaginn þegar lokið var tengingu vegar beggja vegna árinnar við brúna. Yfirsmiður við brúarsmíðina á Grjótá var Jón Valmundsson.

Fyrrum var Kjölur afréttur og eign Auðkúlu í Austur-Húnavatnssýslu en núna er hann afréttur Biskupstungna. Sundurdráttur fjár fór fram í Gránunesi, þegar svæðið tilheyrði Auðkúlu, en eftir að mæðiveikisgirðingin var sett upp norðan Hveravalla hefur slíkt verið óþarft. Önnur (Jón Eyþórsson) byggir á landslaginu í Kjalhrauni, sem lítur út eins og bátur á hvolfi séð sunnanfrá.Tvær kenningar eru uppi um tilurð nafns svæðisins, Kjölur. Hin (Guðmundur Kjartansson) gerir ráð fyrir að norska nafnið hafi verið yfirfært. Þetta örnefni er víða notað á landinu, þar sem eru vatnaskil, s.s. á Vestfjörðum. Kjalvegur er u.þ.b. 200 km langur á milli Gullfoss og Blöndudals. Eftir að Grjótá, Sandá og Seyðisá voru brúaðar er vegurinn orðinn fær öllum bílum á sumrin. SBA-Norðurleið hf. heldur uppi áætlunarferðum um Kjalveg á sumrin.

Grjótá í Vatnsdal

  • HAH00801
  • Corporate body
  • 874-

Gilá og Grjótá falla úr Vatnsdalsfjalli í Vatnsdalsá. Þær eru báðar vatnslitlar, einkum Grjótá, enda nær hún aðeins skammt upp fyrir fjallsbrúnina.

Grund / Syðri-Grund í Svínavatnshreppi

  • HAH00525
  • Corporate body
  • [1300]

Grund er ættarjörð, Þorteinn Helgason og Sigurbjörg Helgadóttir kona hans fluttu þangað 1846 við skiptin 1950 þegar nýbýlið Syðri-Grund var stofnað, hélt gamla jörðin efti flatlendinu norðan þjóðvegarins, allt norður að Svínavatni. Mikill hluti þess er ákjósanlegt ræktunarland. Gamlatúnið og og byggingarnar eru uppvið fjallsræturnar. Svínadalsfjallið er þarna hátt og bratt, en gott til beitar neðan til. Miðhlíðis er stallur eða skálar. Þar eru tvær tjarnir [Grundartjarnir] og í þeim talsverð silungaveiði. Úr norðari tjörninni fellur lækur niður hlíðina og við hann reist heimilisrafstöð fyrir grundarbæina 1953. Hún framleiðir enn rafmagn til húshitunnar. Íbúðarhús byggt 1937 og 1959, 485 m3. Fjós fyrir 16 gripi með mjólkurhúsi og og áburðargeymslu. Fjárhús yfir 240 fjár. Hesthús yfir 16 hross. Hlöður 2020 m3. Tún 23 ha. Veiðiréttur í Svínavatni, Grundartjörnum og Svínadalsá.

Syðri-Grund var skipt út úr Grund 1950. Nýbýlið hlaut land sunnan þjóðvegarins sem liggur þvert yfir dalinn. Þetta land er jafnlent mýrlendi, með góðum halla til uppþurrkunar. Auk þess er notagott beitiland í fjallinu. Íbúðarhús byggt 1950, 469 m3. Fjós fyrir 12 gripi með áburðargeymslu og mjólkurhúsi. Fjárhús yfir 200 fjár og önnur yfir 200 fjár. Gömul torfhús yfir 20 hross. Hlöður 800 m3. Tún 27 ha. Veiðiréttur í Svínavatni, Grundartjörnum og Svínadalsá..

Grund Blönduósi (1897-1930) /Klaufin

  • HAH00651
  • Corporate body
  • 1897 -

Bærinn byggður 1897. Fyrsta íbúðarhúsið, ásamt Litla-Enni sem reist var utan ár á Blönduósi. Bærinn var í daglegutali kallaður Klaufin, eftir Reiðmannaklauf, sem er upp af bænum. Voru íbúarrnir mjög ósáttir við nafngiftina.

Grundarás í Miðfirði 1964

  • Corporate body
  • 1964 -

Nýbýli byggt 1964 af Aðalbirni Benediktssyni (1925-2008) héraðsráðunautar og Guðrúnu Benediktsdóttur (1928-2015)

Grundarkirkja Eyjafirði 1904

  • HAH00223
  • Corporate body
  • 1904-

Grundarkirkja 1904 er í Laugalandsprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Grund er bær og kirkjustaður frá fornu fari í Hrafnagilshreppi. Þar voru katólskar kirkjur helgaðar heilögum Lárentíusi. Grund tilheyrði Grundarþingum fyrrum. Magnús Sigurðsson, bóndi á Grund, byggði núverandi kirkju árið 1904-05 fyrir eigið fé. Grundarkirkja er með veglegri kirkjum landsins og sú langstærsta sem einstaklingur hefur byggt.

Yfirsmiður var Ásmundur Bjarnason frá Eskifirði. Glerið í gluggana skar Magnús sjálfur. Málari var norskur Muller að nafni. Nokkrir merkir munir sem áður tilheyrðu kirkjunni eru nú varðveittir í Þjóðminjasafni svo sem kaleikur frá 15. öld svo og kirkjustóll úr tíð Þórunnar Jónsdóttur Arasonar. Kirkjan er bændakirkja.

Guðlaugsstaðir í Blöndudal

  • HAH00079
  • Corporate body
  • [1200]

Guðlaugsstaðir er gömul ættarjörð. Björn Þorleifsson lögsagnari var eigandi hennar 1706 og hafði þá búið þar frá 1680. Síðan hafa niðjar hans búið þar samfellt, Guðmundur núverandi [1975] eigandi hennar er 7. liður frá Birni. Þetta er stór og mikil jörð. Einkum er beitilandið mikið og kjarngott. Ræktanlegt land er mikið en að mestu 250-280 metra yfir sjávarmáli. Þar hefur verið ræktað stórt tún en í köldum sumrum sprettur það ekki eins vel og túnin neðar í dalnum sem eru í 120-130 metra hæð. Íbúðarhús reisulegur burstabær byggður 1875, stækkaður 1926. Fjós fyrir 24 gripi ásamt mjólkurhúsi og áburðargeymslu byggt 1959. Fjárhús byggt 1965 yfir 350 fjár með grindur í gólfi, önnur hús yfir 260 fjár. Hlöður 1500 m3. Þurrkhjallur 36 m3. Tún 48,1 ha. Veiðiréttur í Blöndu og Gilsvatni.

Guðmundarhús borgara 1881-1887

  • HAH00653
  • Corporate body
  • 1881 - 1887

Á milli Skagfjörðshúss (Bjargs, en aðeins ofar og nær ánni en Friðfinnshús) og Pósthússins (Gistihúsið Glaðheimar).
Byggt haustið 1881.

Guðrúnarhús 1879 / Sigurjónshús / Blíðheimar

  • HAH00654
  • Corporate body
  • 1879 -

Guðrúnarhús 1879 (Sigurjónshús 1894) Blíðheimar 1924. Á milli Ólafshúss og Mosfells. Jónshús Konráðssonar 1908-1923/ Blíðheimar (Lúðvíkshús Blöndal 1924).

Guðrúnarstaðir í Vatnsdal

  • HAH00045
  • Corporate body
  • (950)

Bærinn stendur syðst á undirlendi því sem er á milli Vatnsdalsfjalls og Tunguár niður við æana, en var áður upp við fjallsrætur. Undirlendi er frekar lítið, en vel ræktanlegt enda að mestu orðið tún. Landið hækkar ört hér fyrir innan og er hlíðin vel gróin, var fyrrum slægnaland. Hér klofnar dalurinn um Tungumúla og eru Guðrúnarstaðir neðst í austurdalnum. Guðrúnarstaðagerði stóð á árbakkanum sunnan við núverandi bæjarhús. Íbúðarhús byggt 1962, 250 m3 og nýtt 1976. Fjárhús yfir 600 fjár. Votheysgryfja 50 m3. Verkfærageymsla 185 m3. Gamall bær og braggi. Hlaða 1000 m3. Tún 31,7 ha. Veiðiréttur í Tunguá.

Gullfoss

  • HAH00908
  • Corporate body
  • 874 -

Gullfoss er foss í Hvítá upp af Haukadal í Árnessýslu á Íslandi, hann er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.
Í byrjun áttunda áratugarins fór viðhorf fólks í umræðu um nýtingu vatnsafls að breytast í þá átt að meira fór að bera á umræðu um náttúruvernd en áður.

Um miðjan áttunda áratuginn komu fram hugmyndir um að friðlýsa Gullfoss. Þegar menn voru komnir af stað með að útbúa friðlýsingu fyrir fossinn, bauð Einar Guðmundsson fram eins mikið land til friðlýsingar meðfram Hvítá eins og menn töldu nauðsynlegt og samkomulag næðist um. Boðið var þegið og Gullfoss og landið sem Einar gaf var friðlýst árið 1979.

Nokkrum árum eftir að Gullfoss var friðaður komu fram hugmyndir um að skilgreina fossinn innan þjóðgarðs. Það varð þó ekki niðurstaðan, heldur sú að tryggja að rétt væri staðið að verndun svæðisins ásamt því að byggja upp þjónustu við ferðamenn.

Gullhellir við Gullhellisvík á Skagaströnd

  • HAH00924
  • Corporate body
  • 874

'Þá er frá Hellisvík til móts við Finnsstaði', segir í skránni um
næsta rekamark. Hellisvík er nær beint vestur af bænum á Harastöðum að sögn kunnugra.
En 'til móts við Finnsstaði' merkir að landamerkjum Harastaða og Finnsstaða.
Þetta rekamark nær því ekki yfir nema hluta af Harastaðafjöru, varla meira en eins og einn km að lengd.

Hér bætir sr. Jónas við: „nf. i Gullhnóttswyk. — Kemur það heim við landamerkjalýsingu í svo nefndu Finnsstaðabréfi frá 1387 (nema örnefnið er afbakað hjá sr. Jónasi): Item landamerki millum Finnzstada ok Harrastaða. Rettsyni or fuglstapa þæim er stenðr j midri Gullhellis vik og wpp i klettinn ok or klettinum Rettsyni i klofua steina. ok or klofua stæinum Rettsyni j mosakellduna firir sunnan höl . . .
Islandske originaldiplomer indil 1450, udg. af Stefán Karlsson, Kbh. 1963,

App. 13, bls. 426-7. í örnefnaskrá Harrastaða og Harrastaðakots segir um landamerki Harrastaða og Háagerðis, sem upphaflega hefur verið afbýli í Finnsstaðalandi: Syðst þar sem landamerki Harrastaða og Háagerðis liggja að sjó er hamar, sem sjór fellur að. Í þenna hamar er helliskúti nefndur 'Gullhellir'. Næsta vík að norðan er Gullhellisvík .. .

Gullsteinn - Kristnitökusteinn

  • HAH00281
  • Corporate body
  • (1950)

Í Þorvalds þætti víðförla segir segir frá því að Þorvaldur hafi tekið skírn af saxneskum biskupi er Friðrík hét. Óskaði biskup eftir því að fá að fylgja Þorvaldi til Íslands og boða þar kristni. Þegar til Íslands kom dvöldust þeir hinn fyrsta vetur á Giljá hjá Koðráni föður Þorvalds. Víða er að finna sagnir af vættum í steinum í þjóðtrú Norðurlanda og segir að verndarvættur Koðráns bónda hafi búið í steini einum veglegum skammt frá bænum. Þorvaldur óskaði eftir því við föður sinn að þeir Friðrik biskup og íbúi steinsins myndu reyna með sér, hvor þeirra væri máttugri. Fór svo að steinninn brast í sundur við yfirsöngva Friðreks og lagði íbúinn með hyski sitt á flótta. Talið er að höfundar hinna fornu frásagna hafi haft í huga stein þann er kallaður er Gullsteinn og stendur skammt ofan við minnismerkið sem reist hefur verið um þessa fyrstu kristniboða, norðan við bæinn á Stóru-Giljá.

Gunnfríðarstaðir á Bakásum

  • HAH00697
  • Corporate body
  • (1950)

Nú eyðijörð en var áður nyrsta bújörð í Svínavatnshreppi og á land austan í Hálsinum. Helga Jónsdóttir og Steingrímur Davíðsson gáfu Skógræktarfélagi A-Hún jörðina, þar er nú mikil skógrækt. Nokkur hluti landsins er leigður Hrossaræktarsambandi A-Hún og hefur það látið afgirða þar allvænt hólf til geymslu kynbótahrossa. Hús eru öll fallin. Veiðiréttur í Blöndu.

Gunnsteinsstaðakirkja (1432-1724)

  • HAH10055
  • Corporate body
  • 1432-1724

Að því er til aldurs kirkjunnar kemur, virðist hún tvímælalítið vera frá þvi fyrir 1550, en ómögulegt er að ákveða þetta nánar. Þó gæti kirkjan jafnvel hafa verið bygð fyrir 1432, þvi það ár er hún í vísitatiu Jóns biskups IV. virt á 12 hundruð1), og er þar i talið álagið, en kirkja sú, er nú stendur þar, getur einmitt vel hafa verið svo dýr eptir stærðinni (sjá töflu XIV sbr. töflu VI). En þessi rök liggja til aldurs kirkjunnar. Árni Magnússon segir i jarðabók sinni undir Gunn-steinsstöðum2), að þar sé kirkja, sem syngja megi til þegar heimamenn vilja taka sakramenti. í prófasts-skýrslum um kirkjur 1723—1724s) er hennar getið, en úr því ekki; sýnist þvi hafa verið hætt að nota hana á tírnabilinu örskömmu eptir 1724. Gæti hún þvi varla
verið bygð siðar en um 1700. í bréfi, sem bóndinn á Holtastöðum ritaði biskupsdæminu um 1811 (bréfið ó-dagsett)út af rekamáli einu við Gunnsteinsstaði segir hann: »þótt einhverntima hefði Gunnsteinsstaðaskemma — fyrrum kirkja — átt tilkall til.....«. Eptir þessu hefur kirkjan verið orðin skemma, eins og hún er enn i dag, um 1811. í bréfi til biskupsdæmisins um sama mál dags. 21. sept. 18112) segir sami maður: »hvort rekinn skylldi allur tilheyra Holltastaðakirkju eður hálfur Gunnsteinsstaðakirkju, og síðan jarðarinnar eigendur3), þar hún er fyrir mörgum öldum niðurlögð«. Bersýni-lega veit maðurinn ekkert um það, hvenær kirkjan var niðurlögð, annað en að það var fyrir löngu þá, og verður það á hans máli fyrir mörgum öldum. Getur þetta einkar vel staðið heima við að hún hafi lagst niður fyrri part 18. aldarinnar, og er líklegt, að hún hafi þá þegar orðið skemma, að minsta kosti var hún orðin það, er Holtastaðabóndinn ritar bréf það 1811, sem áðan var vitnað í. Ekkert virðist og liklegra en að kirkjan, úr þvi hún hefur getað staðið um 200 ár með þeirri meðferð, sem skemma hlýtur, hafi áður en hún féll úr tigninni getað staðið það liðugt hálft annað hundrað ára, sem þá vantar upp á að hún sé úr ka-þólskum sið, með þeirri meðferð, sem kirkjur fengu, sem alténd hefur verið eitthvað skárri en sú, sem á skemmum var, þó að hún eptir siðaskiptin ef til vill hafi ekki verið eins burðug og skyldi.

Gunnsteinsstaðir í Langadal

  • HAH00164
  • Corporate body
  • um 890

Gunnsteinsstaðir. Landnámsjörð og löngum stórbýli. Bærinn er í skjóllegum hvammi sunnan undir háum hólrana við rætur Langadalsfjalls. Ber þar hæst Nýlendunibba og hefur löngum verið hætt viðskriðuföllum og snjóflóðum. Norðurlandsvegur liggur Gunnsteinastaðahólminn.
Íbúðarhús byggt árið 1925 684 m3. Fjós fyrir 24 gripi. Fjárhús yfir 150 fjár. Hlöður 530 m3. Lóð 25 ha, veiðiréttur í Blöndu.

Háagerði Skagaströnd

  • HAH00446
  • Corporate body
  • (1943)

Finnstaðir og Háagerði eru samliggjandi jarðir. Þetta eru grasgefnar jarðir sem eiga land að sjó með góðri fjörubeit. Í landiþeirra er Finnstaðanes. Háagerði srendur í klettaás, sem mjög víðsýnt er af en Finnstaðir sunnar á skjólríkum stað. Núverandi (1975) eigandi Finnstaða er Höfðahreppur en Háagerði er í eigu Magnúsar Hjaltasonar á Bakka í Skagahreppi.

Skrá um landamerki Háagerðis og Finnsstaða.

Að norðan byrja merki á Gullhellisnöf við sjó, og er þar grjótvarða hlaðin á bakkanum, þaðan liggja merki beina sjónhending fyrir sunnan Hólkot, til vörðu, sem hlaðin er uppá Hólkotsbrekku, þaðan beina stefnu til vörðu á Hrossamýrarhrygg, þaðan ganga merki beina stefnu austur Brandaskarð, sunnan við Háagerðissel til vörðu á Selhrygg, þaðan liggja merki í Brandaskarðsgilbotn, þá ganga merki til vesturs norðan í fjallsbrúnum til klettastrýtu fyrir norðan Leynidali, fyrir norðan Borgarhaus, þaðan liggja merki beina stefnu yfir norðurenda Grenjadals, til Landamerkjagils, og þar sem það endar, sjer fyrir garði til sjóar, er stefnir norðanvert í Sandlækjarós. Í Finnstaðalandi á Spákonufell þrjá teiga fyrir utan Sandlæk út að Sandenda, og upp í flóann, eptir sem vörður vísa, ásamt öllum reka fyrir teigunum. Spákonuarfur er að nokkru leyti fyrir landi jarðanna, að undanteknum þeim hluta, sem liggur fyrir áður nefndum teigum, er heyra Spákonufelli til.

Árbakka í maí 1890.
J. Jósefsson, meðeigandi og í umboði meðeiganda minna að Háagerði
J. Jósefsson, Jens Jósefsson, Jóhann Jósefsson eigendur Spákonufells.
Árni Jónsson í umboði meðeiganda Harastaða.
Fyrir hönd ¾ Harastaða: Andrjes Árnason.
Jónann Jósefsson eigandi Finnsstaða.

Hæli / Hæll í Torfalækjarhreppi

  • HAH00555
  • Corporate body
  • [1300]

Hæli er því sem næst í miðri sveit og er ásamt Meðalheimi og Hurðarbaki á því svæði er nefnast Miðásar. Landið er fremu lítið, en nær allt grasi vaxið og ræktanlegt, mýrlendi og lágir ásar. Byggingarnar standa á lægri hæð vestan lækjar, sem á upptök sín skammt norðan við Reyki og rennur til norðurs og norðvesturs. Lækur þessi nefnist Hælislækur ofantil en Torfalækur hið neðra. Tún og beitiland jarðarinnar er beggja vegna lækjar, en þó meiri að vestan. Íbúðarhús byggt 1934, viðbygging 1954, 262 m3, nýtt hús byggt 1972 480 m3. Fjós 1961 fyrir 30 gripi ásamt mjólkurhúsi og áburðarkjallara. Fjárhús yfir 400 fjár. Hlöður 1884 m3. Votheysturn 84 m3. Geymsla 42 m3. Tún 51,6 ha.

Hafís

  • HAH00282
  • Corporate body
  • (1950)

Hafís við Ísland.
Á hafinu flýtur tvenns konar ís, hafís sem er frosinn sjór, og borgarís sem myndast þegar brotnar úr jöklum sem skríða í sjó fram eða liggja meðfram strönd, eða á henni.
Hafís getur myndast í fjörðum hér við land á köldum vetri. Hann kallast lagnaðarís og er orðið dregið af því að sagt er að fjörðinn leggi.

Aldrei er svo kalt á sumrum að lagnaðarísinn haldist þegar sól hækkar á lofti með vorinu. Hann bráðnar og sömu sögu er reyndar að segja af ís sem leggur að vetrarlagi á stöðuvötnum. Þegar hlýnar með vorinu hverfur lagnaðarísinn.

En hafís við strendur Íslands er að langmestu leyti kominn langt að. Hann berst hingað vestan úr Grænlandssundi. Einnig kemur fyrir að hann komi beint úr norðri að norðausturhorni landsins, en allur er ísinn úr Austur-Grænlandsstraumi.

Það er ískaldur hafstraumur í orðsins fyllstu merkingu. Hann liggur úr Norður-Íshafi suður með endilöngu Austur-Grænlandi.

Þessi mikli og kaldi straumur í grennd við Ísland flytur mikinn ís suður á bóginn, bæði hafís, sem myndast á sjónum og borgarís úr jöklum Grænlands.

Síðla vetrar þekur ísinn fiskimið norðvestur af landinu og oft berst ís austur á bóginn, inn á siglingaleiðir meðfram Íslandi og stundum inn á firði og flóa. Tignarlegur borgarís berst einnig til landsins og er einkum áberandi á haustin.

Hafískoma við Ísland fer í fyrsta lagi eftir ísmagni í Grænlandssundi; í öðru lagi eftir ástandi sjávar í Íslandshafi, hita, seltu og lagskiptingu efst í sjónum; í þriðja lagi eftir almennri lofthringrás yfir norðurhveli, þ.e.a.s. þrýstifari, lægðagangi, veldi Grænlandshæðar eða myndun kyrrstöðuhæðar yfir Atlantshafi. Tiltekin skilyrði í þessum þremur flokkum meginorsaka verða að vera uppfyllt svo að hafís verði við strendur Íslands.

Hafís á Íslandsmiðum er hins vegar býsna algengur, einkum á hafsvæðinu norðvestur af landinu, enda skiptir þá ísmagnið í Grænlandssundi nær eingöngu máli.

Hafnarfjarðarkirkja

  • HAH00880
  • Corporate body
  • 20.12.1914 -

Hafnarfjarðarkirkja var vígð 20. desember 1914. Áður áttu Hafnfirðingar kirkjusókn að Görðum á Álftanesi.

Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 komst skriður á kirkjubyggingarmálið, þótt sú hugmynd hefði reyndar komið fram áður, t.d. um miðja 19. öld að byggð yrði kirkja í Firðinum. Hafnfirðingar leituðu til Rögnvalds Ólafssonar um teikningu að kirkju og skilaði hann teikningu í febrúar 1909. Samkvæmt henni var kirkjan úr steinsteypu og átti að taka 500 manns í sæti eða þriðjung íbúa kaupstaðarins. Var kirkjunni valinn staður í landi sem bæjarfógeti hafði til umsjónar við Strandgötu. Framkvæmdir við kirkjugrunninn hófust haustið 1913 og lauk smíðinni á aðventu 1914.

Yfirsmiður var Guðni Þorláksson, en hann andaðist úr lungnabólgu um það leyti sem smíði kirkjunnar lauk og var lík hans borið í kirkjuna á Þorláksmessu.
Biskupinn, herra Þórhallur Bjarnason, vígði kirkjuna 20. des, 1914.

Hafnarfjörður

  • HAH00283
  • Corporate body
  • (1950)

Hafnarfjörður var í landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar. Hafnarfjörður er fyrst nefndur í Hauksbók Landnámu, þar sem segir frá brottför Hrafna-Flóka og samferðamanna hans frá Íslandi. Frá upphafi landnáms á Íslandi og fram til upphafs 15. aldar kemur staðurinn annars lítið sem ekkert við sögu.

Vegna góðra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi varð Hafnarfjörður ein helsta verslunar- og fiskveiðihöfn landsins frá og með upphafi 15. aldar, eftir því sem skreið tók við af vaðmál sem eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga. Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar fiskveiðar og verslun við Ísland. Árið 1413 kom fyrsta enska kaupskipið að landi sem sögur fara af við Hafnarfjörð. Íslendingar tóku ensku kaupmönnunum vel, en Danakonungur reyndi að koma í veg fyrir verslun Englendinga við Ísland og þess vegna kom oft til átaka milli Englendinga og sendimanna Danakonungs. Eftir því sem árin liðu urðu Englendingarnir ekki eins vel liðnir vegna yfirgangs. Einnig áttu þeir til að ræna skreið frá Íslendingum.
Um 1468 hófu þýskir Hansakaupmenn siglingar til Íslands frá Bergen í Noregi. Næstu tvo áratugina var hörð samkeppni á milli Englendinga og Hansakaupmanna, sem leiddist oft út í slagsmál og bardaga. Þýsku kaupmennirnir höfðu betur að lokum. Þeir gátu boðið ódýrari og fjölbreyttari vöru heldur en Englendingarnir. Á 16. öld var Hafnarfjörður orðinn aðalhöfn Hamborgarmanna á Íslandi.
Um miðja öldina reyndu Danakonungar enn að koma í veg fyrir verslun Þjóðverja á Íslandi og koma versluninni í hendur danskra kaupmanna. Árið 1602 gaf Kristján 4. Danakonungur út tilskipun um einokunarverslun og þar með varð úti um verslunarsamband milli Íslands og Þýskalands.

Á fyrri hluta einokunartímabilsins var Hafnarfjörður helsti verslunarstaður á Íslandi. Frá 1602-1774 var verslunin í höndum danskra kaupmanna og verslunarfélaga, en árið 1774 tók konungurinn við versluninni. Árið 1787 voru eignir konungsverslunarinnar seldar starfsmönnum hennar. Þá myndaðist vísir að samkeppni í verslunarrekstri þegar lausakaupmenn fóru að keppa við arftaka konungsverslunarinnar. Ekkert varð þó meira úr þessari samkeppni, þar sem dönsku kaupmennirnir höfðu yfirhöndina. Árið 1795 kærðu bændur dönsku kaupmennina fyrir of hátt verð á innfluttum vörum og kröfðust þess að verslun yrði gefin algerlega frjáls.

Árið 1794 keypti Bjarni Sívertsen verslunarhús konungsverslunarinnar. Hann gerðist brátt umsvifamikill kaupmaður og útgerðarmaður. Hann keypti gamlar bújarðir í landi Hafnarfjarðar og kom upp skipasmíðastöð. Bjarni varð einn af fyrstu Íslendingunum til að fá verslunarleyfi eftir að danska einokunarverslunin var lögð niður. Vegna umsvifa sinna í Hafnarfirði hefur hann oft verið nefndur faðir Hafnarfjarðar.
Frá árinu 1787 til 1908 voru flestir kaupmenn í Hafnarfirði danskir. Einn norskur kaupmaður var þar, Hans Wingaard Friis frá Álasundi í Noregi og hann búsettist í Hafnarfirði. Í upphafi tuttugustu aldar fór íslenskum kaupmönnum hins vegar að fjölga, en þeim dönsku fór fækkandi að sama skapi.

Hafnarfjörður er bær á höfuðborgarsvæðinu. Þar bjuggu 27.870 manns 1. janúar árið 2015 og hefur bærinn vaxið gríðarlega á síðustu árum og áratugum líkt og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa gert. Höfnin sem bærinn er kenndur við var ein stærsta verslunarhöfn landsins allt frá 16. öld og mikil útgerð hefur verið stunduð þaðan í sögunni. Á 18. öld var rætt um að gera Hafnarfjörð að höfuðstað Íslands, en slæm samgönguskilyrði þangað, lítil mótekja og lítið undirlendi urðu helstu ástæður þess að Reykjavík varð ofan á í valinu. 29. febrúar 2008 náði íbúafjöldi Hafnarfjarðar upp í 25.000 manns, og gaf bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson 25 þúsundasta Hafnfirðinginum gjöf og heiðursskjal.
Hafnarfjörður heyrði undir Álftaneshrepp framan af en eftir skiptingu hans árið 1878 varð bærinn hluti hins nýmyndaða Garðahrepps. Hinn 1. júní 1908 fékk Hafnarfjörður kaupstaðarréttindi og varð þá að sjálfstæðu bæjarfélagi. Íbúar voru þá orðnir 1469 talsins.

Skammt sunnan Hafnarfjarðarbæjar er Straumsvík þar sem Alcan á Íslandi rekur álver. Þann 31. mars, árið 2007 fóru fram íbúakosningar um stækkun álversins í Hafnarfirði. Stækkunin var felld með aðeins 88 atkvæðum.
Fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi var sett upp 12. desember 1904 í Hafnarfirði af Jóhannesi Reykdal, veitan liggur í gegnum Hamarskotslæk. Hann er líka einn mesti gufustaður landsins.

Upphaflega var Hafnarfjörður hluti af Álftaneshreppi. Hafnarfjörður hafði þá sérstöðu miðað við aðra staði í hreppnum að aðalatvinnuvegur þar var sjávarútvegur, en ekki landbúnaður. Vegna þessarar sérstöðu var vilji til þess að gera Hafnarfjörð að sérstöku sveitarfélagi og kom hugmyndin fyrst fram opinberlega árið 1876.

Árið 1878 var haldinn hreppsnefndarfundur í Álftaneshreppi, þar sem samþykkt var að skipta hreppnum í þrennt: Álftaneshrepp, Garðahrepp og Hafnarfjörð. Gengi það ekki var ákveðið að hreppnum yrði skipt í tvennt: Bessastaðahrepp og Garðahrepp. Seinni tillagan var samþykkt og varð Hafnarfjörður því hluti af Garðahreppi.
Aftur var reynt að fá kaupstaðarréttindi árið 1890. Á fundi hreppsnefndar Garðahrepps í júní það ár var kosin nefnd til að ræða um kaupstaðarréttindi Hafnarfjarðar. Nefndin hélt fund 27. febrúar 1891, þar sem kosið var um skiptingu hreppsins, en meirihluti fundarmanna var andvígur skiptingunni. Var málið því látið niður falla og lá það niðri næstu árin vegna erfiðra tíma í Hafnarfirði.

Næst var hreyft við málinu árið 1903. Í mars það ár komu nokkrir íbúar í Hafnarfirði því til leiðar að frumvarp var lagt fram á Alþingi til laga um kaupstaðarréttindi Hafnarfjarðar. Í frumvarpinu var m.a. gert ráð fyrir því að bæjarfógetinn í Hafnarfirði yrði jafnframt bæjarstjóri og laun hans yrðu greidd úr landssjóði. Frumvarpið var fellt í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Það var lagt fram aftur á Alþingi árið 1905, en aftur fellt í atkvæðagreiðslu. Hins vegar afgreiddi Alþingi frumvörp sem gáfu kauptúnum meiri sjálfstjórn en áður, en þau gengu ekki nógu langt til að Hafnfirðingar yrðu ánægðir.

Enn var því komið til leiðar að frumvarp um kaupstaðarréttindi Hafnarfjarðar var lagt fyrir Alþingi, nú árið 1907. Meðal breytinga frá fyrra frumvarpinu var sú að nú var gert ráð fyrir því að bæjarstjóri fengi greidd laun úr bæjarsjóði en ekki landssjóði. Þetta frumvarp var samþykkt sem lög nr. 75, 22. nóvember 1907 og tóku lögin gildi 1. júní 1908. Hafnarfjörður varð þar með fimmta bæjarfélagið á Íslandi sem fékk kaupstaðarréttindi

Hafnir á Skaga

  • HAH00284
  • Corporate body
  • (1950)

Bærinn stendur skammt frá sjó. Þar eru flest þau hlunnindi sem einni jörð fylgja hér á landi, svo sem æðarvarp í eyjum skammt frá landi, selveiði við sker og klettabríkur, viðarreki, fjörubeit og silungaveiði við túnfótinn, en jarðhitum hefur smiðum jarðar yfirsést að láta fylgja. Heimahagar eru grösugir og víðlendir og heiðarland stórt.
Íbúðarhúsbyggt 1954, steinsteypt 455 m3. Fjárhús með kjallara steypt 1960 fyrir 300 fjár. Fjárhús með kjallara járnklætt byggt 1965, fyrir 90 fjár. Hlaða 555 m3. Fjós byggt 1930 úr torfi og grjóti fyrir 5 gripi. Hesthús byggt 1940 úr torfi og grjóti fyrir 35 hross. Tún 24,1 ha. Æðarvarp, selveiði og reki.

Hafragilsfoss í Jökulsá á Fjöllum

  • Corporate body
  • 874-

Hafragilsfoss er foss í Jökulsá á Fjöllum á Norðurlandi eystra. 2,5 kílómetrum ofar í ánni er Dettifoss. Fossinn er 27 metra hár og um 91 metra breiður

Hafursstaðir

  • HAH00611
  • Corporate body
  • (1950)

Bærinn stendur nú á norðurbakka Hafursstaðaár, neðan vegar. Áður var bærinn sunnan ár og ofan þjóðvegar undir skýlli brekku. Í austri gnæfir Hörfell. Jörðin er landmikil og ræktunarskilyrði ágæt. Íbúðarhús byggt 1945 405 m3. Fjós yfir 6 kýr. Fjárhús yfir 370 fjár. Hlöður 653 m3. Geymslur 221 m3. Tún 16,4 ha. veiðiréttur í Hallá einnig hrognkelsaveiði..

Hagi - Norðurhagi í Þingi

  • HAH00500
  • Corporate body
  • (1950)

Hagi. Gamalt býli. Bærinn stendur á lágum ási skammt austur frá Hópinu, við norðurjaðar núverandi landeignar, áður nálægt miðju hennar, tún eru til vesturs og suðurs frá bænum, beitiland til suðurs og austurs, svo til allt graslendi og að verulegu leyti vaxið mýrargróðri, ræktunar skilyrði eru mjög góð. Jörðin var fyrr meir klausturjörð, nú um alllangt skeið bændaeign. Íbúðarhús byggt 1927 og 1946, 329 m3. Fjós fyrir 15 gripi, mjólkurhús og haughús. Fjárhús yfir 200 fjár. Hlöður 520 m3. Vothey 50 m3. Geymslur 90 m3. Tún 30 ha. Veiðiréttur í Hópinu.

Norður-Hagi. Nýbýli úr Hagalandinu, stofnað 1972. Bærinn stendur í sama túni og Hagi, aðeins lítið lækjardrag milli húsa. Tún vestur og norður frá bænum og beitiland til norðurs og austurs að meiginhluta mýrlendim nú að verulegu leyti framræst, ræktunarskilyrði mjög góð. Íbúðarhús byggt 1972, 660 m3. Fjárhús yfir 500 fjár. Hlöður 100 m3. Tún 16,7 ha. Veiðiréttur í Hópinu.

Hallárdalur Vindhælishreppi

  • Corporate body
  • 874 -

Hallárdalur gengur upp í fjöllin skammt fyrir innan Höfðakaupstað. Hann er klukkutíma gangur í sæmilegur færi af Kjölunum hjá Kjalarlandi og upp að Þverá. Dalurinn er snjóléttur neðan til og þar er góð útbeit en engjar minni en snjóþungur framar og betri engjar.

Fimm bæir eru í dalnum, Bláland neðst að sunnan, að norðan eru Vakursstaðir, Sæunnarstaðir, Bergsstaðir og Þverá. Dalurinn er fríður að sumrinu og helst á Sæunnarstöðum, þar er engi fallegt og minnir á engjajarðirnar í Vatnsdal. Sæunnarstaðir hafa líka haft mikið orð fyrir engið og þrír bæir hafa átt þar ítök frá fornu fari í skiptum fyrir annað, sem þá hefur verið álitið að Sæunnarstaðir gætu ekki verið án. Þannig átti Bláland í enginu á móti sauðabeit að vetrinum, Vindhæll besta stykki úr enginu móti skipsuppsátri og Hafursstaðir engjateig gegn sölvatekju.

Úr gilum falla feikna ár
fossa gjalla strengir.
Þar eru stallar, gil og gjár
grundir, falleg engi.

Fögur kallast kann hér sveit,
krappur fjallasalur.
Þó hefur galla, það ég veit,
þessi Hallárdalur.

[Baldvin skáldi]

Halldórshús innan ár 1924

  • HAH00655
  • Corporate body
  • 1924 -

Halldórshús innan ár 1924. Byggt við húsið 1935, brann um 2002 en endurreist.

Halldórshús utan ár

  • HAH00656
  • Corporate body
  • 1909 -

Byggt af Halldóri Halldórssyni kennara 1909. Hann hóf verslun í húsinu þá þegar.

Hallormsstaður á Skógum

  • HAH00238
  • Corporate body
  • 1903 -

Hallormsstaður er þéttbýliskjarni og áður kirkjustaður og prestssetur í Hallormsstaðaskógi. Þar var stofnaður hússtjórnarskóli árið 1930 en áður hafði verið þar einkarekinn kvennaskóli. Með tímanum reis upp dálítið byggð í kringum hann og starfsemi Skógræktar ríkisins og er það eina skógarþorpið á Íslandi. Á Hallormsstað bjuggu 48 manns 1. janúar 2011. Hallormsstaður tilheyrir sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði.

Hallormsstaður er við austurbakka Lagarfljóts, um 27 km sunnan Egilsstaða. Hallormsstaðaskógur er stærsti skógur á Íslandi. Upphaflega var skógurinn í landi jarðarinnar friðaður 1905 en friðunarsvæðið hefur mikið stækkað síðan. Skógræktarstöð var stofnuð á Hallomrsstað 1903 og nú er þar aðsetur skógarvarðarins á Austurlandi og starfsstöð Skógræktar ríkisins. Trjásafn er í skóginum og margvísleg aðstaða fyrir ferðamenn.

Tjaldsvæðin í skóginum eru tvö í Atlavík og Höfðavík. Atlavík er innan við þéttbýliskjarnan á Hallormsstað. Margar litlar og stórar flatir eru þar undir birkiskermi. Höfðavík er utan við þéttbýliskjarnan á Hallormsstað, svæðið skiptist niður í 4 svæði og er afmarkanir á þeim með birkiskógi. Neðsta svæðið er niður við fallega vík.

Hamar á Bakásum

  • HAH00526
  • Corporate body
  • 1648 -

Hamar er meðalstór jörð, sem á land austan í Hálsinum gegnt Stóra-Búrfelli og niður að Blöndu. Þar er gnægt ræktarlands. Íbúðarhús jarðarinnar brann 1959 og síðan hefur ekki verið föst búseta á jörðinni [1975], en jörðin er þó nytjuð að fullu. Ábúendur hafa haft íbúð á Ásum. Jörðin var kristfjárjörð. Íbúðarhús byggt um1976. Fjárhús yfir 200 fjár. Hesthús yfir 14 hross gömul torfhús. Hlaða 200 m3. Votheysturn 40 m3. Tún 30,8 ha. Veiðiréttur í Blöndu.

Kristfjárjörð

Hamarsrétt á Vatnsnesi

  • HAH00285
  • Corporate body
  • (1950)

Hamarsrétt stendur á einstökum stað í fjörukambinum á vestanverðu Vatnsnesi. Réttin er notuð á haustin þegar bændur á Vatnsnesi rétta fé sitt sem þeir smala saman úr fjallinu. Sunnan við Hamarsrétt er Hamarinn, klettaberg sem fengið hefur nafnið Kallhamar, tilkomið vegna þess að á árum áður var mikið útræði frá Vatnsnesi og þegar koma þurfti boðum til báta á sjó var farið fram á hamarinn og gefið merki eða kallað til nærliggjandi báta. Sunnan við Hamarinn má enn finna rústir frá sjóbúðum og útræði sem þar var mikið. Litlu norðan við fjárréttina stendur Hamarsbúð, félagsheimili húsfreyjanna á Vatnsnesi. Þar halda þær sína árlegu sumarhátíð, Bjartar nætur og bjóða uppá mikið Fjöruhlaðborð sem svignar af fjölda kræsinga og sjaldséðum mat, sem byggir á gömlum hefðum og hráefni úr sjó og af landi á Vatnsnesi.

Hamrakot Torfalækjarhreppi

  • HAH00700
  • Corporate body
  • [1300]

Eyðibýli milli fremri Laxár og Orrastaða. Byggingar er fallnar og tún lítíð, þýft og ógirt. Rétt norðan við Laxárbrú hefur Ólafur Pálsson frá Sauðanesi eigandi jarðarinnar steypt upp Stóran sumarbústað. Veiðiréttur í Fremri-Laxá, Laxárvatni og Laxá á Ásum. Eignadinn hefur lánað Hrossaræktarfélagi Torfalækjarhrepps mikinn hluta landsins í nokkurn tíma á ári [1975] og hefur félagið girt af landið og hefur þar kynbótahest að vorinu, en félagsmenn láta hryssur sínar þangað. Ábúendaskipti voru tíð í Hamrakoti, enda slægjur takmarkaðar og jörðin landlítil og frekar kostarýr.

Hannahús Blönduósi

  • HAH00657
  • Corporate body
  • 1924 -

Byggt 1924 af Jóhanni Kristjánssyni. Húsið stóð á sömulóð Vertshús foreldra hans áður en það brann 1918. Þar sem nú stendur fv útibí KH.

Hannes Gunnlaugsson Blöndal Stephensen (1863-1952) / H Blöndal, ljósmyndari Reykjavík.

  • HAH06639
  • Corporate body
  • 25.10.1863 - 9.9.1932
  1. okt. 1863 - 9. sept. 1932. Skáld og bankaritari. Verslunarmaður á Akureyri til 1893, svo á Ísafirði, Hjörsey og Borgarfirði.
    Fór til Vesturheims 1900 frá Hjörsey, Hraunhreppi, Mýr. Blaðamaður og ritstjóri í Winnipeg 1899-1907.
    Húsbóndi í Reykjavík 1910. Bankaritari á Njálsgötu 10 a, Reykjavík 1930.

Hátún í Kálfshamarsvík

  • HAH00420
  • Corporate body
  • 1906

Ofarlega á Nesinu, torfbær með timburhlið að framan byggður 1906

Hátún nú tópt. Um 18m austur af fjárhús tóft nr. 52 og 8m vestur af grunni Skólahússins eru tóftir býlisins Hátúns. Lýsing Tóftin er tvískipt og snýr norðaustur-suðvestur, syðra húsið er 2,3x3,4m (NV-SA) með dyr til suðausturs. Norðan við er stærra hús 3x6m (SV-NA) með dyr til suðausturs og steyptan skorstein fyrir miðjum norðvesturvegg. Veggirnir eru úr torfi, strenghlaðnir, um 20-150sm háir, og um 1m breiðir.

Á upplýsingaskilti við tóftina segir: „Hátún var byggt 1906 af Jóhanni Helgasyni. Síðast bjó hér Jóhannes Einarsson útgerðarmaður 1961. Hann var síðasti íbúinn á Kálfshamarsnesi.“ Grunnur svonefnds Skólahúss er austan við tóftina, Skólahús fær ekki númer í fornleifaskránni þar sem minjarnar eru hvorki úr torfi og grjóti né nægilega gamlar til að teljast til fornleifa

Haugur í Miðfirði V-Hvs

  • HAH00836
  • Corporate body

Er vestan Núpsár, gegnt Núpsdalstungu. Bærinn stendur á túni ofan vegar. Landið nær vestur á háls gegnt Skeggjastöðum. Sæmilegt til beitar en ræktunarskilyrði takmörkuð.
Ábúendur og eigendur (1978): Stefán Davíðsson og k.h. Guðný Gísladóttir. Einnig Haukur Stefánsson.

Haukagil í Vatnsdal

  • HAH00046
  • Corporate body
  • (900)

Frá fornufari hefur bærinn staðið uppi við túnhólana, en 1936 var hann færður þangað, sem nú er. Umhverfi slétt og þurrt, ræktunarskilyrði góð. Áður tilheyrði jörðinni Haukagilsheiðin öll, hálfar Lambatungur og Kornsártungur. Voru lönd þessi seld 1883. Til 1925 var eyðibýlið Gilhagi hluti af jörðinni. Þar fór í eyði 1931. Vatnsdalsá og Álka falla samana niður undan bænum, Suður við Álku stóð býlið Gilsbakki áður fyrr. Fram með Álku stóðu tvö sel. Fremstasel sunnan Gilhaga en Ystasel að norðan, Heimagrafreitur er í skógarlundi. Jörðin er ættarjörð. Íbúðarhús byggt 1937, 288 m3. Fjárhús yfir 550 fjár. Hesthús yfir 5 hross. Hlöður 856 m3. Votheysgryfja 40 m3. Geymsla og smiðja. Tún 46,6 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá og Álka.

Heggstaðanes

  • HAH00577
  • Corporate body
  • (874)

Landamerki jarðarinnar Heggsstaða í Melstaðarsókn og Ytri Torfalækjahreppi.

Milli Útibleiksstaða og tjeðra jarða liggja merkin úr fremstu flöguodda á svokölluðum Landamerkjaranga beina sjónhendingu, norðanve3rt í bölum, í flatan stein á Lyngás, norðanverðan Árnaþúfu, á hvern að eru klappaðir stafirnir L.M, og svo áfram allt upp á tanga, sem gengur norður í Þorgeirsvatn. Beri hval eða anna reka að landi, á flögu þá er merkin liggja um, skal hann tilheyra báðum jörðunum, sinn helminginn hvorri. Milli Bálkastaða og tjeðrar jarðar liggja merkin úr áðurnefndum Þorgeirsvatnstanga beina sjónhending í norður um þúfu, sem stendur suðvestan á Heggsstaðaheiði, og þá beint áfram um slakka, er liggur frá norðri til suðurs vestanvert við háheiðina, og er þar settur marksteinn með stöfunum L.M., og svo í stein, merktan L.M., sem stendur austanvert í miðri vík, sem er sú næsta fyrir austan Hvítabjarnargjá. Flaga gengur í sjó fram undan steininum, beri hval eða annan reka á þá flögu, skal hann til helminga skiptast milli jarðanna. Tólf vætta ítak í tvítugum hval og stærri telur fjárráðari Gilsbakkakirkju í Hvítársíðu hana eiga í hvalreka á Heggsstöðum.

Heggsstöðum, 20. maí 1889.
P.Leví, eigandi jarðarinnar Heggstaða
Jón Skúlason, eigandi Útibleiksstaða.
Jóhann Zakariasson eigandi ½ Bálkastaða
Þorvaldur Bjarnason, prestur að Mel, umráðandi ½ Bálkastaða.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands Blönduós (2014)

  • HAH10129
  • Corporate body
  • 2014

Heilbrigðisstofnun Norðurlands tók til starfa þann 1. október 2014 við sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi annarra en Sjúkrahússins á Akureyri og nokkurra hjúkrunar- og dvalarheimila. Heilbrigðisstofnun Norðurlands veitir heilsugæsluþjónustu, sjúkrahúsþjónustu auk öldrunarþjónustu í formi hjúkrunar- og dvalarrýma.
Áður fyrr um áramótin 1955-1956 var hið nýja hús tekið í notkun og hét stofnunin þá Héraðshæli Austur-Húnvetninga. Þar var veitt öll almenn læknisþjónusta og m.a. rekin bæði skurðdeild og fæðingardeild. Þar var einnig hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Í húsinu voru einnig nokkrar íbúðir fyrir starfsmenn. Í seinni tíð hafa þær aðallega verið nýttar fyrir afleysingafólk. Lengstum hefur sú starfsemi sem fram fer í húsinu verið tvískipt rekstrarlega og kallast Sjúkrahús Austur-Húnvetninga og Heilsugæslan á Blönduósi. Við þessar aðstæður hefur rekstur skipst á tvö viðfangsefni í fjárlögum og sérstakt stjórnkerfi verið yfir hvorri stofnun um sig. Árið 1998 voru þessar tvær stofnanir sameinaðar í Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi.

Heimilisiðnaðarsafnið Blönduósi (1976)

  • HAH10071
  • Corporate body
  • 1976

Heimilisiðnaðarsafnið var upphaflega opnað árið 1976 á 100 ára afmæli Blönduósbæjar sem verslunarstaðar. Það voru konur innan raða Sambands austur-húnvetnskra kvenna, sem eru samtök kvenfélaganna í hérðinu, sem lögðu grunninn að safninu.
Ef horft er aðeins lengra aftur í sögunni að þá hafði verið starfandi byggðasafnsnefnd á vegum sýslunnar sem hafði það að markmiði að koma á fót byggðasafni fyrir báðar Húnavatnssýslur og Strandasýslu. Til hliðar og stuðnings við þessa nefnd var safnanefnd Sambands austur-húnvetnskra kvenna en á þessum tíma voru 10 kvenfélög þar starfandi.

Ekki var einhugur um hvar safnið ætti að vera og urðu niðurstöður þær að Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna var staðsett á Reykjum í Hrútafirði.
Margar kvenfélagskonur sem og fleiri voru afar óánægðar með þessa tilhögun, en ljóst var að ekki var grundvöllur fyrir öðru byggðasafni. Þær breyttu því heiti nefndarinnar í Heimilisiðnaðarsafnsnefnd og lögðu aðal áherslu á að safna munum sem hægt var að tengja við heimilisiðnað.
Konurnar fengu til afnota gamalt hús sem hafði verið byggt sem fjós og hlaða við Kvennaskólann á Blönduósi. Mikið verk var að koma þessu húsi í viðunandi horf og lögðu margir til hendi og gáfu vinnu sína og kvenfélögin lögðu til fjármagn eftir getu hvers og eins.
Safn var orðið til – og fyrst um sinn var það haft opið um helgar en er fram liðu stundir var opnunartími safnsins lengdur.
Það kom fljótlega í ljós að í raun gátu lítil félagasamtök ekki rekið safnið með sómasamlegum hætti. Það var þó ekki fyrr en árið 1993 sem mynduð var sjálfseignarstofnun um safnið með aðild sveitarfélaga héraðsins. Í framhaldi fékk safnið afsal fyrir gamla safnhúsinu en það var rétt eins og Kvennaskólinn í eigu ríkisins að 75% hluta og héraðsins 25% hluta. Einnig fylgdu aukin lóðarréttindi.
Þá var farið að huga alvarlega að stækkun húsnæðis og var leitað álits fagaðila á svið textíla og sérfræðinga í safnastarfsemi og að vel athuguðu máli var ákveðið að byggja nýtt hús sem tengdist gamla safnhúsinu.Framkvæmdir hófust í október árið 2001 og var nýja húsið vígt með pompi og prakt í maí 2003. Rúmum tveimur árum síðar var stofnkostnaður að fullu greiddur.
Það má segja að Heimilisiðnaðarsafnið geymi fyrst og fremst hina gleymdu iðju frá fortíð til nútíðar. Lögð er áhersla á að veita innsýn í vinnu kvenna og karla sem fram fór á heimilum og var stór þáttur hins daglega lífs. Þessi tóvinna var útflutningsiðnaður um aldir – „stóriðja þess tíma“ – þar sem ullinni var breytt í verslunarvöru. Það hefur verið hljótt um þessa vinnu og hvernig hvert heimili var sjálfbjarga um að breyta ull í fat og nýta til fullnustu það hráefni sem til féll.
Í safninu má greina hluta af atvinnusögu þjóðarinnar og sjá hvernig sjálfþurftarbúskabur og heimilisiðja mæta nútíma viðskiptabúskap á seinni hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. Safnið er menningarstofnun sem gegnir margþættu hlutverki, við sýningahald, rannsóknir, fræðslu og miðlun menningar.
Ísland er heimili okkar og ríkt af náttúru, menningu og sögu, sem ber að varðveita, miðla og koma á framfæri til komandi kynslóða.
Heimilisiðnaðarsafnið er virkur þátttakandi í því.

Helgafell á Heimaey

  • Corporate body

Helgafell er 226 metra hátt eldfjall suðaustan á Heimaey.
„Sólu roðið sumarský, svífur yfir Helgafelli“.
Þannig orti Sigurbjörn Sveinsson í ,,þjóðsöng Vestmannaeyinga", „Yndislega eyjan mín“. Helgafell gaus síðast fyrir um fimm þúsund árum, fullvíst er talið, að gos úr fellinu hafi tengt saman Norðurklettana, Dalfjall og Stórhöfða og myndað Heimaey eins og við þekkjum hana í dag. Kaupstaðurinn stendur allur á Helgafellshrauni, sem ber þó mörg nöfn, t.d. Agðahraun og Strembuhraun.

Nafngift Helgafells er sögð vera sú að írskur þræll að nafni Helgi, sem hafði flúið eftir vígið á Hjörleifi, hafi verið drepinn þar af Ingólfi Arnarsyni og hans mönnum. Það er algengur misskilningur að eitthvað sé heilagt við Helgafell.

Vörðurnar á brún fellsins eru leifar frá vaktstöðu heimamanna eftir Tyrkjaránið 1627. Vökumenn áttu að vera komnir á Helgafell fyrir sólarlag og vera fram á miðmorgun. Ef þeir yrðu varir við eitthvað grunsamlegt, skyldi annar þeirra hlaupa niður á Skans. Hinn átti að hringja kirkjuklukkunum.

Í hlíðum Helgafells er Helgafellsvöllur, knattspyrnuvöllur sem var gerður eftir gos.

Helgafell á Snæfellsnesi

  • HAH00286
  • Corporate body
  • (1950)

Helgafell er bær og kirkjustaður og samnefnt fell í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Bærinn stendur á Þórsnesi, sunnan Stykkishólms. Þar var löngum stórbýli og á miðöldum var þar munkaklaustur, Helgafellsklaustur.
Helgafell er í landnámi Þórólfs Mostrarskeggs og í Eyrbyggju segir um fellið: „Í því nesi stendur eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.“
Þorstein þorskabítur, sonur Þórólfs Mostrarskeggs, byggði fyrstur bæ á Helgafelli. Synir hans voru þeir Börkur digri og Þorgrímur, mágur Gísla Súrssonar, sem Gísli drap. Sonur hans og Þórdísar Súrsdóttur var Snorri goði Þorgrímsson, sem bjó fyrst á Helgafelli og lét gera þar kirkju, en hafði svo jarðaskipti við Guðrúnu Ósvífursdóttur og Ósvífur föður hennar. Bjó Guðrún lengi á Helgafelli, fyrst með fjórða manni sínum, Þorkatli Eyjólfssyni, og síðan lengi ekkja eftir að hann drukknaði.[1]
Munkaklaustur sem stofnað hafði verið í Flatey á Breiðafirði var flutt til Helgafells árið 1184 eða 1185 og var þar mennta- og fræðamiðstöð næstu aldir og voru þar skrifaðar margar bækur. Klaustrið var lagt niður um siðaskipti og var þá auðugast íslenskra klaustra að jarðeignum. Konungur tók jarðirnar undir sig og gerði að léni eða umboði sem leigt var umboðsmönnum. Fyrstu árin var Helgafell aðaljörð umboðsins og það kennt við klaustrið en árið 1565 varð Arnarstapi aðaljörðin og eftir það kallaðist umboðið Stapaumboð.
Kirkjan sem nú er á Helgafelli var byggð árið 1903. Hún á ýmsa góða gripi, þar á meðal kirkjuklukku frá 1545.

Helgavatn í Vatnsdal

  • HAH00287
  • Corporate body
  • (1000)

Bærinn stendur austan Vatnsdalsvegar vestari á hólbarði, sem gengur austur úr Vatnsdalshálsinum ofanundir dálitla tjörn - Helgavatnið. Gamalt tún er neðan vegar en nýræktir upp með hálshlíðina, ræktun er erfið. Engjar eru meðfram Vatnsdalsá, nú að mestu ábornar, en beitiland allvíðlent á álsinum og flói í dalbotni. Jörðin er fornbýli, getið í Vatnsdælu, gæti verið um tilfærslu og nafnbreytingu að ræða á Sleggjustöðum. Klausturjörð áður, nú um alllangt skeið bændaeign. Íbúðarhús byggt 1930, 389 m3. Fjós fyrir 26 gripi, mjólkurhús og haughús. Fjárhús yfir 300 fjár. Hesthús yfir 15 hross. Hlöður 1173 m3. Bílskúr. Tún 33 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá og Helgavatnstjörn.

Hemmertshús Blönduósi 1882

  • HAH00102
  • Corporate body
  • 1882 -

Byggt 1882 sem íbúðarhús fyrir verslunarstjóra Höepfnerversluna. Hemmertshús 1882. Nefndist fyrst Verslunarstjórahús Höepnersverslunar, eftir 1884 nefnist það Sæmundsenhús og með tilkomu Hemmerts fær það nafnið sem ég nota,
Á tíma bar það nafnið Guðmundarhús [Kolka} og síðast Snorrahús [Arnfinnssonar]. Augljóst er að fyrstu 2 nöfnin henta ekki enda kom nýtt Sæmundsenhús 1921-1922.

Fyrsti verslunarstjóri var Friðrik Valdemar Davíðsson. Hann var búsettur þar í árslok 1882, en dó næsta ár kornungur. Starfsfólk verslunarinnar bjó í húsinu næstu mánuði.

Árið 1884 kom nýr verslunarstjóri Pétur Sæmundsen að versluninni. Hann bjó í þessu húsi til 1913.
Evald sonur hans bjó þar til 1922 er hann byggði sér nýtt hús og yfirfærðist nafnið þá á það hús.

Síðasti íbúinn (2018) var Erlendur Finnbogason tálgmeistari.

Héraðshæli Austur Húnvetninga Blönduósi (1955-)

  • HAH10014
  • Corporate body
  • 31.12.1955

„Á árunum 1952 til 1955 var Héraðshælið á Blönduósi byggt. Var það sameiginlegt átak allra sýslubúa. Í þeirri stofnun er m.a. að finna dvalarheimili aldraðra fyrir 27 vistmenn, sjúkradeild fyrir 26 sjúklinga, sem jafnframt er langlegudeild fyrir sjúk gamalmenni, heilsugæslustöð, þjónustudeild og fleira . . .

Þetta stóra hús hefur aðeins verið í byggingu í 32 mánuði. Það kostar um 6 milljónir króna. Við það bætast allir innanstokksmunir og lækningaáhöld, sem áætlað er að kosti allt að einni milljón króna. Gjafir frá einstaklingum og félögum nema um 660 þús. kr. Hafa Húnvetningar sjálfir sýnt hið mesta örlæti gagn vart þessari heilbrigðisstofnun. Ríkissjóður mun greiða 2/3 hluta byggingakostnaðarins. Kemur þá í hlut Austur-Húnavatnssýslu að standa undir tveimur milljónum króna af honum.

Héraðshælið er 9 þús. rúmmetrar að stærð. Það er fjórar hæðir og kjallari. Stórar svalir eru á öllum hæðum og sjúkralyfta gengur frá kjallara til þakhæðar. Ennfremur er í húsinu matarlyfta frá eldhúsi til fjórðu hæðar. Geislahitun er í byggingunni og hreinlætistæki öll hin fullkomnustu. Í henni eru sjö baðherbergi og níu snyrtiklefar með salernum. Í kjallara eru kynditæki, frystir, rafstöð, geymslur, smíðahús: þvottahús og fleiri nauðsynlegar vistarverur. Er öllu mjög haganlega fyrir komið. Er hægt að aka sjúklingum beint inn að sjúkralyftu.

Á fyrstu hæð er m.a. íbúð aðstoðarlæknis, eldhús, búr, borðstofa starfsfólks, ráðskonuherbergi og líkhús. Á annari hæð er aðal anddyri hússins. Liggja upp að því breiðar tröppur. Yfir vængjahurðum anddyranna er áformað að setja skjaldarmerki Austur-Húnavatnssýslu, birnu með tvo húna. Á þessari hæð er biðstofa fyrir sjúklinga, skrifstofa, rannsóknarstofa, skiptistofa og slysastofa ásamt viðtalsstofu læknis. Þá er þar lesstofa yfirlæknis og íbúð hans, ljóslækningastofa, röntgenstofa, klefi fyrir nudd og rafmagnsmeðferð, dagstofa fyrir sjúklinga, sem hafa fótavist og íbúðir hjúkrunarkvenna.

Á þriðju hæð er aðalsjúkradeild hælisins. Eru þar fjórar fjórbýlisstofur, tvær þríbýlisitofur og fjórar tvíbýlisstofur. Ennfremur er þar sérstök fæðingarstofa. Í þessum herbergjum er rúm fyrir 31 sjúkling. Á þessari hæð er einnig rúmgóð skurðstofa búin hinum fullkomnustu tækjum, þar á meðal skurðstofulampa með níu kvikasilfursljósum. sem auðvelt er að hagræða, hvernig sem bezt hentar við skurðaðgerðir. Kvað Kolka læknir lampa þennan vera hið mesta þing og af nýjustu gerð. Var vissulega ánægjulegt að fylgjast með lýsingum hins ágæta og reynda skurðiæknis á tækjum og fyrirkomulagi skurðstofunnar, sem leikmenn hljóta að telja hið „allra helgasta" á sjúkrahúsi.

Á fjórðu og efstu hæð héraðshælisins er svo hjúkrunardeild fyrir rólfæra sjúklinga og gamalmenni. Eru þar 5 herbergi fyrir vistmenn, flest tveggja manna herbergi. Þar er því rúm fyrir 30—40 manns. Samtals tekur þvf héraðshælið 60—70 sjúklinga og gamalmenni. Hafa Austur-Húnvetningar sameinað hér á myndarlegan og merkilegan hátt rekstur fullkomins sjúkrahúss og notalegs elliheimilis. Á efstu hæðinni er einnig „baðstofa", sem er setustofa hjúkrunar- og elliheimilisdeildarinnar. Er hún stór og rúmgóð með glugg um móti austri, suðri og vestri. Stórt yfirbyggt sólskýli er fram af henni. Hefur gamla fólkið og sjúklingar deildarinnaí þarna hina ákjósanlegustu aðstöðu til þess að láta fara vel um sig.

Þetta fallega og fullkomna sjúkrahús og elliheimili AusturHúnvetninga er um ýmsa hluti sérstætt. Það hefur í raun og veru fremur á sér svip heimilis fólksins, sem dvelur þar en opinberrar stofnunar og sjúkrahúss. Okkur finnst athyglisvert að tjöldin fyrir gluggum íbúðarherbergjanna eru rósótt og veggir og loft eru máluð ýmsum litum, mjúkum og mildum. Þetta gefur húsakynnunum persónulegri og hlýlegri blæ en tíðkast á sjúkrastofum. Við heilsum upp á nokkra sjúklinga sem þarna liggja. Þeir taka brosandi á móti yfirlækni sínum og okkur, sem erum í fylgd með honum. Fólkinu hérna í Húnavatnssýslu þykir þegar vænt um Héraðshælið segir Kolka læknir. Það hefur unnið að stofnun þess af miklum áhuga og fórnfýsi. Þessi heilindismiðstöð og rekstur hennar verður merkur þáttur í lífi héraðsins."

Héraðsnefnd Austur Húnavatnssýslu (1988-2008)

  • HAH10030
  • Corporate body
  • 30.11. 1988 - 1.7. 2008

Í héraðsnefndinni sem stofnuð var formlega 30. nóvember eiga sæti 16 fulltrúar frásveitarfélögunum í Austur-Húnavatnssýslu. Héraðsnefndin mun leysa af hólmi sýslunefnd A-Hún. um næstu áramót. Oddviti héraðsnefndar AusturHúnvetninga var kjörinn Valgarður Hilmarsson oddviti á Fremstagili í Engihlíðarhreppi.
Helstu mál á fyrsta fundi héraðsnefndarinnar voru kosningar oddvita héraðsnefndar svo og í héraðsráð sem skipað er tveim mönnum auk oddvita héraðsnefndar. Auk oddvita héraðsnefndar voru kosnir í héraðsráð Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri á Skagaströnd og Ófeigur Gestsson bæjarstjóri á Blönduósi.
Miklar umræður urðu um umboð nefnda þeirra sem sýslunefnd skipaði á sínum tíma en umboð sýslunefndar A-Hún. fellur niður um áramót með tilkomu héraðsnefndarinnar. Samkomulag varð um að fá úrskurð félagsmálaráðuneytis um hvernig með þessi mál skuli farið. Ennfremur urðu töluverðar umræður um hvernig að uppgjöri sýslu sjóðs yrði staðið og ennfremur að hraðað yrði gerð fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár.
Sýslunefndin sem lætur að störfum um áramót var skipað 10 mönnum auk sýslumanns og átti hvert sveitarfélag einn fulltrúa í nefndinni. Með tilkomu héraðsnefndar A-Hún. fjölgar fulltrúum í 16 og eiga þéttbýlissveitarfélögin Blönduós og Skagaströnd helming fulltrúa en sveitahrepparnir sinn fulltrúan hver.

Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu (1966)

  • HAH10111
  • Corporate body
  • 1966

Héraðsskjalasafn Austur–Húnavatnssýslu var formlega stofnað með bréfi þjóðskjalavarðar dags. 5.des. 1966 en í raun var farið að safna skjölum þegar lögin um héraðsskjalasöfn tóku gildi, en þau voru nr. 7 frá l2. feb. l947. Nú gilda lög um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66 frá 27. júní 1985, 12. - 16. gr., fjalla um héraðsskjalasöfn. Það var sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu, sem hafði forgöngu um að stofna safnið og veitti fjárframlög til þess og síðar arftaki sýslunefndarinnar, héraðsnefnd Austur - Húnavatnssýslu frá og með árinu 1989 - 2010 en þá var hún lögð niður.

Skjalasafnið er til húsa að Hnjúkabyggð 30. Aðstaðan samanstendur af einni skrifstofu og lessal ásamt geymslu fyrir gögn og myndir sem afhentar hafa verið til varðveislu.

Skjalasafnið heyrir undir stjórn Byggðarsamlags atvinnu- og menningarmála.
Hana skipa:
Halldór Ólafsson, Skagaströnd, formaður og meðstjórnendur
Guðmundur Haukur Jakobsson, Blönduósi,
Magnús Björnsson, Syðra-Hóli
Ragnhildur Haraldsdóttir, Húnavatnshrepp,
Valdimar O. Hermannsson, Blönduósi, framkvæmdastjóri nefndarinnar.
Skjalavörður er Svala Runólfsdóttir.

En safnið er ekki bara skjalasafn heldur hefur það tekið á móti og varðveitt ljósmyndir, málverk o.fl. Þegar Páll V.G. Kolka gaf út árið 1950 bókina Föðurtún, sem er héraðslýsing og ættasaga Húnvetninga, safnaði hann miklu af myndum til bókarinnar og fékk þær ýmist gefins eða að láni. Lánsmyndunum var skilað, en hann varðveitti hinar og þegar hann fór úr héraðinu afhenti hann Lionsklúbbi Blönduóss myndirnar til varðveislu.
Þá þegar höfðu nokkrar bæst við og margir vissu um þetta myndasafn. Og reyndin varð sú að fólk kom með eða sendi myndir hvaðanæva af landinu og einnig vestan frá Norður-Ameríku.

Það kom því svona af sjálfu sér, að Héraðsskjalasafnið tók myndasafnið að sér. Nú eru í safninu á annan tug þúsunda mynda af fólki, atburðum, mannvirkjum og landslagsmyndum með eða án bygginga. Allar þessar myndir hafa verið skráðar og velflestar verið settar á tölvuskrá og eru varðveittar á þann veg, sem nútíma þekking telur bestan.

Safnið hvetur Húnvetninga og alla aðra, sem eiga myndir af fólki eða atburðum tengdum Húnvetningum eða Húnavatnssýslu að senda safninu þær til varðveislu öldnum og óbornum kynslóðum til gleði og ánægju. Þeir sem taka við af okkar kynslóð geta alltaf sótt um grisjun til Þjóðskjalasafnsins.
Þá hefir safnið tekið til geymslu málverk, teikningar o.fl., sem það vill að verði varðveitt þar uns varanlegur samastaður fæst heima í héraði, sem þá yrði vísir að listasafni.
Ennfremur hefir safninu verið afhentir gripir, sem ætlaðir eru væntanlegu muna og minjasafni, sem stofnað verður með tíð og tíma.

Héraðsskjalaverðir frá stofnun skjalasafnsins:
Pétur B. Ólason 1966-1979
Þórhildur Ísberg 1979-2000
Þórarinn Torfason 2001-2003
Kolbrún Zophoniasdóttir 2005-2006
Svala Runólfsdóttir 2006-

Héraðsskjalasafn Kópavogs (2000)

  • HAH 10124
  • Corporate body
  • 2000

Héraðsskjalasafn Kópavogs var stofnað 12. desember árið 2000. Aðdragandi stofnunar þess var Bæjarskjalasafn Kópavogs sem starfaði á bæjarskrifstofum Kópavogs frá árinu 1978.
Leo W. Ingason var héraðsskjalavörður frá stofnun árið 2000 til 2005.
Hrafn Sveinbjarnarson hefur verið héraðsskjalavörður frá því í ársbyrjun 2006.

Héraðsskólinn á Laugarvatni og Laugarvatn

  • HAH00028
  • Corporate body
  • 1928-

Ketilbjörn gamli Ketilsson nam Grímsnes frá Höskuldslæk, Laugardal og Biskupstungur til Stakksár. Hann bjó á Mosfelli.
Ketilbjörn Ketilsson hinn gamli, landnámsmaðurá Mosfelli var tvímælalaust fulltrúi heiðins siðar og fornra gilda. En Mosfellingar og Haukdælir, afkomendur hans og Helgu konu hans, voru fyrstu menntamenn íslendinga, vel á undan samtíð sinni og báru af flestum íslendingum á þjóðveldisöld.

Skólaþorpið Laugarvatn hefur verið vagga menntunar á svæðinu allt frá 1928, þar eru nú öll skólastig frá leikskóla til háskóla. Við Laugarvatn er Vígða laug, en margir trúa á lækningarmátt vatnsins. Við kristnitökuna árið 1000 voru heiðingjar skírðir í þessari volgu laug. Fjölbreytt þjónusta er í boði á Laugarvatni og nágrenni og ýmsir afþreyingarmöguleikar. Tjaldsvæði, farfuglaheimili, bændagisting, hótel og veitingastaðir. Hægt að leigja bát og sigla á vatninu, veiða í ám og vötnum eða bregða sér í golf eða sund. Fallegar gönguleiðir eru í nágrenninu og boðið er upp á hellaskoðun, kanóferðir og útiafþreyingu fyrir hópa. Fjölbreytt fuglalíf er í skóginum og við vatnið og fallegar gönguleiðir. Laugarvatnsfjall býður upp á víðáttumikið útsýni. Upp frá Miðdal, um 3 km frá Laugarvatni, er vinsæl gönguleið upp að Gullkistu þar sem fjársjóður Ketilbjarnar á að hafa verið grafinn..

Héraðskólinn á Laugarvatni var héraðsskóli sem var stofnaður 1.nóvember árið 1928 í skólahúsi sem Guðjón Samúelsson teiknaði. Hús héraðsskólans var friðað árið 2003 og tekur friðunin til ytra útlits og stigagangs.

Við setningu fræðslulaga árið 1946 tók héraðsskólinn upp kennslu til landsprófs. Haustið 1947 tók til starfa við héraðsskólann framhaldsdeild sem kenndi námsefni fyrsta árs menntaskóla og var hún nefnd Skálholtsdeild. Menntaskólinn að Laugarvatni var svo stofnaður árið 1953.

Árið 1932 var Íþróttakennaraskóli Íslands stofnaður og var hann í húsakynnum héraðsskólans, bókasafni, sundlaug og íþróttahúsi.

Hús gamla héraðsskólans stóð autt um nokkuð skeið eftir að skólahald fluttist í aðrar byggingar á Laugavatni. Listahátíðin Gullkistan var haldin í héraðsskólanum sumarið 2005. Gamli héraðsskólinn hefur nú verið gerður upp og mun Háskóli Íslands fá hluta gamla héraðsskólans fyrir starfsemi sína á Laugarvatni en þar er íþróttafræðanám innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Árið 1928 létu Laugarvatnshjónin, Ingunn Eyjólfsdóttir (1873 – 1969) og Böðvar Magnússon (1877 – 1966) ættaróðal sitt af hendi til að veita stofnun Héraðsskóla á Laugarvatni brautargengi. Þau hjónin tóku við búi á Laugarvatni 1907 og bjuggu á Laugarvatni alla tíð.

Héraðsskólinn á Laugum

  • HAH00290
  • Corporate body
  • 1925 -

Framhaldsskólinn á Laugum í Þingeyjarsveit er íslenskur framhaldsskóli. Skólinn var stofnaður haustið 1925 en hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1988. Skólameistari hans er Hallur Reynir Birkisson.

Frá upphafi skólahalds á Laugum árið 1925 hafa um 7000 manns stundað nám, fyrst í lýðsskóla, síðan alþýðuskóla, þá héraðsskóla og loks í Framhaldsskólanum á Laugum eins og hann heitir nú. Framhaldsskólinn á Laugum er heimavistarskóli og þangað koma nemendur alls staðar að af landinu.
Tildrög stofnunar Laugaskóla má rekja til hinnar svokölluðu Þingeysku menningarbyltingar sem stóð frá sjöunda áratug 19. aldar til þriðja áratugs 20. aldar, en þá var skólinn stofnaður. Segja má að forverar skólans hafi verið fjórir. Fyrstur var stofnaður Hléskógaskóli en hann starfaði ekki lengi og kenndu margir slæmri staðsetningu um. Seinna var skólahúsið fært að Ljósavatni og var þá stofnaður Ljósavatnsskóli og starfaði hann í 11 ár. Unglingaskólinn á Breiðumýri var svo stofnaður árið 1918 og Lýðsskólinn á Laugum var arftaki hans.
Á fundi hjá Sambandi Þingeyskra ungmennafélaga (síðar HSÞ), 24. apríl 1915, var samþykkt tillaga þess efnis að allar deildir sambandsins innu að stofnun héraðsskóla. Í framhaldi af því var farið að huga að stað fyrir skólann. Upphaflega var horft til Grenjaðarstaðar, en á endanum var ákveðið að hinn nýi skóli skyldi rísa á Laugum í Reykjadal. Á Laugum var nægilegt heitt vatn og Sigurjón Friðjónsson á Litlu-Laugum gaf land undir skólann. Var Arnór Friðjónsson, sonur Sigurjóns, fyrsti skólastjóri þess skóla.
Skólinn er nú með heimavistir fyrir 150 nemendur.

Húsakostur Laugaskóla er mikill og hefur skólasvæðið byggst upp jafnt og þétt á þeim rúmu 80 árum sem skólinn hefur starfað.
Fyrstur var reistur Gamli skóli eins og hann er kallaður í dag, en einungis tvær burstir og sundlaug í kjallara hans, árið 1925. Þriðja burstin var reist árið 1928. Íþróttahúsið Þróttó var reist árið 1931 og var það um tíma stærsta íþróttahús landsins. Dvergasteinn með heimavist og nýjum smíðasal var reistur árið 1949 og kennaraíbúðir við Dvergastein árið 1957. Norðurálma við Gamla-Skóla með nýjum matsal og heimavistum var reist árið 1961 og kom húsið að góðum notum við Landsmót UMFÍ sem haldið var á Laugum þá um sumarið. Fjall var byggt árið 1967 með heimavist og íbúðarhúsnæði, nýtt Íþróttahús reist árið 1978 og loks Tröllasteinn árið 2000 en í honum eru herbergi fyrir allt að 70 nemendur. Árið 2005 var svo reist vegleg útisundlaug. Árið 2012 var vistin Álfasteinn tekin aftur í notkun eftir hún hafði verið lagfærð.

Haustið 1926 var ráðist í blaðaútgáfu og hafa ýmis blöð komið út á vegum félagsins síðan þá. Fyrstu árin var gefið út Ársrit Nemendasambands Laugaskóla og eru eintök af því til varðveislu á bókasafni Framhaldsskólans á Laugum. Þar er að finna góðar heimildir um starfið í skólanum fyrstu ár hans.
Ýmsar hefðir eru í félagslífi nemenda á Laugum og eiga margar þeirra sér langa sögu. Ein þeirra langlífustu er sú að nýnemar sem það vilja syndi yfir tjörnina á Laugum og séu þannig formlega orðnir Lauganemar. Þá stendur NFL fyrir Tónkvíslinni sem er árleg söngkeppni meðal nemenda skólans annars vegar og hins vegar meðal grunnskóla úr Þingeyjarsýslum.

Herðubreið

  • HAH00239
  • Corporate body
  • (1950)

Herðubreið er 1682 metra hátt móbergsfjall norðan Vatnajökuls. Hún er í Ódáðahrauni og er oft nefnd „Drottning íslenskra fjalla“ (sjá listann yfir gælunöfn) vegna þess hve mörgum finnst hún formfögur. Fjallið myndaðist við eldgos undir jökli. Á toppi þess eru hraunlög og hefur gosið því náð upp úr jöklinum. Slík fjöll, þ.e.a.s. móbergsfjöll með hraunlögum að ofan, kallast stapar. Herðubreið var valin þjóðarfjall Íslendinga í kosningu árið 2002.

Fyrst var gengið á Herðubreið með vissu árið 1908 en fram að því hafði hún verið talin ógeng. Það gerðu Sigurður Sumarliðason og þýski jarðfræðingurinn Dr. Hans Reck í ágúst það ár nánar tiltekið 13. ágúst 1908. Þann 21.apríl 2009, 101 ári seinna, fór Björn Böðvarsson vélsleðakappi úr Mývatnssveit á topp Herðubreiðar á vélknúnu ökutæki fyrstur manna, er hann náði toppnum á vélsleða sínum.

Hesputré

  • HAH00990
  • Corporate body
  • 874-

Hesputré er áhald úr tré til að vinda garn. Hesputré er handsnúið áhald þar sem ullarþráðurinn er undinn upp í hespur.

Hestur (1894) Blönduósi (Guðmundarbær 1901 / Jóhannshús/bær 1908)

  • HAH00731
  • Corporate body
  • 1894 -

Bæ þennan byggði Guðmundur Benediktsson 1894. Guðmundur bjó þar í húsinu til 1901 að hann flutti vestur um haf. Hjá honum var um tíma Guðbjörg móðir hans sem lést haustið 1900. Hún er ásamt Birni Erlendssyni, fyrsta manneskjan sem grafin er í kirkjugarðinum.
Eftir brottför Guðmundar eignast Halldór Halldórsson kennari húsið. Hann býr þar til 1908 og var verslunarstjóri fyrir kaupfélagið.
Verslaði hann hann í herbergi er tekið var á leigu í Vertshúsinu. 1908-1909 var Halldór til húsa hjá Þorsteini Bjarnasyni, en söludeildin hafði verið flutt út fyrir á, í skúr er kaupfélagið átti þar.
Halldór byggði sér eigið hús utan ár 1909, þar bæði bjó hann og verslaði til dauðadags.
Halldór seldi Jóhanni Jóhannssyni, Guðmundarbæ 1908.

Hillebrantshús Blönduósi 1877, Blöndubyggð 2

  • HAH00104
  • Corporate body
  • 1877 -

Hillebrandtshús 1877. Byggt úr viði úr gömlu verslunarhúsunum á Skagaströnd. Björnsbær 1940. Blönduósbær kaupir húsið 1992.
Yfirsmiður við Hillebrandtshúsið var Sverrir Runólfsson steinsmiður þá hafði hann nýlokið við að hlaða Þingeyrarkirkju, síðar fékk hann útmælda lóð á „Sverrishorni“ (Einarsnesi). Ekki entist honum þó ævin til að reisa sér hús þar. Héðan sigldi hann áleiðis til Borðeyrar með hund sinn, sem hann kallaði Magnús berfætta, en ekkert spurðist til þeirra eftir það. Sagt er, að menn hafi tekið til þess, hvað hundurinn var tregur að fara í bátinn.

Hindisvík á Vatnsnesi

  • HAH00291
  • Corporate body
  • (1900)-1957

Bæjarstæðið sérkennilegt og fagurt, vestan í klettarima, við litla vík sem skerst inn í Vatnsnesið norðanvert. Jörðin er sögð hálf í sjó að gæðum, svo eru þar hlunnindi mikil ef nýtt væru. Í Hindisvík er löggilt höfn. Þar hefur sami karlleggur búið frá 1830, síðast sra Sigurður Norland. Íbúðarhús það er síðast var var notað reisti Jóhannes Sigurðsson faðir sra Sigurðar. Þar standa auk þess tvö smá íbúðarhús sem sra Sigurður lét byggja. Eigendur Sverrir Norland og Agnar Norland. Íbúðarhús byggt 1953 349 m3. Fjárhús yfir 160 fjár. Hlaða 1313 m3. Tún 18,4 ha. Selveiði, æðavarp og reki.

Hítará, Brúarfoss, Kolbeinsstaðafjall, Fagraskógarfjall, Grettisbæli, Barnaborgarhraun.

  • HAH09274
  • Corporate body
  • 874 -

Kolbeinsstaðafjall 675 mys
Fagraskógarfjall er um 684 m. fjall í Hnappadal í Borgarbyggð, sunnan við Hítardal. Við suðaustanvert fjallið er fellið Grettisbæli.
Þann 7. júlí 2018 féll skriða eða berghlaup úr fjallinu sem stíflaði um tíma Hítará. Við það myndaðist vatn sem nefnt var Bakkavatn. Skriðan var einfaldlega nefnd Skriðan.
Grettisbæli er 426 m hátt móbergsfjall, er gengur suðaustur úr Fagraskógarfjalli (684 m). Efst í fjallinu eru skörðóttir móbergstindar er standa upp úr annars snarbröttum skriðunum. Í Grettis sögu segir að Grettir Ásmundarson hafi haft aðsetur í hellisskúta í fjallinu í þrú ár, enda hafi fjallið verið mjög svo ákjósanlegt vígi til varna frá náttúrunnar hendi. Aðrar heimildir segja hann hafa dvalist þar nokkuð skemur, eða í um eitt ár. Mun Grettir hafa gengið svo frá hellismuna að lítið bæri þar á mannaferðum og síðan herjað á nágrannabyggðir um vistir og viðurværi.
Hítará er bergvatnsá sem rennur úr Hítarvatni eftir Hítardal og fellur í Akraós. Hítará afmarkar Mýrasýslu og Snæfells- og Hnappadalssýslu.
Í ánni eru fossarnir Kattarfoss og Brúarfoss og er í henni góð laxveiði en hún er nú laxgeng allt til upptaka. Selir ganga stundum upp í ána allt að Brúarfossi. Jóhannes á Borg byggði sér veiðihús á árbakkanum og kallaði Lund. Þar er að finna mikið safn uppstoppaðra fugla sem Jóhannes viðaði að sér.
Barnaborgarhraun og Barnaborg eru í Kolbeinsstaðahreppi, Snæfellsnessýslu. Þetta er úfið apalhraun frá nútíma, víða lyngi og kjarri vaxið, runnið frá Barnaborg, eldvarpi í miðju hrauninu.

Hjallaland í Vatnsdal

  • HAH00292
  • Corporate body
  • (1950)

Bærinn stendur á skriðubungu vestur frá Jörundarfelli skammt frá austustu kvísl Vatnsdalsár. Túnið er ræktað á skriðu, en engjar í óshólmum Vatnsdalsár og á bökkum hennar, mikið af engjum er áborið. Beitiland er í flóum og grundum meðfram fjallinu og í því sjálfu - Deildarhjalli. Býlið er landnámsjörð og hét þá Grund undir Felli. Með jörðinni er nú metið Grundarkot sem lá áður til Másstaða. Hjallaland var fyrrum klausturjörð en varð bændaeign snemma á 19. öld. Skriðuhætt hefir löngum verið á Hjallalandi. Tók bæinn af við skriðuhlaup árið 1390. Íbúðarhús byggt 1883, 580 m3. Fjós fyrir 30 gripi. Fjárhús yfir 320 fjár. Hesthús. Hlöður 1280 m3. Tún 42 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá.

Eigandi jarðarinnar 1975; Magdalena Margrét Sæmundsen 27. maí 1921 - 31. okt. 1998. Var á Blönduósi 1930. Verslunarmaður í Reykjavík og á Blönduósi. Var í Sæmundsenshúsi, Blönduóshr., A-Hún. 1957. Síðast bús. í Blönduóshreppi. Fósturdóttir: Sigríður Hermannsdóttir f. 3.3.1955.

Results 301 to 400 of 1161