Sýnir 1161 niðurstöður

Nafnspjald
Fyrirtæki/stofnun

Undirfellskirkja 1893-

  • HAH00569a
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1893

Kirkjan á Undirfelli var helguð Nikulási biskupi í Myra í kaþólskum sið. Útkirkja þaðan var á Másstöðum uns hana braut í snjóflóði árið 1811, og í Grímstungu 1849-1881. Hálfkirkjur og bænhús voru víða í sókninni að fornu. Núverandi kirkja á Undirfelli er allveglegt steypuhús sem byggt var sumarið 1915 eftir teikningu Rögnvalds Ólafssonar húsameistara, dálítið sérkennileg að því leyti að turninn er upp af nyðra framhorni hennar. Í henni er altaristafla eftir Ásgrím Jónsson er sýnir Jesúm blessa börnin og fleiri góðir gripir.

Fyrra kirkjuhús, sem var stór timburkirkja frá 1893, brann á annan í jólum 1913. Síðasti presturinn á Undirfelli, séra Hjörleifur Einarsson (1831-1910) sagði af sér embætti árið 1906 eftir 30 ára þjónustu á staðnum. Séra Hjörleifur lagði mikla stund á kennslu og hafði flesta vetur námssveina og á árunum 1879-1883 var haldinn kvennaskóli á Undirfelli fyrir hans forgöngu, með 6 nemendum og einum kennara auk hans sjálfs sem kenndi stúlkunum bóklegar greinar. Var það fyrsti vísir að kvennaskóla Húnvetninga. Sonur Hjörleifs var Einar H. Kvaran (1859-1938) rithöfundur. Einar var afkastamikill rithöfundur og vinsælt skáld á löngum og merkum rithöfundarferli. Hann var ritstjóri ýmissa blaða og tímarita, einnig í Winnipeg þar sem hann dvaldi í 10 ár fyrir aldamót, en á háskólaárum í Kaupmannahöfn var hann einn Verðandimanna. Lengstu skáldsögur hans eru Ofurefli (1908) og gull (1911) en kunnastur er hann nú fyrir smásögur sínar.

Einn fyrsti listmálari sem nokkuð kveður að á Íslandi, Þórarinn B. Þorláksson (1867-1924) var fæddur á Undirfelli og ólst þar upp fyrstu árin.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Héraðshæli Austur Húnvetninga Blönduósi (1955-)

  • HAH10014
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 31.12.1955

„Á árunum 1952 til 1955 var Héraðshælið á Blönduósi byggt. Var það sameiginlegt átak allra sýslubúa. Í þeirri stofnun er m.a. að finna dvalarheimili aldraðra fyrir 27 vistmenn, sjúkradeild fyrir 26 sjúklinga, sem jafnframt er langlegudeild fyrir sjúk gamalmenni, heilsugæslustöð, þjónustudeild og fleira . . .

Þetta stóra hús hefur aðeins verið í byggingu í 32 mánuði. Það kostar um 6 milljónir króna. Við það bætast allir innanstokksmunir og lækningaáhöld, sem áætlað er að kosti allt að einni milljón króna. Gjafir frá einstaklingum og félögum nema um 660 þús. kr. Hafa Húnvetningar sjálfir sýnt hið mesta örlæti gagn vart þessari heilbrigðisstofnun. Ríkissjóður mun greiða 2/3 hluta byggingakostnaðarins. Kemur þá í hlut Austur-Húnavatnssýslu að standa undir tveimur milljónum króna af honum.

Héraðshælið er 9 þús. rúmmetrar að stærð. Það er fjórar hæðir og kjallari. Stórar svalir eru á öllum hæðum og sjúkralyfta gengur frá kjallara til þakhæðar. Ennfremur er í húsinu matarlyfta frá eldhúsi til fjórðu hæðar. Geislahitun er í byggingunni og hreinlætistæki öll hin fullkomnustu. Í henni eru sjö baðherbergi og níu snyrtiklefar með salernum. Í kjallara eru kynditæki, frystir, rafstöð, geymslur, smíðahús: þvottahús og fleiri nauðsynlegar vistarverur. Er öllu mjög haganlega fyrir komið. Er hægt að aka sjúklingum beint inn að sjúkralyftu.

Á fyrstu hæð er m.a. íbúð aðstoðarlæknis, eldhús, búr, borðstofa starfsfólks, ráðskonuherbergi og líkhús. Á annari hæð er aðal anddyri hússins. Liggja upp að því breiðar tröppur. Yfir vængjahurðum anddyranna er áformað að setja skjaldarmerki Austur-Húnavatnssýslu, birnu með tvo húna. Á þessari hæð er biðstofa fyrir sjúklinga, skrifstofa, rannsóknarstofa, skiptistofa og slysastofa ásamt viðtalsstofu læknis. Þá er þar lesstofa yfirlæknis og íbúð hans, ljóslækningastofa, röntgenstofa, klefi fyrir nudd og rafmagnsmeðferð, dagstofa fyrir sjúklinga, sem hafa fótavist og íbúðir hjúkrunarkvenna.

Á þriðju hæð er aðalsjúkradeild hælisins. Eru þar fjórar fjórbýlisstofur, tvær þríbýlisitofur og fjórar tvíbýlisstofur. Ennfremur er þar sérstök fæðingarstofa. Í þessum herbergjum er rúm fyrir 31 sjúkling. Á þessari hæð er einnig rúmgóð skurðstofa búin hinum fullkomnustu tækjum, þar á meðal skurðstofulampa með níu kvikasilfursljósum. sem auðvelt er að hagræða, hvernig sem bezt hentar við skurðaðgerðir. Kvað Kolka læknir lampa þennan vera hið mesta þing og af nýjustu gerð. Var vissulega ánægjulegt að fylgjast með lýsingum hins ágæta og reynda skurðiæknis á tækjum og fyrirkomulagi skurðstofunnar, sem leikmenn hljóta að telja hið „allra helgasta" á sjúkrahúsi.

Á fjórðu og efstu hæð héraðshælisins er svo hjúkrunardeild fyrir rólfæra sjúklinga og gamalmenni. Eru þar 5 herbergi fyrir vistmenn, flest tveggja manna herbergi. Þar er því rúm fyrir 30—40 manns. Samtals tekur þvf héraðshælið 60—70 sjúklinga og gamalmenni. Hafa Austur-Húnvetningar sameinað hér á myndarlegan og merkilegan hátt rekstur fullkomins sjúkrahúss og notalegs elliheimilis. Á efstu hæðinni er einnig „baðstofa", sem er setustofa hjúkrunar- og elliheimilisdeildarinnar. Er hún stór og rúmgóð með glugg um móti austri, suðri og vestri. Stórt yfirbyggt sólskýli er fram af henni. Hefur gamla fólkið og sjúklingar deildarinnaí þarna hina ákjósanlegustu aðstöðu til þess að láta fara vel um sig.

Þetta fallega og fullkomna sjúkrahús og elliheimili AusturHúnvetninga er um ýmsa hluti sérstætt. Það hefur í raun og veru fremur á sér svip heimilis fólksins, sem dvelur þar en opinberrar stofnunar og sjúkrahúss. Okkur finnst athyglisvert að tjöldin fyrir gluggum íbúðarherbergjanna eru rósótt og veggir og loft eru máluð ýmsum litum, mjúkum og mildum. Þetta gefur húsakynnunum persónulegri og hlýlegri blæ en tíðkast á sjúkrastofum. Við heilsum upp á nokkra sjúklinga sem þarna liggja. Þeir taka brosandi á móti yfirlækni sínum og okkur, sem erum í fylgd með honum. Fólkinu hérna í Húnavatnssýslu þykir þegar vænt um Héraðshælið segir Kolka læknir. Það hefur unnið að stofnun þess af miklum áhuga og fórnfýsi. Þessi heilindismiðstöð og rekstur hennar verður merkur þáttur í lífi héraðsins."

Reynir sf. (1974-)

  • HAH10023
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1974-

Félagið var stofnað 29.10. 1974, síðast staðsett að Hnjúkabyggð 31 540 Blönduósi.

Fiskifélagsdeild Skagastrandar (1939-

  • HAH10025
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1939-

Deildin var stofnuð 1939 og tilgangur hennar er að efla sjávarútveg á félagssvæðum, stuðla að vöruvöndun, bættri sölu sjávarafurða, aukinni samvinnu og félagsskap milli útgerðarmanna og sjómanna og yfir höfuð hverju því, sem vænta má að verði sjávarútgerðinni til hagsbóta og velfarnaðar. Að öðru leiti starfar deildin undir yfirumsjá Fiskifélags Íslands og samkvæmt lögum þess, eins og þau kunna að vera á hverjum tíma, enda njóti deildin allra hlunninda, er Fiskifélagið veitir deildum sínum út um landið. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu: Bogi Björnsson formaður, Ingvar Jónsson ritari og Þórarinn Jónsson gjaldkeri.

Lionsklúbbur Blönduóss (1959-)

  • HAH10015
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1959-)

Lionsklúbbur Blönduóss var stofnaður 3. maí 1959 Stofnfélagar voru 11 menn.
Fyrsta stjórn klúbbsins skipuðu:
Hermann Þórarinsson, formaður
Haraldur Jónsson, ritari
Ólafur Sverrisson, gjaldkeri
Stofnendur urðu 21
Laugardaginn 10. október 1959 var svokallaður stofnskrárfundur klúbbsins. Í fundagerð segir orðrétt ,,Var þá slegið upp veislu mikilli á Hótelinu og kom margt gesta, flutt voru mörg ávörp og gjafir færðar klúbbnum, svo sem fánaborg, fundarhamar, fundarbjalla og gestabók. Síðan var farið út í Samkomuhús. Þar söng Árni Jónsson tenórsöngvari við undirleik Frits Weisshappels og Guðmundur Frímann las frumsamin ljóð, hvort tveggja við góðar undirtektir áheyrenda. Síðan var dansað af miklu fjöri fram eftir nóttu.“
Starfsemi Lionsklúbbs Blönduóss má skipta í fjóra þætti. Fyrst má telja regluleg funda- og nefndastörf. Í annan stað eru fjölþætt verkefni sem klúbburinn vinnur að á ári hverju ásamt nokkrum föstum verkefnum frá ári til árs. Þriðji þátturinn er fjáröflun til verkefnanna. Og sá fjórði er þátttaka í sameiginlegu starfi lionsumdæmisins á Íslandi, árlegum þingum þess og alþjóðlegri starfsemi lionshreyfingarinnar.
Helstu verkefni klúbbsins hafa verið:
• Gróðursetning trjáplantna í Hrútey 1960
• Veittur styrkur til byggingar sundlaugar.
• Hringsjá eða útsýnisskífa teiknuð af Jóni Víðis, sett upp á Háubrekku 1963
• Héraðshælið, kaup á ýmsum lækninga- og rannsóknatæki. Einnig sjónvörp og hljómflutningstæki.
• Sjúklingar styrktir til utanlandsferða vegna lækninga, en þá tóku tryggingar lítinn þátt í slíkum kostnaði. Stofnaður var styrktarsjóður til þessa 1967
• Tæki og vinnuaðstaða í kjallara Hnitbjarga að upphæð 2.5 milljónir, fyrir vistmenn 1979
• Gefinn vélsleði ásamt labb-rabb tæki til Hjálparsveitar Skáta.
• Kirkjan skreytt fyrir jólin, henni færðir kertastjakar úr silfri og máluð að utan,
• Félagsheimilið stutt í kaupum á konsertflygli, standsett fundarherbergi og húsið málað að utan.
• Á 100 ára afmæli Blönduóss, færði klúbburinn hreppnum málverk eftir Sveinbjörn Blöndal, málað af kauptúninu í tilefni þessara tímamóta.
• Dagheimilið fékk 1 milljón til leiktækjakaupa, þegar það var tekið í notkun.
• Ungmennafélagið á Blönduósi og Ungmennasamband Austur Húnvetninga hafa hlotið fjárupphæðir til styrktar íþrótta- og félagsstarfsemi.
• Þá hafa Lionsmenn sett upp hreppamerki um alla sýsluna, en sjálf merkin voru greidd af hreppunum.
• Í tilefni 25 ára afmælis klúbbsins hafa grunnskóli Blönduóss og á Húnavöllum fengið vonduð myndbandstæki og myndatökutæki.
• Árlegur viðburður að fara eins dags skemmtiferð á hverju sumri með vistmenn ellideildar Héraðshælisins og fleira aldrað fólk.
• Fjárlög til framangreindra verkefna og annarra smærri hefur klúbburinn aflað með ýmsum hætti.
Helst er að nefna:
• Árlega ljósaperusölu, blómasölu, stundum fisksölu, jólakortasölu ofl.
• Einnig hefur rækjuveiði og vinnsla gefið drýgstar tekjur frá árinu 1976
• Það hefur byggst á velvild og skilningi eigenda Rækjuvinnslunnar Særúnar og rækjubátanna og áhafna þeirra að þessi fjáröflunarleið hefur verið möguleg. (Húnavaka 1985, bls. 191-196)

Afréttur Vindhælis- og Engihlíðarhrepps

  • HAH00644
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1922

Vjer undirritaðir Björn hreppstjóri Árnason, Syðri-ey, Ólafur oddviti Björnsson, Árbakka, Jónatan J. Líndal oddviti Holtastöðum og Einar Guðmundsson sjálfseignarbóndi á Neðrimýrum, sem kosnir höfum verið af Vindhælishreppi og Engihlíðarhreppi, til þess að ákveða landamerki, milli afréttarlanda Vindhælis- og Engihlíðarhreppa, höfum í dag orðið ásáttir um svofelld landamerki:
Frá Gálgagili (þar sem Mjóadalsá rennur í Norðurá) ræður Norðurá merkjum til Ambáttarár, þá Ambáttará til upptaka (þar sem hún byrjar að mynda gil). Þaðan sjónhending í vörðu á vestari Sjónarhól (sem er neðan við Fífugilseyrar). Þaðan sjónhending í upptök lækjar þess er rennur austur úr Ambáttardal til Laxár. Ræður sá lækur svo merkjum til móts við sérstakan melhól sunnan lækjarins, nokkuð fyrir austan austari Sjónarhól, sem varða er hlaðin á, og sem er hornmerki að suðaustan. Frá vörðu á nefndum hól eru merkin sjónhending í vörðu, sem stendur við háa þúfu á hæsta og vestasta hól Hrossaskálabrúnar. Þaðan sjónhending í Engjalæk miðað við vörðu, sem stendur á grjótflögu á há Pokafelli.
Til staðfestu ritum vjer nöfn vor hjer undir.
Gjört að Skúfi 22. júní 1923
Björn Árnason, Ól. Björnsson. Jónatan J. Líndal. Einar Guðmundsson.
Vjer undirritaðir hreppsnefndarmenn, erum samþykkir framanrituðum landamerkjum.
Á hreppsnefndarfundi að Holtastöðum 21/11 1923
Agnar B. Guðmundsson. Ari H. Erlendsson. Árni E. Blandon. Jónatan J. Líndal.
Vjer undirritaðir hreppsnefndarmenn Vindhælishrepps, erum samþykkir framanrituðum landamerkjum.
Á hreppsnefndarfundi að Hólanesi 5. des. 1924.
B.F. Magnússon. A. Guðjónsson. Björn Guðmundsson Björn Árnason Ól. Björnsson. Carl Berndsen.

Hrafnabjörgum 13. des. 1922
Sigr. Þorkelsson

Vitundarvottar:
Halldór Halldórsson
P. Jónsson.
Lesið fyrir manntalsþingrjetti Húnavatnssýslu að Hólanesi Þ. 6. júlí 1925 og innfært í landamerkjabók sýslunnar Nr. 314, fol. 170-170b.

Arnarstapi og Stapafell

  • HAH00012
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1880)

Arnarstapi eða Stapi er lítið þorp eða þéttbýli á sunnanverðu Snæfellsnesi. Það er undir Stapafelli, á milli Hellna og Breiðuvíkur.

Frá árinu 1565 sátu umboðsmenn konungs, sem höfðu á leigu jarðir þær sem Helgafellsklaustur hafði átt, á Arnarstapa og kallaðist umboðið Stapaumboð. Þeir voru oft jafnframt sýslumenn eða lögmenn og á 19. öld sátu amtmenn Vesturamtsins einnig á Stapa. Þar hafa ýmsir þekktir menn verið um lengri eða skemmri tíma. Fatlaða skáldið Guðmundur Bergþórsson átti þar heima á 17. og 18. öld. Bjarni Thorsteinsson amtmaður var þar 1821-1849 og þar ólst sonur hans, þjóðskáldið Steingrímur Thorsteinsson, upp.

Steinkarlinn Bárður Snæfellsás.
Gamla Amtmannshúsið á Arnarstapa (Stapahúsið) var reist þar á árunum 1774-1787 og er því eitt af elstu húsum á Íslandi. Árið 1849 var það tekið niður og flutt að Vogi á Mýrum, þar sem það var til 1983. Það var reist aftur á Arnarstapa 1985-1986 og friðað árið 1990.

Lendingin á Arnarstapa var talin ein sú besta undir Jökli og var þar fyrrum kaupstaður, á tíma einokunarverslunarinnar og allt til ársins 1821, og mikið útræði frá því snemma á öldum. Þar er smábátahöfn sem var endurbætt 2002. Hún er nú eina höfnin á sunnanverðu Snæfellsnesi og þaðan eru gerðir út allmargir dagróðrabátar á sumrin. Á Arnarstapa er einnig nokkur sumarhúsabyggð og mikið er þar um ferðamenn, einkum á sumrin. Þar er veitingahús og ýmiss konar ferðaþjónusta.

Mikil náttúrufegurð er í grennd við Arnarstapa. Ströndin milli Stapa og Hellna var gerð að friðlandi 1979, en hún þykir sérkennileg og fögur á að líta. Vestur með henni er Gatklettur og þrjár gjár, Hundagjá, Miðgjá og Músagjá, sem sjávarföll hafa holað inn í bergið. Op eru í þaki þeirra nokkuð frá bjargbrún, hvar sjór gýs upp og brimsúlur þeytast hátt í loft upp og talið ólendandi í Arnarstapa þegar Músagjá gýs sjó. Vinsæl gönguleið á milli Arnarstapa og Hellna er að hluta gömul reiðgata á milli þessara staða.
Á Arnarstapa er steinkarl mikill, sem Ragnar Kjartansson myndhöggvari hlóð, og heitir hann Bárður Snæfellsás. Margir hafa einmitt trú á því að Bárður vaki yfir svæðinu undir Jökli.

Stapafell er um 526 m hátt mænislaga bert og skriðurunnið móbergsfjall sem gengur suður úr undirhlíðum Snæfellsjökuls, um 3 km norður frá Hellnum og fyrir ofan Arnarstapa. Vegur liggur upp með fjallinu að austan norður um Kýrskarð og Jökulháls til Ólafsvíkur. Norðaustan við Stapafell er Botnsfjall sem í er Rauðfeldsgjá og er hægt að ganga inn eftir gjánni inn að botni. Efst á Stapafelli er kletturinn Fellskross, fornt helgitákn en fellið er talið vera bústaður dulvætta.
Í Landnámu segir að Sigmundur, sonur Ketils þistils hafi numið land á milli Hellishrauns og Beruvíkurhrauns og búið að Laugarbrekku. Jarðanna beggja er svo getið í Bárðar sögu Snæfellsáss en hún er talin vera rituð á 14. öld, eftir Landnámu, örnefnum og þjóðsögum. Í Bárðarsögu er einnig minnst á jarðirnar Öxnakeldu og Tröð (Skjaldartröð) sem sýnir að þær hafa verið komnar í byggð á 14. öld.

Ásbyrgi

  • HAH00036
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1880)

Ásbyrgi er hamrakví í Vatnajökulsþjóðgarði, Jökulsárgljúfrum, Norðurþingi í Norður–Þingeyjarsýslu, og eitt af mestu náttúruundrum Íslands. Það er allt að 3,5 km á lengd inn í botn og um 1,1 km á breidd í mynni þess og helst svipuð breidd um þrjá km inn eftir því. Fyrstu tvo km er byrgið klofið af Eyjunni, miklu standbergi, sem er um 250 m á breidd og skiptir Ásbyrgi í tvennt. Hamraveggirnir eru um 90 – 100 m háir og eru lægstir fremst en hækka þegar innar dregur.

Í skóginum og kjarrinu eru skógarþröstur og auðnutittlingur algengir, sem og músarindillinn. Upp úr 1970 fór fýll að verpa í hamraveggjunum og er þar nú þétt byggð. Skordýralíf er líka með ágætum eins og gefur að skilja á svo skjólsælum og gróðursælum stað og ber mest á blómaflugum, galdraflugur og hunangsflugur eru algengar. Geitungar hafa einnig tekið sér bólfestu þarna.

Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um tilurð þessarar hamrakvíar en líklegust er sú að hún hafi myndast þegar tvö hamfarahlaup urðu í Jökulsá á Fjöllum, hið fyrra fyrir um 8 -10 þúsund árum og hið síðara fyrir um 3 þúsund árum. Þjóðsagan skýrir þetta náttúrufyrirbæri á annan hátt. Sagan segir að þarna hafi Sleipnir, hestur Óðins, stigið fast niður fæti þegar hann var á ferð sinni um lönd og höf. Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis og eyjan í miðjunni sé far eftir hóftunguna.

Bergið í veggjum Ásbyrgis er úr beltóttu dyngjuhrauni. Hraunið rann frá gígnum Stóravíti efst á Þeistareykjarbungu fyrir 11 - 12 þúsund árum, skömmu eftir að jöklar ísaldar hörfuðu af svæðinu. Jarðfræðingar nefna hraunið Stóravítishraun. Stóravítisdyngjan er af sömu gerð eldfjalla og Skjaldbreiður og Trölladyngja og er stærsta hraundyngja landsins að efnismagni.

Dalatangi

  • HAH00188
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1895 og 1908 -

Dalatangi er ysta nes á fjallgarðinum Flatafjalli milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Þar rétt hjá eru sýslumörk Norður- og Suður-Múlasýslu. Á Dalatanga var fyrst reistur viti árið 1899 og hefur þar verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1938.
Á staðnum eru tveir fallegir vitar. Dalatangviti, skærgulur að lit, var byggður árið 1908 er enn í notkun. Í vitahúsinu er jafnframt gamall hljóðviti sem var gerður nýlega upp og fær að hljóma á sunnudögum á sumrin gestum til heiðurs.
Eldri vitinn, er ekki síður falleg bygging. Hann er frá árinu 1895 og var gerður upp fyrir nokkru. Athafnamaðurinn Otto Wathne hafði forgöngu um gerð þeirra beggja.
Þá er á Dalatanga samnefndur bær þar sem vitavörður býr og er þar einnig rekið gistiheimili á sumrin. Hér hafa einnig farið fram reglubundnar veðurmælingar frá árinu 1938.
Vegurinn út í Dalatanga er á köflum seinfarinn, en er ferðalagsins virði fyrir þennan einstaka stað, sem er bókstaflega á ystu nöf. Hér endar Mjóafjarðarvegur. Lengra austur verður ekki haldið. Útsýnið yfir nærliggjandi firði er að sama skapi stórbrotið, en við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.

Djúpivogur

  • HAH00234
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1900-

Djúpivogur er þorp í Djúpavogshreppi sem stendur á Búlandsnesi, milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Á Djúpavogi voru íbúar 331 (1. janúar 2015).

Hinn formfagri Búlandstindur er þekktasta kennileitið í Djúpavogshreppi. Safna- og menningarhúsið Langabúð, byggt árið 1790, setur einnig mikinn svip á bæjarmynd Djúpavogs. Í Löngubúð er meðal annars safn Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara.
Fljótlega eftir að landnám hófst á Íslandi munu norræn skip hafa komið af hafi til Berufjarðar til þess meðal annars að eiga viðskipti við fólk sem hafði tekið sér bólfestu um sunnanverða Austfirði. Bæði í Njálu og Fljótsdæla sögu er sagt frá verslunarstaðnum Gautavík við innanverðan Berufjörð. Þar versluðu Þjóðverjar á tímum Hansakaupmanna þar til þeir fluttu bækistöð sína suður yfir fjörðinn til Fýluvogs (Fúluvíkur) upp úr 1500. Rústir í Gautavík eru friðaðar og hefur hluti þeirra verið kannaður með fornleifauppgreftri.

Verslunin í Fýluvík var í höndum kaupmanna frá Bremen og starfaði í um 80 ár. Brimarar kölluðu staðinn Ostfiordt in Ostfiordt-süssel. Höfnin þar er nú lokuð vegna sandburðar og ekki sést lengur til verslunarhúsa. Kaupmenn í Hamborg fengu verslunarleyfi á Djúpavogi þann 20. júní árið 1589, með leyfisbréfi gefnu út af Friðriki 2. Danakonungi, og til þess tíma er rakið upphaf búsetu þar.

Einokun komst á 1602 þegar Kristján 4. konungur Dana veitti borgurum í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri einkarétt til verslunar á Íslandi. Austurlandi var skipt niður í þrjú verslunarumdæmi. Kaupstaðir voru á Vopnafirði, í Reyðarfirði og á Djúpavogi, en þar var jafnframt eina verslunarhöfnin á öllu suðausturhorni landsins. Einokun var aflétt 1787 og öllum dönskum þegnum varð heimilt að stunda verslun við Íslendinga. Seinna var verslun gefin frjáls hverjum sem stunda vildi.

Danski kaupmaðurinn J.L. Busch rak verslun á Djúpavogi frá 1788-1818 en þá kom Verslunarfélagið Örum & Wulff til skjalanna og sá um Djúpavogsverslun í rúma öld, frá 1818 allt til 1920. Fyrirtækið hafði aðsetur í Danmörku og á þess vegum komu verslunarstjórar til Djúpavogs til að hafa umsjón með kaupskapnum. Árið 1920 var Kaupfélag Berufjarðar stofnað og keypti það eignir dönsku kaupmannanna. Þeirra á meðal voru verslunarhúsin sem enn standa við höfnina. Elst þeirra er Langabúð, bjálkahús frá öndverðri 19. öld, og er til vitnis um verslunarsögu sem hófst við landnám.

Efra-Núpskirkja Fremri Torfastaðahreppi í Húnavatnssýslu

  • HAH00576
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1900)

Efranúpskirkja er í Melstaðarprestakalli íHúnavatnsprófastsdæmi. Kirkjusetur á hinum fornagóðbændagarði á Efri-Núpi er ævagamalt. Hér er efstabyggðarból í sveit (200m.y.s.), Fremri-Torfustaðahreppi, og sókn. Vorulöngum talin 14-15 býli í sókninni. Frá Efri-Núpier talinn 10 stunda gangur suður um Arnarvatnsheiði tilbyggða Borgarfjarðar. Var umferð mikil fyrrum og gjarnan gististaður á Efra-Núpi. Varð hér hinzti náttstaður Rósu Guðmundsdóttur skálds, sem er kennd við Vatnsenda í Vesturhópi, 28. sept. 1855. Árið 1965 komu húnvetnskar konur veglegum steini fyrir áleiði hennar.
Jón Arason Hólabiskup sló eign sinni áEfra-Núp 1535 og úr fyrra sið er enn þá varðveittkirkjuklukka, 23 sm í þvermál og ber gotneskt letur, þar semgreinir á hollenzku, að steypt sé 1510. Hin klukkan er frá1734, nær 6 sm stærri og á hana letrað nafn GuðmundarJonassens. Í stað timburkirkju frá 1883 var reist steinsteypt kirkjuhús 1960. SigurðurJónsson, vinnumaður á Efra-Núpi, gaf allt sementið og mjögunnu sjálfboðaliðar að og margar gjafir gefnar íkirkjumunum, enda er kiekja, sem séra Sigurður Stefánssonvíglsubiskup á Möðruvöllum vígði hinn 20. ágúst 1961, prýðilega búin.
Húsið er 9,5 x 5,7 m að innanmáli í einu skipi undir járnþakimeð timburturni yfir kirkjudyrum. Á hvorum kirkjuvegg eru 3sexrúðugluggar undir rómönskum boga, en lítill einrúðugluggisinn hvorum megin við altari. Kirkjan er björt, hvítmálaðirmúrveggir og lýsing frá vænum kristalshjálmi og 8 ljósaliljum.Súðin er viðarklædd að mæni og panellinn lakkborinn sem breiðirkirkjubekkrinir, er rúma 60 í sæti. Altair er stórt, 1,8 x 0,7 smog grátur að framan en opið til hliða á kórgólfi, farfaðbrúnum lit eins og fimmstrendur predikunarstóllinn.

Hátt á kórgafli er trékross, en altaristaflan málverk Eggerts Guðmundssonar, er sýnir Jesú blessa börnin. Stjakar eru 4 og kaleikur og patína af silfri og með gyllingu innan, allt góðirgripir, sem og skrúði kirkjunnar. Hljóðfærið er gamaltSpartha-harmoníum frá Gera í Thüringen í Þýzkalandi og stendurí norðvesturhorni, þar sem rými er fyrir söngflokk. Kirkjunni erþjónað frá Melstað.

Efra-Núpskirkja að innan.
Efri-Núpur eða Efrinúpur er bær og kirkjustaður í Núpsdal, sem er einn Miðfjarðardala inn af Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu.
Efri-Núpur var áður í þjóðbraut því þaðan var gjarna farið upp á Arnarvatnsheiði og suður til Borgarfjarðardala og var þaðan talinn 10 klukkutíma gangur að efstu bæjum í Borgarfirði. Var algengt að ferðamenn tækju sér gistingu á Efra-Núpi, annaðhvort þegar þeir komu ofan af heiðinni eða áður en þeir lögðu á hana.
Kirkja hefur verið á Efra-Núpi frá fornri tíð og var þar sérstakt prestakall fram yfir siðaskipti en eftir það útkirkja frá Staðarbakka. Nú er kirkjunni þjónað frá Melstað. Núverandi kirkja var vígð 1961 og kom hún í stað gamallar timburkirkju sem þá var rifin. Enn er þar kirkjuklukka frá 1510

Egilsstaðir á Völlum

  • HAH00236
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1880)

Stórbýlið Egilsstaðir stendur á fjölförnustu vegamótum Austurlands. Þar hefur ætíð verið mikill gestagangur og því ekki tilviljun að á staðnum var opnað gistihús, sem seinna varð Gistihúsið Egilsstöðum. Hefur það nafn lifað góðu lífi þrátt fyrir að Gistihúsið sé löngu orðið hótel og heiti nú Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir.

Saga gistingar á þessum stað nær allt aftur til ársins 1884, en þá taldi Eiríkur Halldórsson ábúandi á Egilsstöðum sig tilneyddan að hefja gjaldtöku fyrir gistingu sökum bágs efnahags. Þar með hófst í raun rekstur gistihúss á Egilsstöðum og hefur hann haldist svo að segja óslitinn fram á þennan dag.
Árið 1889 keyptu Jón Bergsson og Margrét Pétursdóttir jörðina Egilsstaði og er það upphafið að sögu ættar þeirra á þessum stað. Jón mun hafa lýst því yfir í heyranda hljóði að á Egilsstöðum yrðu vegamót og urðu það orð að sönnu. Í dag búa niðjar Margrétar og Jóns í sex húsum í landi Egilsstaða.

Grunnurinn lagður árið 1903
Elsti hluti þeirrar byggingar er hýsir Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir var reistur árin 1903-1904. Í tíð Margrétar og Jóns var þar boðin gisting í 2-3 herbergjum. Húsið var þá tvílyft með kjallara og með elstu húsum sem byggð voru úr steinsteypu á Fljótsdalshéraði. Það var svo stækkað um næstum helming, til norðurs, árið 1914 og lauk framkvæmdum 1920.

Eftir að Jón Bergsson lét af búskap tóku synir hans Pétur og Sveinn við búinu. Bjó Pétur ásamt konu sinni Elínu Stephensen í eldri hluta hússins, en Sveinn kvæntist Sigríði Fanneyju Jónsdóttur og bjuggu þau í nýrri hlutanum. Systur þeirra bræðra, Sigríður og Ólöf, héldu einnig heimili á Egilsstöðum og bjuggu í íbúð á efri hæð eldra hússins. Sveinn og Sigríður Fanney tóku við rekstri Gistihússins Egilsstöðum árið 1920. Í hálfa öld ráku þau Sigríður Fanney og Sveinn gistihúsið og mörkuðu varanleg spor í sögu Fljótsdalshéraðs með framfarahug og atorku.

Enn var byggt við og húsið lengt að norðanverðu árið 1947. Byggðir voru stigar frá kjallara upp í rjáfur, vatnssalerni tekin í gagnið og byggðir kvistir á ytri hluta hússins. Innréttuð voru tíu tveggja manna gistiherbergi. Starfsemin var fjölbreytt, því auk gistingar var í húsinu Verslun Jóns Bergssonar, matvæla- og korngeymsla, pósthús og símstöð, sem starfrækt var fram til ársins 1952. Þar fór í gegn fyrsta langlínusamtal Íslendinga um símstreng frá Seyðisfirði.

Tveir myndarlegir trjágarðar standa fljótsmegin hótelsins og eiga sér merka sögu. Sigríður Jónsdóttir gerði fagran skrúðgarð í kringum 1910 og þótti það nýlunda til sveita. Á rústum gamla torfbæjarins á Egilsstöðum byggði Sveinn Jónsson upp trjágarð um 1930. Var gerður utan um garðinn fallegur veggur úr steinsteyptum einingum og vakti einnig athygli.

Ásdís Sveinsdóttir, dóttir Sveins og Sigríðar, eignaðist Gistihúsið og tók við rekstri þess árið 1970. Hún lét mikið að sér kveða í gisti- og veitingarekstrinum og annaðist hann vakin og sofin í átján ár, eða fram til 1988. Næstu fimm árin önnuðust utan að komandi aðilar reksturinn og varð svo nokkurra ára hlé á honum.

Árið 1997 urðu vatnaskil. Þá keyptu hjónin Hulda Elisabeth Daníelsdóttir og Gunnlaugur Jónasson Gistihúsið. Gunnlaugur er sonur Margrétar Pétursdóttur, sonardóttur Jóns Bergssonar og Margrétar Pétursdóttur og þar með var hótelið á nýjan leik komið í hendur Egilsstaðaættarinnar.
Þau Hulda og Gunnlaugur gerðu á rúmlega áratug umfangsmiklar endurbætur á eldri hluta hótelsins. Þau lögðu alúð við umbæturnar og ríka áherslu á að halda hinum gömlu innviðum til haga, sem og virðulegum og umfaðmandi anda hússins.

Á fyrstu árum nýrrar aldar fóru hjónin að velta fyrir sér hvort stækka bæri hótelið og þá með hvaða hætti. Vandasamt getur verið að bæta nýju við gamalt þannig að samræmi haldist. Þau skoðuðu ýmsar hugmyndir og tillögur en í október árið 2013 var tekin skóflustunga að nýrri 1500 m2 byggingu sunnan við gamla húsið. Tekið var á móti gestum í nýrri gestamóttöku og gistiálmu hálfu ári síðar og verður það að teljast vel af sér vikið í svo stórri framkvæmd.
Auk móttökunnar í tveggja hæða byggingu voru byggðir tveir lyftuturnar og fjögurra hæða hús með 32 herbergjum. Fjögur þeirra eru lúxusherbergi og 6 eru hönnuð sérstaklega með þarfir fatlaðra í huga. Á neðri hæð móttökuhússins er heilsulindin Baðhúsið – Spa, með heitri smálaug, köldum potti, sánu og hvíldaraðstöðu með útsýn yfir Lagarfljót. Að auki eru í nýbyggingunni þvottahús, starfsmannaaðstaða, snyrtingar, geymslu- og skrifstofurými.

Sem dæmi um hvernig reynt var að tengja anda gamla Gistihússins við hina nýju byggingu og skapa flæði á milli þeirra, má nefna að rauðar bárujárnsplötur af þaki gamals gripahúss, sem varð að víkja fyrir byggingarframkvæmdunum, voru m.a. nýttar í innréttingar í gestamóttöku. Eldri hluta hótelsins hefur einnig verið umbreytt að hluta, enda renna nú fallega saman eldri byggingin frá árinu 1903 og sú yngri frá 2014 og mætast í rauninni gömul öld og ný. Tré sem þurfti að fjarlægja vegna byggingarframkvæmda nýttust á fallegan hátt í borðplötur í veitingarými, sem kollar innan húss og utan og í ýmislegt fleira innanstokks. Voru þetta viðir af reyni, öspum og birki. Gamlir sexrúðugluggar með einföldu gleri voru varðveittir þegar gluggar voru endurnýjaðir og nokkrir settir í heilu lagi upp á veggi veitingastaðar hótelsins. Í stað þess að horfa fyrr á tíð út um þá til samtímans, má nú að vissu leyti horfa inn um þá, til fortíðar hússins. Á veggjum hanga einnig gamlar ljósmyndir og málverk sem tengjast staðnum og fólkinu sem þarna hefur búið og starfað frá öndverðu. Þá ber að halda því til haga að á frumbýlingsárum sínum á hótelinu nýttu Hulda og Gunnlaugur gamlan stiga milli hæða, sem þurfti að víkja, sem efnivið í gestamóttöku og bar og lukkaðist það frábærlega, enda hagleikssmiðurinn Frosti Þorkelsson þar að verki, sem og víðar í húsinu. Öll hönnun innanstokks hefur verið í höndum húsfreyjunnar Huldu, frá því að þau Gunnlaugur hófu hótelreksturinn og er það samdóma álit þeirra sem til þekkja að þar gæti mikillar smekkvísi og jafnframt frumlegrar og virðingarverðrar nálgunar við gamla muni í nútímasamhengi. Gunnlaugur húsbóndi á síðan ófá handtökin við endurbætur eldri byggingarinnar sérstaklega og hefur verið vakinn og sofinn yfir rekstrinum líkt og fyrirrennarar hans áður.

Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir er svipmikið hótel með öllum nútímaþægindum en um leið er það hlýlegt og umvefjandi. Gestir geta valið um velbúin og rómantísk antík-herbergi í eldri hlutanum eða nýtískuleg og stílhrein herbergi yngri byggingarinnar. Sameiginlegt rými er í móttökusal og er þar einnig glæsilegur bar með góðu úrvali drykkja. Veitingastaður hótelsins, Eldhúsið – Restaurant, hefur getið sér orðs og eru metnaður og alúð þar allsráðandi. Matargerðin er sprottin úr traustum hefðum, en hráefnin gjarnan sett í nýtt og framsækið samhengi. Hráefni er ætíð fyrsta flokks, að mestu íslenskt, gjarnan lífrænt og oftast fengið úr næsta nágrenni, enda er leitast við að nýta og kynna afurðir úr héraði. Austfirskar krásir og Beint frá býli eru þar í öndvegi.
Glæsileg heilsulind, Baðhúsið – Spa, er á jarðhæð hótelsins, með heitri smálaug, sánu, köldum potti og hvíldarsvæði innan og utan dyra. Einkar fallegt útsýni er yfir Lagarfljót frá heilsulindinni. Lögð er áhersla á rólegt, slakandi og endurnærandi umhverfi.
Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir er innan vébanda félagsins Ferðaþjónustu bænda. Starfsfólk er um 40 manns; einvalalið sem hefur vellíðan og ánægju gestanna í fyrirrúmi.

Gunnlaugur og Hulda ásamt börnum sínum bjóða þér að njóta gestrisni og góðs aðbúnaðar í fögru umhverfi við Lagarfljót og vona að þú njótir dvalarinnar.

Flóðið í Vatnsdal

  • HAH00255
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 8.10.1720 -

Flóðið er stöðuvatn við mynni Vatnsdals. Í það fellur Vatnsdalsá. Vatnsfallið skiptir um nafn við Flóðið og heitir Hnausakvísl þegar það fellur úr Flóðinu. Hnausakvísl er 7 km löng og fellur til sjávar í Húnaós. Vatnasvið við Flóðið er 993 m².

Flóðið varð til árið 1720 þegar Bjarnastaðaskriða féll.

Grímstunguheiði

  • HAH00017
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Þorgils skarði og Sturla Þórðarson sendu framvarðarsveit á undan sér um Grímstunguheiði, þegar þeir fóru að Ásgrími Þorsteinssyni í Hvammi í Vatnsdal árið 1255. “Þeir höfðu hestakost lítinn og fórst þeim seint; en þeir Bergur riðu ákaft norður eftir heiðinni og gátu tekið njósnarmenn Nikuláss hjá Grímstungumannaseljum; voru þeir þegar bundnir og barðir mjög.” Þessi heiði var á Sturlungaöld sjaldnar farin til Vatnsdals en Haukagilsheiði, sem er næst fyrir vestan hana. Báðar höfðu þann kost, að þær lágu ekki um byggðir, svo að minni líkur voru á, að njósn bærist þeim, sem riðið var að.
Förum frá Grímstungu beint suður Tunguna á Grímstunguheiði og suðsuðaustur um Hestás og Sílvatnsás. Síðan til suðurs vestan við Sílvatn og Austara-Gilsvatn og suður Illaflóa. Þar förum við austan við Þórarinsvatn og vestan við Svínavatn, síðan til suðsuðausturs austan við Gedduvatn og vestan við Galtarvatn að vegamótum. Þar er slóði um þrjá kílómetra austur í fjallakofann í Öldumóðu.

Nálægar leiðir: Stórisandur, Öldumóða, Forsæludalur.
Öldumóða: N65 10.928 W19 54.823.

Helstu vötnin á Grímstunguheiði eru Þórarinsvatn Svínavatn, Galtarvatn og Refkelsvatn. Úr Refkelsvatni rennur Refkelslækur. Góð bleikju veiði er í þessum vötnum og lækjunum sem renna í/úr þeim

Holtastaðir í Langadal

  • HAH00212
  • Fyrirtæki/stofnun
  • [900]

Holtastaði. Landnámsjörð. Þar bjó Holti Ísröðarson. Skammt norðan heimatúns var hjáleigan Holtastaðakot sem lögð var undir jörðina 1946. Kirkjan sem var bændakirkja þar til hún var afhent söfnuðinum stendur miðsvæðis mill bæjar og þjóðvegar. Jörðinni tilheyrir eyðibýlið Eyrarland á Laxárdal fremri, dalverpi er gengur suður úr Skarðsskarði, nefnt Brunnárdalur, og landspilda vestan Blöndu í Svínavatnshreppi er nefnist Holtastaðareitur og var áður smábýli. Jörðin er í eigu sömu ættar frá árinu 1863. Íbúðarhús byggt 1914, endurbætt 1968 641 m3, fjós fyrir 48 gripi, fjárhús fyrir 200 fjár. Hesthús fyrir 10 hross. Hlöður 1457 m3, votheysgeymslur 48 m3. Tún 27,4 ha. veiðiréttur í Blöndu og Ytri Laxá

Hóladómkirkja og Hólar í Hjaltadal

  • HAH00009
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1930)

Hólar í Hjaltadal eru bær, kirkjustaður og skólasetur í Hjaltadal í Skagafjarðarsýslu. Þar var settur biskupsstóll árið 1106 þegar Norðlendingar kröfðust þess að fá sinn eigin biskup til mótvægis við biskupinn í Skálholti. Fyrsti biskup á Hólum var Jón Ögmundsson.
Hólar voru í raun höfuðstaður og helsta menningarsetur Norðurlands frá því í upphafi tólftu aldar til upphafs nítjándu aldar og frá fornu fari hafa Norðlendingar og þó einkum Skagfirðingar talað um að fara „heim að Hólum“. Biskupsstóllinn átti geysimiklar eignir og um siðaskipti var um fjórðungur af öllum jörðum í Norðlendingafjórðungi í eigu stólsins. Á Hólum var löngum rekinn skóli, þó líklega ekki óslitið nema frá því um siðaskipti, og prentsmiðja var starfrækt þar lengi. Aðalhöfn fyrir Hóla fram að siðaskiptum var Kolbeinsárós (Kolkuós). Þar komu að landi þau skip sem biskupsstóllinn átti í förum á miðöldum.

Hólabiskupar voru 23 í kaþólskum sið og 13 í lútherskum sið. Margir biskupanna á 14. og 15. öld voru þó erlendir og stóðu stutt við á Hólum eða komu jafnvel aldrei til landsins en dvöldust erlendis og létu fulltrúa sína sinna málefnum biskupsdæmisins. Af atkvæðamestu biskupum í kaþólskum sið má auk Jóns Ögmundssonar nefna Guðmund góða Arason (biskup 1203-1237), Norðmanninn Auðun rauða Þorbergsson (biskup 1313-1322), sem meðal annars reisti Auðunarstofu hina fyrri, og Jón Arason (1524-1550), síðasta biskup á Hólum í kaþólskum sið.

Fyrsti lúterski biskupinn á Hólum var Ólafur Hjaltason en atkvæðamestur lútherskra biskupa þar var Guðbrandur Þorláksson, sem sat staðinn í meira en hálfa öld, eða frá 1571 til 1627 og lét meðal annars þýða og prenta biblíuna sem við hann er kennd og kölluð Guðbrandsbiblía. Gísli Magnússon (biskup 1755-1779) lét reisa steinkirkjuna sem enn stendur á Hólum. Síðasti biskup á Hólum var Sigurður Stefánsson (biskup 1789-1798) en eftir lát hans voru biskupsdæmin tvö sameinuð og Hólastóll lagður niður en skólinn fluttur suður og sameinaður Hólavallarskóla. Eftir að biskupsstóllinn var lagður af og eignir hans seldar voru Hólar prestssetur til 1868 en þá var prestssetrið flutt í Viðvík. Hólar urðu aftur prestssetur 1952 og frá Hólum hefur þar verið vigslubiskupssetur.
Skagafjarðarsýsla keypti jörðina 1881 og árið eftir var bændaskóli stofnaður á Hólum, Frá 2003 hefur nám þar verið á háskólastigi og kallast skólinn nú Háskólinn á Hólum. Ýmsar stofnanir eru einnig á Hólum, þar á meðal Sögusetur íslenska hestsins, Guðbrandsstofnun, sem er rannsókna- og fræðastofnun í tengslum við skólann, og fiskeldisstöðin Hólalax. Á Hólum er grunnskóli og leikskóli. Þar er umfangsmikil ferðaþjónusta og á sumrin er rekið þar gistihús og veitingahús. Þar er einnig sundlaug.

Auðunarstofa eða Timburstofan var reist á Hólum á árunum 1316 til 1317 og stóð í tæp 500 ár eða uns hún var rifin árið 1810. Auðunn rauði Þorbergsson, biskup á Hólum, hafði með sér viði í timburstofuna, þegar hann kom til Íslands 1315. Viðirnir voru dregnir að vetrarlagi frá Seleyri í Borgarfirði, yfir Stórasand, til Hóla, þar sem timburstofan var reist.

Timburstofan var hluti af staðarhúsunum á Hólum, stóð fast sunnan við kirkjugarðinn. Hún var tvískipt, annars vegar bjálkahús eða stokkahús, þ.e. hin eiginlega timburstofa, og hins vegar stafverkshús sem var sambyggt timburstofunni. Stafverkshúsið var á tveimur hæðum, var neðri hæðin stundum kölluð Anddyr eða Forstofa, og sú efri Studium eða Studiumloft. Hugsanlegt er að svalagangur hafi í öndverðu verið meðfram Timburstofunni. Nafnið Auðunarstofa kemur fyrst fyrir í Árbókum Espólíns, þegar sagt er frá niðurrifi stofunnar árið 1810.

Árið 1995 orðaði Bolli Gústavsson vígslubiskup þá hugmynd í Hólanefnd að láta endurgera Auðunarstofu á Hólum. Tókst með samvinnu íslenskra og norskra aðila að koma því í kring, og var Auðunarstofa hin nýja fullfrágengin sumarið 2002. Húsið er allnákvæm endurgerð stofunnar fornu, að öðru leyti en því að stafverkshlutinn er nokkru stærri, til þess að auka notagildi hússins.

Hólmi á Skaga

  • HAH00299
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1952 -

Bærinn stóð áður í hólma í Fossá, en er nú norðan við ána. 1952 jörðinni skipt úr Hróarsstaðalandi og gert að lögbýli.íbúðarhús 1952. Fjós 1953 úr asbesti, fjárhús 1935 úr torfi og grjóti, fjárhús úr asbesti 1951 yfir 80 fjár. Hlaða 1950 100 m3. Tún 5,5 ha.

Hundavötn

  • HAH00309
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Svæðið umhverfis Hundavötn heitir Ömrur, enda þykir það ömurlegt og gróðurlaust.

Hundavötn eru í skarðinu vestan Lyklafells austan við það eru Krákur á Sandi [Djöflasandi] 1188 m. á Auðkúluheiði.
Eystri Hundavötn er hvítt af jökulleir.

Norðan við Þjófadalafjöll liggja Búrfjöll, sem er alllöng fjallaröð með mörgum hnúkum. Við stefnum á norðurhluta Þjófadalafjalla. Göngulandið er gróið mosa, lyngi og víðikjarri, og sums staðar mjög þýft. Á leið okkar eru þrjár bergvatnskvíslar. Þær eru vatnslitlar núna og við stiklum þær: Þegjandi fyrst, þá Hvannavallakvísl og loks Dauðsmannskvísl. Handan Dauðmannskvíslar tekur gróðurleysi við, en það kallast því kynlega nafni Djöflasandur.

Búrfjöll eru fjallgarður úr móbergi sem liggur norðaustur af Langjökli á milli Hundavatna og Seyðisárdranga í nokkurs konar framhaldi af Þjófadalafjöllum,

Grundarkirkja Eyjafirði 1904

  • HAH00223
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1904-

Grundarkirkja 1904 er í Laugalandsprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Grund er bær og kirkjustaður frá fornu fari í Hrafnagilshreppi. Þar voru katólskar kirkjur helgaðar heilögum Lárentíusi. Grund tilheyrði Grundarþingum fyrrum. Magnús Sigurðsson, bóndi á Grund, byggði núverandi kirkju árið 1904-05 fyrir eigið fé. Grundarkirkja er með veglegri kirkjum landsins og sú langstærsta sem einstaklingur hefur byggt.

Yfirsmiður var Ásmundur Bjarnason frá Eskifirði. Glerið í gluggana skar Magnús sjálfur. Málari var norskur Muller að nafni. Nokkrir merkir munir sem áður tilheyrðu kirkjunni eru nú varðveittir í Þjóðminjasafni svo sem kaleikur frá 15. öld svo og kirkjustóll úr tíð Þórunnar Jónsdóttur Arasonar. Kirkjan er bændakirkja.

Fríkirkjan Reykjavík

  • HAH00547
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1903 -

Hluti safnaðar Dómkirkjunnar í Reykjavík sagði sig úr honum í kjölfar lagasetningar, sem heimilaði það, árið 1899 og stofnaði fríkirkjusöfnuð í Reykjavík. Tveimur árum síðar keypti söfnuðurinn lóð austan Tjarnarinnar og reisti kirkju, sem var vígð 1903. Það gerði séra Ólafur Ólafsson frá Arnarbæli, sem var ráðinn prestur safnaðarins. Ári eftir að kirkjan var vígð var hún orðin of lítil og Rögnvaldur Ólafsson gerði uppdrætti að stækkun hennar. Kirkjan var lengd og vígð að nýju árið 1905. Kirkjan var stækkuð á ný á 25 ára afmæli safnaðarins en þá var steyptum kór bætt aftan við hana og miðhvelfingin eftir endilöngu kirkjuskipinu var hækkuð. Einar Erlendsson, húsameistari, teiknaði þessar breytingar.

Kirkjan var vígð í þriðja skiptið 1924. Núverandi mynd fékk kirkjan 1940, þegar viðbyggingarnar báðum megin forkirkjunnar voru byggðar. Orgel kirkjunnar er frá 1926 og var þá talið eitt þriggja fullkomnustu hljóðfæra á Norðurlöndum. Um skeið var talsvert um samkomur, söngskemmtanir og fyrirlestrahald í kirkjunni.

Í tilefni aldarafmælis safnaðarins fór fram gagnger viðgerð og viðhald á kirkjunni 1998-99.

Húnavallaskóli

  • HAH00310
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1969-

Húnavallaskóli er grunnskóli í Austur-Húnavatnssýslu sem stendur við Reykjabraut. Hann hefur verið starfræktur af sveitafélaginu Húnavatnshreppi frá árinu 1969 og hefur starfað í þágu nemenda sem búa í dreifbýli í héraðinu. Skólaárið 2011 - 2012 stunduðu 60 nemendur nám við skólann. Skólastjórar skólans hafa verið sjö en skólastjóri skólans er nú Sigríður B. Aadnegard.

Húnavatn

  • HAH00311
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (880)

Húnavatn er í Torfalækjar- og Sveinstaðahreppum í A.-Húnavatnssýslu. Hæð þess er jöfn sjávarmáli. Vatnsdalsá kemur í það að sunnan, en útfallið er úr norðurendanum til sjávar um Húnaós. Skammt frá ósnum kemur Laxá í Ásum í vatnið. Mikill fiskur er í vatninu og gengur um það. Mest er af sjóbleikju, 1-2 pund, og nokkuð er af sjóbirtingi, sem getur orðið allvænn.

Lax gengur um vatnið til laxánna, sem í það renna, en lítur sjaldan við beitu í vatninu. Eitthvað er af staðbundnum uppalningi í vatninu. Bílfært er að vatninu og veiðihúsið Steinkot er við Vatnsdalsflóðið til afnota fyrir veiðimenn.

Vegalengdin frá Reykjavík er u.þ.b. 295 km og 12 km frá Blönduósi.

Kverkfjöll

  • HAH00690
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950-)

Ástæða er til að vara ferðamenn við snöggum veðrabrigðum við Kverkfjöll og í grennd, þar sem þoka, stórviðri og sandbyljir geta skollið á fyrirvaralítið. Því er góður búnaður nauðsynlegur og ítrasta varúð á leið að íshelli og á jökul vegna hruns, jökulsprungna og dimmviðris. Brýnt er að hafa öll nauðsynleg hjálpartæki með á jökul, svo sem áttavita eða GPS-tæki, línur, brodda og sólgleraugu.

Fitjárdrög

  • HAH00329
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Í Fitjárdrögum [FITJÁRDRÖG F. 65'00". 5621] er gangnamanna skáli Víðdælinga suðaustanvert við Arnarvatn. Fyrrum var stundum farin bein leið úr Vatnsdal til Kalmanstungu, þegar suður var farið. Innst í skálanum var pallur í mittishæð frá gólfi. Framan við hann var autt svæði, ætlað hestum og farangri. Skammt frá er Réttarvatn.

Eiðar á Eiðaþinghá

  • HAH00197
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Eiðar á Eiðaþinghá, innmannasveit.
Í grennd við Eiða sem Fljótsdæla gefur til kynna að Selfljót hafi runnið í Lagarfljót. Í sveitarlýsingu Eiðaþinghár, sem liggur á mörkum Útmannasveitar, þar sem Selfljótið á upptök sín í Gilsá má lesa þetta: „Um og utan við Eiða einkennist landið mjög af vötnum milli lágra hæða, og ganga víða tangar í og eið á milli. Bæjarnafnið Eiðar skýrist af þessum staðháttum, myndað af eið á sama hátt og Hrísar af hrís.“ Sveitir og jarðir í Múlaþingi II bindi, bls. 219.

Benedikt Gíslason frá Hofteigi gerði að því skóna að allt landsvæðið frá núverandi Eiðastað, milli Lagarfljóts og Gilsá/Selfljóts alla leið út í Héraðsflóa hafi verið kallað á Eiðum. „Þetta land gæti heitið eiði á milli þessara vatna, og er þó ekki dæmi um það í landi hér, að svo mikið land sé nefnt eiði. En land þetta er ásland, og á milli þeirra er mikil fjöldi stöðuvatna og tjarna, og eitt hið stærsta Eiðavatn, snertispöl fyrir utan Eiða, og milli þess og Lagarfljóts er eiði, og vatnið þar að auki mjög vogskorið, svo nálega er eins og um fleiri vötn sé að ræða. Og á milli þessara vatna og fljótanna er fullt af eiðum á þessu landsvæði öllu saman, og svo, auk þess, á milli vatnanna sjálfra hér og þar. Það vaknar sú spurning, hvort í fyrndinni hafi ekki allt þetta landsvæði heitið á Eiðum.“ Eiðasaga bls.10

Eiði er er sagt vera í orðskýringum landbrú eða grandi, mjó landræma, sem tengir tvo stærri landmassa. Ætla má í því sambandi að Eiðar sé eiði í fleirtölu. Norður af Osló í Noregi er Eidsvoll (Eiðisvöllur)skilgreiningin á nafninu þar er sú að þjóðbraut sé umflotin vatnsfalli. Þegar fólkið á svæðinu í kringum Mjosavatn sigldi niður Voma ána og fólk frá Romerike sigldi upp sömu á, varð það að stoppa við Eidvoll sem er við Sundfossen. Eidsvoll varð því mikilvægur áningastaður þessa fólks, en ekki eiði í bókstaflegri meiningu þess orðs.
Því er þetta tiltekið hér, þar sem Eiðar eru u.þ.b. þar sem sagan segir að Selfljót/Gilsá hafi fallið í Lagarfljót. Hæðarpunktar á þessu svæði verða sérlega áhugaverðir í því sambandi. Eiðahólmarnir í Lagarfljóti eru 36 metra yfir sjávarmáli, Eiðavatn er sagt 41 mys enda hefur vatnsborð þess verið hækkað af manna völdum vegna virkjunar í Fiskilæk sem fellur úr því í Lagarfljót. Bærinn Straumur í Hróarstungu, sem stendur við Straumflóanum neðan við Eiða, þar sem Lagarfljót hefur auðsjáanlega grafið þröngan farveg í gegnum landið á leið sinni til sjávar er 41 mys. Bærinn Gröf austan Lagarfljóts rétt utan við Eiðavatn 39 mys og bærinn Hleinargarður rétt austan við Gilsá/Selfljót er 39 mys. Mýrarnar sem eru á milli Grafar og Hleinargarðs liggja á milli klapparása og virðast í svipaðri hæð og þessir tveir bæir.

Þriðja hæsta mannvirkið er langbylgjumastur á Eiðum sem er 220 m hátt. Senditíðni er 209 KHz.

Á Eiðum var rekinn Bændaskóli og síðar Alþýðuskóli auk barnaskóla. Á Eiðum hefur verið prestsetur.

Ferjukot Borgarfirði

  • HAH00252
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Ferjukot er bær og forn verslunarstaður við Hvítá í Borgarfirði, undir Þjóðólfsholti, handan árinnar gegnt Hvítárvöllum.

Ferjukot var verslunarstaður á 13. öld og má enn sjá móta fyrir rústum skammt fyrir ofan brúna þar sem heitir Búðahöfði. Í Egils-sögu segir frá láti Böðvars, sonar Egils Skalla-Grímssonar, sem drukknaði er hann var með mönnum sem fluttu varning frá verslunarstaðnum við Hvítá.

Við Ferjukot er Hvítárbrú, sem vígð var 1928 og var mikil samgöngubót. Þó lokaðist þjóðvegurinn oft við Ferjukot vegna vatnavaxta en Hvítá flæddi oft yfir veginn þar og var þá ófært í Ferjukot nema á báti. Bærinn var lengi í alfaraleið og var þar um skeið verslun, bensínstöð, pósthús og fleira. Niðursuða á laxi hófst í Ferjukoti um 1880 og stóð þar til netaveiði var aflögð í ánni. Í Ferjukoti er til mjög mikið af munum og öðru sem tengist sögu laxveiði á Íslandi og er þar vísir að laxveiðiminjasafni.

Kirkjur voru fyrrum að Hofsstöðum, löngu af tekin, á Ferjubakka og Lambastöðum, lagðar niður eftir 1600, og á Langárfossi og Álftárósi, teknar af með konungsbréfi 1765. Bænhús munu hafa verið á Ölvaldsstöðum og Álftárbakka, og talað er um bænhús á Brennistöðum og í Einarsnesi, þótt ekki sé þeirra getið í fornskjölum. Með lögum 27/2 1880 er Álftártungusókn lögð til Borgarprestakalls. Prestar í Borgarþingum sátu lengi á Ferjubakka. Með stjórnarráðsbréfi 13/3 1940 er Borgarsókn skipt í Borgar- og Borgarnessóknir.

Framnes í Skagafirði

  • HAH00414
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Akrahreppur (áður kallaður Blönduhlíðarhreppur) er hreppur í Skagafjarðarsýslu, austan Héraðsvatna, norðan frá Kyrfisá allt suður að Hofsjökli. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður og er ekkert þéttbýli í sveitarfélaginu. Grunnskóli hreppsins var á Stóru-Ökrum, í félagsheimilinu Héðinsminni, frá 1949 til 2006 en í kjölfar deilna milli foreldra og kennara var hann lagður niður og síðan hefur nemendum verið ekið í skóla í Varmahlíð.
Fjórar kirkjur eru í Akrahreppi, á Flugumýri, Miklabæ, Silfrastöðum og Ábæ í Austurdal en Ábæjarsókn er nú öll í eyði. Lítils háttar jarðhiti er á nokkrum stöðum í Akrahreppi og var byggð sundlaug á Víðivöllum árið 1938, sem ekki er lengur í notkun. Nú hefur hitaveita verið lögð frá Varmahlíð um mestalla Blönduhlíð.

Akrahreppur er sögusvið margra stórviðburða Sturlungaaldarinnar, þar á meðal Örlygsstaðabardaga (fjölmennustu orrustunnar), Haugsnesbardaga (mannskæðustu orrustunnar) og Flugumýrarbrennu.
Skáldið Hjálmar Jónsson bjó á ýmsum bæjum í Akrahreppi á 19. öld og er jafnan kenndur við einn þeirra, Bólu í Blönduhlíð.

Oddviti 1986-2002. Broddi Skagfjörð Björnsson 19. júlí 1939 á Framnesi.

„Grímr gjördist lögsgnari í Húnavazþíngi, son Gríms í Brokey Jónssonar lögsagnara, Össurarsonar, er sagt sá Össur kæmi af Lánganesi nordan, ok byggi sídan á Framnesi í Skagafirdi, en væri þareptir lögsagnari á Bardaströnd“ Árbækur Espólín

Marteinn biskup Einarsson flúði um Vindárdal 1548 frá Jóni biskupi Arasyni og Steini presti, sem gætti hans á Hólum í Hjaltadal. Marteinn náðist í tjaldi ofarlega í Vindárdal, þar sem heita Tjaldeyrar. Um flóttann orti Jón Arason:

“Biskup Marteinn brá sitt tal,
burt hljóp hann frá Steini,
vasaði fram á Vindárdal,
varð honum það að meini.”

Förum frá Framnesi austur að eyðibýlinu Axlarhaga og þaðan norðaustur í Vindárdal. Dalurinn er í krókum, en höfuðátt hans er austur. Við höldum okkar norðan Vindár. Innan við grjóthrunið Hólana eru sléttar Tjaldeyrar og fyrir ofan þær eru Bungur. Þar förum við bratt upp úr dalnum. Þegar upp er komið, í 1040 metra hæð, beygjum við spöl til suðurs til að komast fyrir kletta. Þar náum við greiðri en brattri leið norðaustur í Hvammsdal. Eftir dalnum er bein leið að Hvammi.

Hvítárnes

  • HAH00322
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Hvítárnes er allstórt gróðurlendi við norðaustanvert Hvítárvatn. Það hefur hlaðizt upp við framburð Fúlukvíslar, Fróðár og Tjarnár. Þar stendur elzti skáli Ferðafélagsins, byggður 1930, og á góðum degi er þar mjög fagurt. Fornar bæjartóttir, e.t.v. Tjarnarkot, gefa til kynna búsetu fyrrum. Líkum er leitt að því, að byggðin hafi farið í eyði í Heklugosi 1104. Sumir gestir skálans telja sig verða vara við draugagang í einu herbergja hans, og þá einkum, ef sofið er í einu sérstöku rúmi. Þetta fólk hefur séð gráklæddri stúlku bregða fyrir, en hún er sögð hafa orðið úti á milli bæjarhúsanna fyrrum. Fuglalíf er fjölskrúðugt í Hvítárnesi. Hvítárnes er viðkomustaður SBA-Norðurleiða á sumrin.

Mjög skemmtileg gönguleið er milli Hvítárness og Hveravalla

Fúlakvísl á tvenn meginupptök undan Langjökli austanverðum. Hin syðri eru í Jökulkrók norðan Fögruhlíðar en hin nyrðri um grunnan dal milli Þjófadalafjalla og jökuls. Sumir kalla þetta svæði Hundadali. Nyrðri kvíslin fellur í háum fossi niður í hina syðri vestan Rauðkolls. Austan Fögruhlíðar bætist ein kvísl við. Mikið vatn bætist við undan Hrútfelli. Fúlakvísl fellur í kvíslum á eyrum við Þjófadali og þaðan í þröngu gljúfri meðfram vestanverðu Kjalhrauni. Við Þverbrekknamúla er það svo þröngt, að tiltölulega auðvelt er að stökkva yfir það. Þar heitir Hlaup. Við Hrefnubúðir kvíslast hún aftur á eyrum um Hvítárnes til Hvítárvatns.

Hvítárnesskáli

  • HAH00323
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Sæluhúsið í Hvítárnesi er elsti skáli Ferðafélags Íslands. Húsið er reist 1930 og er byggingin friðuð.
Skálinn er á tveimur hæðum og þar geta 30 manns sofið. Á neðri hæðinni er anddyri, lítið og þröngt eldhús og tvö herbergi með kojum. Á efri hæðinni er svefnloft með dýnum á gólfinu og lítið herbergi með dýnum.
Í eldhúsinu er rennandi vatn, gashellur og eldhúsáhöld. Salernishús er spölkorn frá skálanum en engar sturtur. Tjaldað er á grasbala við salernishúsið.
GPS staðsetning: N 64°37.007 – W 19°45.394

Næsti skáli: Þverbrekknamúli og Hagavatn

Höskuldsstaðakirkja (1963) Vindhælishreppi

  • HAH00326
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 31.3.1963 -

Höskuldsstaðakirkja er í Skagastrandarprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Höskuldsstaðir eru bær og kirkjustaður á Skagaströnd. Þar var prestssetur til 1964, þegar það var flutt til Skagastrandar og kaþólskar kirkjur voru helgaðar Maríu guðsmóður og Pétri postula.

Kirkjan, sem nú stendur á Höskuldsstöðum, var vígð 31. mars 1963. Hún er úr steinsteypu og tekur 100 manns í sæti. Litað gler er í gluggum. Yfir sönglofti er herbergi. Trékross er efst á turninum. Skrúðhúsið er sunnan kórs. Kaleikur og patina eru frá 1804 og altaristaflan er eftir Þórarin B. Þorláksson. Klukkurnar tvær eru frá árunum 1733 og 1737.

Jökulsárbrú á Fjöllum

  • HAH00336
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1957 -

Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum í Öxarfirði var byggð 1956-1957. Jökulsá á Fjöllum markar sýslumörk milli Norður- og Suður- Þingeyjarsýslu að vestan og markaði hún áður hreppamörk Öxarfjarðarhrepps og Kelduneshrepps sem nú tilheyra Norðurþingi, sameinuðu sveitarfélagi sem varð til árið 2005.

Jaðar Höfðakaupsstað

  • HAH00451
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1941)

Jaðar var torfbær skammt utan við núverandi íbúðarhús Neðri Jaðar, byggt 1941 (munnleg heimild Páll Jóhannsson, 20.11.2009; fmr.is).
Lýsing Engar minjar fundust í næsta nágrenni Neðri Jaðars.
Aðrar upplýsingar Í bók Bjarna Guðmarssonar Byggðin undir Borginni segir: „Menn styttu sér stundirnar með bókalestri, en lestrarfélag var stofnað í Vindhælishreppi aldamótárið 1900. Var bókasafn fálagsins á Jaðri […]. (BB: 158).
Á ljósmynd í sömu bók má sjá bæði Gamla-Læk og Jaðar. Gamli-Lækur lágreist torfhús og Jaðar reisulegra timbur og torfhús (BB: 63).

Efri Jaðar var rifinn árið 1982 ásamt fleiri gömlum húsum og kofum (BB: 301).

Kálfshamarsviti

  • HAH00344
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1940 -

Árið 1913 var fyrst reistur viti á Kálfshamarsnesi. Það var áttstrent norsksmíðað ljóshús úr steypujárni sem nú er á Straumnesvita í Sléttuhlíð.

Núverandi Kálfshamarsviti var byggður árið 1940 en ekki tekinn í notkun fyrr en árið 1942 þar sem ekki tókst að afla ljóstækja í hann fyrr. Ljóstækin voru keypt frá Englandi og einnig ljóshúsið. Gasljós var í vitanum fram til ársins 1973 að hann var rafvæddur, magnað með 500 mm linsu.

Kálfshamarsviti er meðal vitaturnanna sem byggðir voru í fúnkisstíl eftir 1939 samkvæmt teikningum Axels Sveinssonar verkfræðings sem sótti fyrirmyndir til vita sem Guðjón Samúelsson húsameistari hannaði og til stóð að reisa í Þormóðsskeri á Faxaflóa en aldrei var byggður. Vitinn er 16,3 m að hæð, ferhyrndur steinsteyptur turn sem lagður er innfelldum lóðréttum böndum. Greinileg litaskipti vitans voru kölluð fram með svartri hrafntinnuhúð á böndin sem kölluðust á við ljósa kvarshúðaða veggfleti. Nú hefur vitinn verið kústaður með svörtu þéttiefni á dökku flötunum en hvítri sementsblöndu á þá ljósu.

Kolugljúfur í Víðidal

  • HAH00624
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (874)

Þegar ekið er fram Víðidal kemur maður að Kolugili sem stendur við Víðidalsá. Rétt neðan við bæinn rennur áin friðsæl niður í stórbrotið gljúfur sem heitir Kolugljúfur og þar eru fossar sem kenndir eru við tröllkonuna Kolu og heita Kolufossar.

Kolugljúfur er gljúfur Víðidalsár í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu, 1-2 km að lengd og nokkrir tugir metra á dýpt. Þar sem áin fellur niður í gljúfrið eru fossar sem heita Kolufossar.

Gljúfrin eru víðast hvar ógeng en þykja falleg og stórbrotin. Þau eru sögð kennd við tröllskessuna Kolu, sem sagt er að hafi grafið þau og átt þar síðan bústað. Bærinn Kolugil stendur við ána, rétt ofan við þar sem hún rennur ofan í gljúfrin, og ýmis örnefni tengd Kolu tröllkonu eru þar og í gljúfrunum.

Það er afar áhrifamikið að aka út á brúna yfir gljúfrið og sjá hina friðsælu á steypast fram í svo mikilfenglegum fossum. Sýn sem lætur engan ósnortinn.

Kotagil í Norðurárdal Skagafirði

  • HAH00231
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Kotá hefur smám saman sorfið út mikið gljúfur sem sker í sundur þykkan hraunlagastaflann. Hraunlög og millilög eru áberandi. Gljúfrið er hrikalegt og djúpt og innst í því er hár foss.
Sérstaklega er áhugavert að sjá í neðstu hraunlögunum (og jafnframt þeim elstu) holrúm eftir mikla trjáboli úr fornaldarskógi. Veðurfar á Íslandi var töluvert hlýrra þegar þessi tré uxu fyrir um 5 milljónum ára.

Á grasi grónum höfða niðri við Norðurá alllangt vestan við gilið er steinn sem álitin er úr sama lagi og þar sem holrúmin eru eftir trjábolina. Í gegnum stein þennan eru tvær fremur grannar rásir sem gætu verið eftir trjágreinar. Steinninn er píramídalaga og er um einn metri á hæð. Hann hefur fengið nafnið Skeljungssteinn og kemur hann fyrir í þjóðsögu. Lesa þjóðsögu.

För eftir trjáboli, svonefndar trjáholur, eru allvíða þekktar í tertíera basaltstaflanum, en hafa ekki verið kortlagðar kerfisbundið. Þegar hraun rann frá eldstöð yfir skógi vaxið land féllu trén um koll en stundum stóðu þau keik eftir. Hraunkvikan umlukti trjábolinn sem brann oftast upp til agna og skildi eftir sig trjáholu. Seinna hafa sumar slíkar holur fyllst þegar eldumbrot endurtóku sig nærri holunni og bergkvika náði að þrengja sér inn í farið eftir trjábolinn.
Einna þekktastur fundarstaður trjáhola er í Norðurárdal, þar sem heitir Kotagil og er vinsæll viðkomustaður ferðamanna á leið um Norðurland. Þegar staðið er á gömlu brúnni yfir gilið, má sjá ef vel er að gáð, nokkrar holur neðst í hraunlögum tertíera basaltstaflans.

Laugarnes Reykjavík

  • HAH00398
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Laugarnes er landsvæði í Reykjavík sem telst til Laugardalsins. Fyrstu heimildir um Laugarnes koma fyrir í Njálu. Þórarinn ragabróðir, sem átti og bjó í Laugarnesi, var bróðir Glúms, annars manns Hallgerðar langbrókar, en eftir víg Glúms skiptu þau á jörðum og varð Hallgerður þá eigandi að Laugarnesi. Þar bjó hún síðustu æviár sín og segir Njála að hún sé grafin þar.

Litla-Fell á Skagaströnd

  • HAH00325
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Litla-Fell er byggt að 1/3 úr landi Spákonufells. Býlið er syðstí landi þess, norðan Hrafnár. Framundir 1975 var þar gamalt timburhús. Nýja íbúðarhúsið er 178 m3, gripahús úr timbri. Tún 3 ha.

Möðruvellir í Eyjafirði

  • HAH00383
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Möðruvellir í Eyjafirði er kirkjustaður og fornt höfuðból í Eyjafjarðarsveit og er jörðin framarlega í Eyjafirði austanverðum, rúma 25 km frá Akureyri. Þar hafa oft búið höfðingjar og ríkismenn. Möðruvöllum er oft ruglað saman við Möðruvelli í Hörgárdal.
Fyrsti bóndinn á Möðruvöllum sem sögur fara af var Eyjólfur Valgerðarson, goðorðsmaður og skáld, sem kemur við nokkrar Íslendingasögur. Synir hans voru þeir Einar Þveræingur og Guðmundur Eyjólfsson ríki, sem bjó á Möðruvöllum og barst mikið á, enda var hann einn helsti höfðingi Norðlendinga á söguöld.
Seinna átti Loftur ríki Guttormsson bú á Möðruvöllum og dvaldi þar löngum. Þorvarður sonur hans bjó á Möðruvöllum og síðar Margrét Vigfúsdóttir ekkja hans.
Möðruvellir eru kirkjustaður frá fornu fari og ekki ólíklegt að Guðmundur ríki hafi látið byggja fyrstu kirkjuna þar. Kirkjan er enn í bændaeign. Núverandi kirkja var byggð 1847-1848 og er timburkirkja í hefðbundnum stíl. Hún er turnlaus en klukknaport við kirkjuna er frá 1781 og er eitt elsta mannvirki úr timbri sem enn stendur á Íslandi. Helsti kjörgripur kirkjunnar er altarisbrík úr alabastri, sem Margrét Vigfúsdóttir gaf til hennar seint á 15. öld.

Síða á Refasveit

  • HAH00217
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Íbúðar og peningahús standa ofarlega í allbröttu túni, en nokkru neðar og sunnar er nýja íbúðarhúsið. Í landi síðu er klettaborg er Refsborg heiti og ber sveitin nafn þess. [Refsborgarsveit]. Á Síðu hafði sama ætt búið frá 1896. Íbúðarhús byggt 1916 291 m3 og nýtt hús byggt 1973-1975 709 m3. Fjós fyrir 5 gripi, fjárhús fyrir 460 fjár, hesthús fyrir 9 hross. Hlöður 940 m3. Tún 18,9 ha.

Spákonufellsey

  • HAH00194
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

"Þarna var forðum daga bryggja, þarna var verslunarhús sem stóðum um aldir og þarna má greina Spákonufellsey sem var sprengd niður til hálfs í hafnargerð".

Höfnin á Skagaströnd við Höfðakaupstað er svo auðgerð, sem verða má, grjót hið ágætasta í Spákonufellsey og höfða svo nærtækt og auðunnið að hvergi á landinu mun verða jafnað við. Eins verð ég þó að geta, er ég hefi ekki heyrt nefnt í ræðum né riti um hafnargerð á Skagaströnd. — Það verður að hlaða garð norðan við Hraundalsárós og út í Árbakkastein því til varnar að áin beri sand og leir norður í höfnina frekar en orðið er. Er það örstutt og hrægrunnt, og hlyti sá garður ekki við auka, er nokkru næmi um kostnað við gerð hafnarinnar.

Kálfshamar Kálfshamarsvík

  • HAH00423
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1930)

Bærinn stóð á hól fyrir miðju gamla túninu og var fjós sambyggt honum (Túnakort frá 1921). Lýsing Bæjarhóllinn er stór ávalur náttúruhóll um 22x30m að utanmáli. Einu sjáanlegu leifar bæjarins eru fjórar dældir á hólnum 20-70sm djúpar. Aðrar upplýsingar Á túnakortinu frá 1921 eru útmörk túnsins sýnd og hús merkt inn, þar stendur við bæjarsamstæðuna, „bær og fjós“ í úttekt á jörðum Þingeyrarklausturs frá árinu 1829 er hins vegar sagt að fjárhús séu sambyggð bænum. Þá samanstendur bærinn nánar til tekið af: baðstofu, eldhúsi, búrhústóft, „fjárhústóft innanbæjar“, göngum, útidyrum og áfastur við bæjardyrnar var kofi (Úttekt nr. 101). Árið 1832 er fjárhústóftin horfin og komið nýtt búrhús: þá eru baðstofa, skáli, búrhús, eldhús og anddyri. Þar segir jafnframt að undir öllum bænum sé hlaðin stétt (Úttekt nr. 108).

Lýsing Bæjarhóllinn er stór ávalur náttúruhóll um 22x30m að utanmáli. Einu sjáanlegu leifar bæjarins eru fjórar dældir á hólnum 20-70sm djúpar. Aðrar upplýsingar Á túnakortinu frá 1921 eru útmörk túnsins sýnd og hús merkt inn, þar stendur við bæjarsamstæðuna, „bær og fjós“ í úttekt á jörðum Þingeyrarklausturs frá árinu 1829 er hins vegar sagt að fjárhús séu sambyggð bænum. Þá samanstendur bærinn nánar til tekið af: baðstofu, eldhúsi, búrhústóft, „fjárhústóft innanbæjar“, göngum, útidyrum og áfastur við bæjardyrnar var kofi (Úttekt nr. 101). Árið 1832 er fjárhústóftin horfin og komið nýtt búrhús: þá eru baðstofa, skáli, búrhús, eldhús og anddyri. Þar segir jafnframt að undir öllum bænum sé hlaðin stétt (Úttekt nr. 108).

Þar eru nú engin bæjarhús. Bærinn stóð áður norðaustan við samnefndan hamar við sunnanverða Kálfshamarsvík. Á Kálfshamri er sæmilega gott til ræktunar og fjárbeit góð til lands og sjávar. Útræði ágætt. Hlaða byggð 1976, grunnur steyptur, á honum stálgrindarhús 1770 m3. Tún 12,1 ha.

Syðstahvammskirkja

  • HAH00583
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1882

Túnið fordjarfar aurskriða úr Kirkjuhvammsá, og svo engi það, sem liggur næst fyrir neðan túnið. (Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Vatnsnesshreppur 1705).

Kirkjuhvammur er fyrir ofan þorpið á Hvammstanga. Kirkjan er gömul timburkirkja byggð 1882. Stefán Jónsson smiður mun hafa smíðað kirkjuna en hann smíðaði einnig baðstofuna í Syðstahvammi. Lönd Kirkjuhvamms og Syðstahvamms liggja saman og skilur Hvammsáin þar á milli. Kirkjan er friðlýst og í umsjón Þjóðminjavarðar. Sumir gripir kirkjunnar hafa verið fluttir í kirkjun á Hvammstanga. Þó ekki sé reglulegt messuhald í kirkjunni eru oft athafnir þar sérstaklega giftingar og skírnir einnig er kirkjan oft notuð í tengslum við ýmsar hátíðir eða uppákomur á svæðinu á sumrin. Venja er að vera með guðþjónustu í Kirkjuhvammi á miðnætti á aðfangadagskvöld.

Kirkjuhvammskirkja á Hvammstangavar byggð árið 1882. Höfundar hennar voru Björn Jóhannsson og Stefán Jónsson, forsmiðir. Hún hefur verið í vörzlu Þjóðminjasafnsins síðan 1976 og var sett áfornleifaskrá 20. ágúst 1976. Árið 1990 var hún friðuð.

Kirkju er fyrst getið í máldaga árið 1318 og sennilega hefur alltaf verið um torfkirkjur þar að ræða, sem staðið hafa í kirkjugarðinum á svipuðum stað og sú sem þar stendur nú.

Kirkjuhvammskirkja er úr timbri með bindingsverki og veglegum turni, smíðuð af Birni Jóhannssyni og Stefáni Jónssyni frá Syðstahvammi sumarið 1882, en sagt er að ekkert sumar hafi komið þá á Norðurlandi og snjóað í hverri sumarviku. Kirkjan er af yngri gerð kirkna með turna á þaki. Kirkjuhvammskirkja var sóknarkirkja til ársins 1957, en það ár var ný kirkja vígð á Hvammstanga. Hrörnaði gömlu kirkjunni fljótt og stefndi í að hún yrði rifin. Velunnarar hennar lagfærðu hana lítilsháttar árið 1964 og kirkjan kom í umsjá Þjóðminjasafnsins árið 1976. Hófst umfangsmikil viðgerð á henni árið 1992. Hún var endurvígð sumarið 1997 að þeirri viðgerð lokinni.

Sænautavatn

  • HAH00334
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Sænautavatn er með stærri vötnum á Jökuldalsheiði og er gott veiðivatn. Flatarmál þess er 2,3 km², mesta dýpt 23 m og það er í 525 m hæð yfir sjó. Vatnið liggur frá norðri til suðurs og bærinn Rangalón, sem fór í eyði 1924 er við norðurenda þess.

Bærinn Sænautasel, sem fór í eyði 1943, er við suðurenda vatnsins. Hann hefur verið endurbyggður sem safn. Frárennsli þess er Lónskvísl, sem fellur til Hofsár í Vopnafirði. Hringvegurinn nr. 1 lá við norðurenda þess og vel er akfært suður fyrir það. Allvænn fiskur er í vatninu, 2-7 punda bleikja, sem þykir sérlega bragðgóð. Netaveiði hefur ekki verið stunduð í vatninu um árabil.
Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Haldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu „Sjálfstætt fólk”. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratugi 20. aldar. Hann gekk þangað úr byggð.

Veiði er heimil allan sólarhringinn. veitt er frá 1. maí til 20. september.
Allt löglegt agn: Fluga, maðkur og spónn.

Torfustaðir í Svartárdal.

  • HAH00176
  • Fyrirtæki/stofnun
  • [1300]

Bærinn Torfustaðir er vestan Svartár og stendur á brún allknapprar brekku við enda Torfustaðavegar gegn Ytra-Bergsstaðaklifi. Í útvestri rís Járnhryggur sunnan Brúnaskarðs. Jörðin er landlítil en sæmilega gróin. Gott tún er á framræstu mýrlendi allt til merkja að sunnan, en ræktun er erfiðari vegna grjóts og brattlendis í úthluta landsins. Íbúðarhús byggt 1956, 287 m3. Fjós fyrir 6 gripi. Fjárhús með áburðarkjallara fyrir 360 fjár. Hlaða 900 m3. Tún 15 ha. Veiðiréttur í Svartá.

Úlfljótsvatn-bær og kirkja

  • HAH00572
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1914 -

Úlfljótsvatnskirkja er í Mosfellsprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Hún var byggð á fornu kirkjustæði á höfða rétt við vatnið í útgröfnum kirkjugarði árið 1914. Þetta er vegleg timburkirkja með stórum turni, sem bætt var við hana 1961.

Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður og henni var þjónað frá Þingvöllum þá og síðar. Hún er nú annexía frá Mosfelli í Grímsnesi.

Gissur Bjarnason (1660-1727) þjónaði staðnum um tíma frá Þingvöllum eftir að hafa verið vikið úr embætti í Meðallandsþingum 1701. Síðar varð hann prestur í Breiðuvíkurþingum og átti þar í ýmsum vanda. Hann drukknaði í síki í Kaupmannahöfn.

Á árunum 1929-1933 keypti Rafmagnsveita Reykjavíkur (nú Orkuveita Reykjavíkur) jörðina Úlfljótsvatn og vatnsréttindi að vestanverðu í Efra Sogi, Ljósafossi og Írafossi. Jörðin er talin vera um 1397 ha. Af þeim fimm jörðum sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur í Grafningi liggur Úlfljótsvatn lægst.

Vaglaskógur

  • HAH00224
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Vaglaskógur er skógur í Fnjóskadal, Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er 300 hektarar að stærð og er annar stærsti skógur Íslands. Norðan við hann er Hálskógur sem eyddist mikið á fornöld af beit og skógarhöggi. Skógurinn komst í eigu Skógræktar Ríkisins árið 1908 og var í eigu Danmerkur þar á undan sem bæði lögðu kapp á gróðursetningu skógarins. Í dag er skógurinn frístundasvæði og í einkaeigu.

Vaglaskógur er í margra huga einn stærsti og fegursti skógur landsins. Hann er vinsæll til útivistar og um hann liggja merktar gönguleiðir. Á Vöglum er starfstöð Skógræktarinnar og aðsetur skógarvarðarins á Norðurlandi. Starfsemin felst í umhirðu skóglenda Skógræktarinnar á Norðurlandi, grisjun, úrvinnslu og sölu afurða. Á Vöglum er unnið að trjákynbótum, ræktuð fræ nytjatrjátegunda og þar er fræmiðstöð Skógræktarinnar með frægeymslum og fræsölu.
Um miðbik Fnjóskadals, austan Fnjóskár, er Vaglaskógur. Stutt er til Akureyrar frá Vöglum, eða um 34 km ef farið er um Víkurskarð en aðeins um 16 km um Vaðlaheiðargöng.

Vaglaskógur er meðal fjölsóttustu skóga á Íslandi. Skógurinn er skipulagður til útivistar með merktum göngustígum. Vinsæl tjaldsvæði eru í skóginum og fjöldi sumarhúsa í nágrenninu. Í skóginum er skemmtilegt trjásafn með fjölda tegunda.
Margir leggja leið sína í Vaglaskóg til sveppa- eða berjatínslu og jurtaskoðunar. Sveppir gegna veigamiklu hlutverki við ræktun skóga. Þeir útvega trjánum næringu en hafa líka hlutverk í náttúrlegum hringrásum við niðurbrot á dauðu efni. Kúalubbi myndar til dæmis svepprót með birki og fjalldrapa, hjálpar plöntunum að afla sér vatns og steinefna og þiggur í staðinn næringu frá trjánum. Í Vaglaskógi er að finna ýmsa bragðgóða matsveppi, svo sem áðurnefndan kúalubba en líka kóngsvepp, lerkisvepp, furusvepp og fleiri tegundir. Hrútaber dafna vel á sólríkum og skjólgóðum stöðum eins og í gras- og blómabrekkum, í gisnu kjarri eða birkiskógi. Hrútaber er því víða að finna í Vaglaskógi þegar líður á sumarið og sækjast margir gestir skógarins eftir þeim. Úr hrútaberjum má gera saft og sultur eða hlaup.

Þegar Skógræktin tók formlega til starfa 1. janúar 1908 fékk hún í vöggugjöf Hallormsstaðaskóg, Vaglaskóg og umsjón með ræktuðu smáreitunum á Þingvöllum og að Grund í Eyjafirði. Vaglaskógur hafði náð athygli dönsku frumkvöðlanna sem störfuðu hérlendis kringum aldamótin. Þegar höfðu verið settar upp litlar girðingar á Vöglum til undirbúnings gróðrarstöðvar svipað og gert var í Mörkinni á Hallormsstað. Þegar var hafist handa við að friða skóginn í heild.

Bogabrúin yfir Fnjóská er fyrsta steinbrú sinnar tegundar hér á landi. Brúin var hönnuð og byggð árið 1908 af danska fyrirtækinu Christiani & Nielsen og var þá lengsti steinbogi á Norðurlöndum, 54,8 metrar. Hún var upphaflega aðeins ætluð fyrir ríðandi menn og hestvagna en var notuð fyrir almenna umferð til ársins 1968. Eftir það var hún aðeins ætluð léttri umferð en var á endanum lokað fyrir bílaumferð árið 1993 þegar hún var færð í sitt upprunalega horf. Það gerði Vegagerðin vegna sérstöðu mannvirkisins svo það gæti staðið sem minnisvarði gamallar verkmenningar og samgöngusögu.

Vesturhópshólakirkja

  • HAH00585
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1879 -

Vesturhópshólakirkja er kirkja að Vesturhópshólum í Vesturhópi. Bærinn er ysti bær í sveitinni og dregur nafn sitt af urðartungu sem hefur hreyfst úr fjallinu fyrir ofan.

Kirkjan á Vesturhólshólum var byggð árið 1879 en hún var bændakirkja allt fram til 1959. Henni tilheyrir predikunarstóll sem talinn er vera frá 17. öld. og talinn smíðaður af Guðmundi Guðmundssyni „bíld“ frá Bjarnastaðahlíð. Altaristaflan í kirkjunni sýnir Krist á krossinum og er hún talin vera gömul. Á henni kemur fram nafnið Bertel Øland og ártalið 1761. Hvort tveggja, predikunarstóll og altaristafla, er talið vera komið úr kirkjunni á Höskuldsstöðum í Vindhælishrepp.
Vesturhópshólakirkja er timburhús, 7,69 m að lengd og 4,73 m á breidd, með klukknaport við vesturstafn, 1,40 m að lengd og 1,73 m á breidd. Þakið er krossreist og trékross upp af framstafni. Kirkjan er klædd steinajárni, þak bárujárni og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Lítill póstgluggi er efst á framstafni með tveggja rúðu römmum. Á klukknaporti er krossreist bárujárnsklætt þak en efsti hluti stafns og hliða er klæddur steinajárni. Stoðir eru undir framhornum en hálfstoðir við framstafn kirkju. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Þórdísarlundur

  • HAH00380
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1952 -

Sunnan undir Vatnsdalshólum, vestan vegar, er Þórdísarlundur, skógarreitur sem Húnvetningafélagið í Reykjavík hefur ræktað og girt. Í Þórdísarlundi er minnisvarði um fyrsta innfædda Húnvetninginn, Þórdísi, dóttur Ingimundar gamla að Hofi. Enn þekkjast örnefni sem við hana eru kennd, Þórdísarholt þar sem hún fæddist að sögn Vatnsdæla sögu og Þórdísarlækur. Kristján Vigfússon í Vatnsdalshólum gaf Húnvetningafélaginu í Reykjavík 1952, 1 ha lands úr jörð sinni sunnan í Hólunum.
Vestan við Þórdísarlund er veiðiskálinn Flóðvangur sem Veiðifélag Vatnsdalsár hefur reist, jafnframt notaður til félagsstarfa, fundahalda ofl.

Þórdís fæddist í sunnanverðum Vatnsdalshólum, þar sem nú er Þórdísarlundur, rétt eftir að skip föður hennar komu að landi og er hún því talin fyrsti Húnvetningurinn. Sonur Þórdísar var Þorgrímur Kárnsárgoði og átti hann son einn, Þorkel kröflu, við ambáttinni Neireiði af ætt Orkneyjajarla. Þorgrímur lét bera sveininn út en Þorsteinn mágur hans á Hofi bjargaði barninu og kom því í fóstur. Þegar Þorkell krafla var tólf vetra var fundur sá er Vatnsdælir héldu til þess að velja sér goðorðsmann og þar vó Þorkell krafla nafna sinn, Þorkel silfra, og tryggði föðurnum sem hafði látið bera hann út, goðorðið. Fyrir það verk gekkst Þorgrímur Kornsárgoði við faðerninu.

Öldumóðuflá Grímstungurheiði

  • HAH00278
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Jarðvegur á Auðkúluheiði mun vera meira blandaður eldfjallaösku heldur en jarðvegur á Grímstunguheiði, og þar er miklu meira af lyngi og hrísi. Allar flár, sem ég þekki á Auðkúluheiði og Grímstunguheiði, og fullvíst er að hafa þornað að meira eða minna leyti á síðari áratugum, eiga það sameiginlegt, að í gegnum þær eða fast við þær er djúpur vatnsfarvegur.

Rústirnar eyddust jafnskjótt og jarðklakinn þiðnaði, en hann mun hafa komið í veg fyrir, að vatnið í flánum gæti sigið í jörð og náð framrás í farvegina. Kjarni nýju rústanna er ís, en ekki jarðvegur, og gömlu rústirnar munu hafa verið byggðar upp á sama hátt. Mér finnst það því liggja ljóst fyrir, að þegar kjarninn þiðnaði hafi myndast dæld, en jaðrarnir ekki sigið að sama skapi, vegna þess að í þeim var meiri jarðvegur. Þetta gildir þó ekki um flár, sem liggja í keri eða eru forblautar af völdum uppsprettuvatns.

Flárnar eru mjög misdjúpar, sumar amk. 3 m, aðrar aðeins 1 m, og þær geta verið grynnri. Það virðist hvorki fara eftir dýpt flánna eða stærð, hvort þar myndast rústir eða ekki.
Ég hef t. d. séð nýja rúst í örmjóu og stuttu dragi við Refskeggsvatn á Grímstunguheiði. Dragið hefur fláareinkenni, en er svo lítið að flatarmáli, að ég get ekki kallað það flá.

Öldumóðuflá er stór og rústir voru um hana alla. Þær eru flestar horfnar, en gömlu leifarnar standa þétt á litlu svæði. Hins vegar eru þær dreifðar í Kolkuflóa og flánni við Sandá. í þessum þremur flám hef ég hvergi komið auga á nýja rúst, en gömlu rústirnar höfðu margar hverjar orðið virkar á ný.

Veturinn 1970—1971 var fremur frostlinur. Hann mun þó hafa nægt til að gera jörð samfrostna við þann gadd, sem eftir sat á hálendinu og um sumarið sá ég meira en nokkru sinni áður af nýjum, virkum rústum. Veturinn 1971-1972 var óvenju mildur og sl. sumar (1972) sá ég ekki nýjar sprungur í neinni rúst.

Öskjuvatn

  • HAH00251
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1875 -

Öskjuvatn er næstdýpsta stöðuvatn Íslands. Það varð til við Öskjugos árið 1875 þegar landið seig og myndaði mikla gosöskju sem fylltist af vatni á fyrstu árunum eftir gosið. Vatnið, sem er í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni, var dýpsta stöðuvatn Íslands á árunum frá 1875-2009, 11 km² að stærð og 220 m á dýpt, en nýlegar mælingar hafa sýnt að Jökulsárlón er nú dýpsta vatn Íslands, um 280 m á dýpt.

Öxnadalur

  • HAH00225
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Öxnadalur er djúpur dalur í vestanverðum Eyjafirði, inn af Hörgárdal. Hann er um 25 kílómetra langur frá mynni dalsins við Bægisá inn að Öxnadalsheiði. Um hann fellur Öxnadalsá. Hringvegurinn, þjóðvegur 1, liggur um Öxnadalsheiði og Öxnadal áleiðis til Akureyrar.
Öxnadalur merkir eiginlega nautgripadalur eða uxadalur. „Öxn“ er hvorugkynsorð í fleirtölu, þau öxnin, og er gamalt orð um nautpening, skylt uxi. Samkvæmt Landnámabók var Öxnadalur numinn af Þóri þursasprengi.
Áður fyrr var Öxnadalur sérstakt sveitarfélag, Öxnadalshreppur, en tilheyrir nú Hörgársveit.
Árið 1952 hóf skógræktarfélag Eyfirðinga skógrækt utan til í dalnum, í landi Miðhálsstaða, þar sem nú er vöxtulegur skógur.
Innsti hluti dalsins er allur í eyði, innstu bæir í byggð eru nú Engimýri og Háls. Á Engimýri er gistiheimili og á Hálsi er veitingahúsið Halastjarnan. Næsti bær utan við Háls er Hraun. Þar fæddist skáldið Jónas Hallgrímsson, en fluttist á öðru ári að Steinsstöðum og var þar til 9 ára aldurs. Æskuslóðirnar eru áberandi í skáldskap hans. Stórbrotið landslag er á Hrauni og þar í grennd, með Hraundranga ofan við bæinn og Hraunsvatni, þar sem faðir Jónasar drukknaði. Í vatninu er silungsveiði. Á Hrauni er nú safn til minnigar um Jónas. Efsti bær í Öxnadal var Bakkasel sem fór í eyði 1960 og var einn af þeim síðustu í innri hlutanum í byggð.

Guðlaugsstaðir í Blöndudal

  • HAH00079
  • Fyrirtæki/stofnun
  • [1200]

Guðlaugsstaðir er gömul ættarjörð. Björn Þorleifsson lögsagnari var eigandi hennar 1706 og hafði þá búið þar frá 1680. Síðan hafa niðjar hans búið þar samfellt, Guðmundur núverandi [1975] eigandi hennar er 7. liður frá Birni. Þetta er stór og mikil jörð. Einkum er beitilandið mikið og kjarngott. Ræktanlegt land er mikið en að mestu 250-280 metra yfir sjávarmáli. Þar hefur verið ræktað stórt tún en í köldum sumrum sprettur það ekki eins vel og túnin neðar í dalnum sem eru í 120-130 metra hæð. Íbúðarhús reisulegur burstabær byggður 1875, stækkaður 1926. Fjós fyrir 24 gripi ásamt mjólkurhúsi og áburðargeymslu byggt 1959. Fjárhús byggt 1965 yfir 350 fjár með grindur í gólfi, önnur hús yfir 260 fjár. Hlöður 1500 m3. Þurrkhjallur 36 m3. Tún 48,1 ha. Veiðiréttur í Blöndu og Gilsvatni.

Holtastaðareitur

  • HAH00696
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1900)

Holtastaðareitur er eyðibýli frá um 1920. Það liggur gengt Holtastöðum og er þannig nyrst í Svínavatnshreppi við Blöndu. Býlið hefur lengi verið eign Holtastaðabænda og notað þaðan, mest til Hrossabeitar síðan ábúð féll þar niður. Þarna er jarðsælt um vetur og landið að mestu graslendi og gott ræktunarland. Nú hefur eigandinn hafið þar mikla ræktun. Hús eru öll fallin. Veiðiréttur í Blöndu.

Ásbrekka í Vatnsdal

  • HAH00034
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1935 -

Nýbýli úr Áslandi byggt 1935 af Ásgrími Kristinssyni. Bærinn stendur á lautarbarmi upp af Móhellunni. Útihús standa litlu ofar á Grænhól. Jörðin er frekar lítil, en undirlendi gott til túnræktunar. Vatnsdalsá þverbeygir hér austur yfir dalinn, en hefur áður runnið með vesturbrekkum. Samkomuhús byggt 1935, sem ungmennafélagið á, stendur skammt neðan við bæinn. Hjáleigur tvær voru fyrrum frá Ási í landi jarðarinnar; Grænhóll er áður getur og Brekka við Brekkulæk suður með merkjum. Íbúðarhús byggt 1937 og 1950 198 m3 ein hæð. Fjós yfir 10 gripi. Fjárhús yfir 185 fjár Hesthús yfir 15 hross. Hlaða 1066 m3. Votheysgryfja 48 m3. Geymsluskúr. Tún 25,2 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá.

Sögufélagið Húnvetningur (1938)

  • HAH10060
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1938

Sögufélag Húnvetninga var stofnað árið 1938 og var Magnús Björnsson Syðra-Hóli einn af forgöngumönnum þess. Félagið hefur gefið út eða stuðlað að útgáfu ýmissa rita um húnvetnsk fræði. Árið 1990 ákvað stjórn Sögufélagsins að stuðla að aukinni þekkingu um ættir Austur-Húnvetninga og einnig að heiðra minningu Magnúsar með því að láta fullvinna það ættfræðirit sem Magnús hafði hafið. Sama ár var Guðmundur Sigurður Jóhannsson ættfræðingur ráðinn til verksins og hefur hann unnið að því meira og minna síðan. Hafði hann til þess aðstöðu á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki, en þar er til staðar eitt besta og aðgengilegasta safn ættfræðirita sem til er á landinu. Á þessum níu árum hefur Guðmundur aukið og bætt svo við handrit Magnúsar að nú er mikill meirihluti ritsins orðinn verk Guðmundar. Auk framlags Guðmundar hafa fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir lagt þessu verki lið; með söfnun upplýsinga og mynda, tölvuvinnu og fjárframlögum.
Árið 1997 samdi Sögufélagið Húnvetningur við bókaforlagið Mál og mynd um útgáfu þessa rits. Ættir Austur-Húnvetninga eru raktar svo langt aftur sem heimildir leyfa, jafnvel allt til 14. aldar. Í ritinu er mjög mikið af tilvitnunum í önnur rit svo að auðvelt er að afla sér margs konar fróðleiks um flesta þá einstaklinga sem getið er um.

Laxasetur Íslands (2011)

  • HAH10037
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 2011

Laxasetur Íslands var opnað í júní árið 2012 en sýningunni þar er skipt í þrjú meginþemu: líffræði, þjóðfræði og veiðar.
Hugmynd að stofnun setursins kom fyrst upp árið 2008 þegar Alva Kristín Kristínardóttir vann að viðskiptaáætlun og fékk til þess styrk frá Atvinnumálum kvenna og Vaxtasamningi Norðurlands Vestra. Verkefnið fór þó ekki í vinnslu fyrr en árið 2011 þegar hvatamennirnir Valgarður Hilmarsson og Jón Aðalsteinn Snæbjörnsson tóku upp þráðinn. Þeir fóru og fengu til liðs við sig menningarmiðlarana Kristínu Arnþórsdóttur og Þuríði Helgu Jónsdóttur sem unnu tillögur að sýningum fyrir setrið. Einnig leituðu þeir eftir stuðningi frá veiðifélögum, laxveiðiáa og stofnunum tengdum starfseminni og í framhaldi af því sóttu þeir um styrki.
Þann 23. júní 2011 var stofnfundur Laxasetursins haldin þar sem 21 aðili, einstaklingar og fyrirtæki, skráðu sig fyrir hlutum í félaginu. Einnig var kosin stjórn fyrir félagið. Árið 2015 tilkynnti félagið að hætt yrði rekstri sýningar á Blönduósi þar sem fjármögnun hefði ekki gengið sem skyldi.

Hofsá á Skaga

  • HAH00462
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1000-2019)

Hofsá er bergvatnsá og rennur úr Langavatni á Skagaheiði
Ný brú var byggð 1985.

Fyrirhugað var að virkja hana um 1942

Víðimýri í Skagafirði

  • HAH00418
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Víðimýri er bær í Skagafirði, fyrir sunnan og ofan Varmahlíð, og tilheyrði Seyluhreppi áður. Bærinn er gamalt höfuðból og var í lok 12. aldar og á 13. öld bústaður helstu höfðingja héraðsins af ætt Ásbirninga, frá Kolbeini Tumasyni til Kálfs sonar Brands Kolbeinssonar, sem vitað er að bjó þar 1262. Á 17. og 18. öld var jörðin löngum sýslumannssetur. Víðimýri hefur nú verið skipt niður í átta eða níu sjálfstæðar jarðir.

Snorri Sturluson lét eftir því sem segir í Sturlungu gera virki á Víðimýri um 1220 og mátti að sögn sjá menjar þess fram á 20. öld en þá var allt sléttað. Kirkja hefur sennilega verið á Víðimýri frá því um eða eftir kristnitöku og frægastur presta þar fyrr á öldum er Guðmundur Arason, síðar biskup. Núverandi kirkja var reist 1834.

Á fyrstu áratugum 20. aldar reyndu bæði sóknarbörn og kirkjuyfirvöld að fá bóndann á Víðimýri, Steingrím Arason, til að rífa kirkjuna og byggja nýja en hann vildi það ekki og árið 1934 keypti Þjóðminjasafnið kirkjuna. Síðan þá hefur hún verið endurbætt mikið og þykir gersemi og frábært sýnishorn af gamalli íslenskri byggingarhefð. Kirkjan er úr torfi og timbri og var það Jón Samsonarson alþingismaður sem sá um smíði hennar.

Þverá í Norðurárdal

  • HAH00619
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Þverá er efsti bærinn í Norðurárdal og eini bærinn þar sem er í byggð. Bærinn stendur á háum hól ofarlega í túninu. Þjóðvegur liggur í gegnum túnið. Hamarshlíð er til norðausturs og Hvammshlíðardalur til suðausturs og samnefnt fjall. Erfitt um ræktun, sumarhagar með ágætum, kjarnmiklir og grösugir. Ábúandi nytjar Neðstabæ og notar fjárhús á Skúfi og hefur jarðnot þar. Íbúðarhús byggt 1930, 200 m3. Fjárhús yfir 18 200 fjár. Hesthús yfir 18 hross. Geymsla 42 m3. Tún 13,4 ha.

Bókasafn Blönduósi

  • HAH00088
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1920)

Framan af var bókasafnið á heimili bókavarðar Ragnars Jónssonar. 1974 var reist bygging sem nefndist bókhlaðan og var Bókasafnið þar frá 1974 til aldamóta að það slutti yfir götuna þar sem það er nú ásamt Héraðsskjalasafni A-Hún.

Eylendi í Þingi

  • HAH00632
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1930)

Hnausaengjar þar hafði löngum verið mikil og góð grasspretta. 1922 var gerð þar áveita.
Engjarnar voru blautar fyrir, en grasið afar þétt og hátt, en eftir að áveitan kom þá var grasið miklu gisnara og lægra. Gamall maður sem var kunnugur Hnausaengjum, Jón Hjaltalín, sagði okkur að áveita passaði ekki fyrir þessar engjar, sökum mikils raka fyrir og flatlendis.

Seinna voru svo grafnir margir skurðir í engjarnar, til þess að þurrka þær upp, og hefði sennilega þeim kostnaði sem í þetta fór verið betur varið í túnrækt. Nú er svo komið að þessar fallegu engjar, sem heita Eylendi, og voru taldar með þeim bestu og stærstu á landinu, eru ekki slegnar lengur að heitið geti, en skurðirnir ógna skepnum sem á þeim ganga vor og haust.

Viðtal við Kristínu Pálmadóttur og Sveinbjörn Jakobsson á Hnausum

Örlygsstaðir á Skaga

  • HAH00436
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1950)

Örlygsstaðir I. Bærinn stendur 40 metra frá Brekknabrekku. Það er sam að segja um landkosti og annarra jarða undir Brekku, að heima um sig er gott til túnræktunar, en beitiland allgott, þegar til heiðar dregur. Lending er slæm, en áður var stutt á góð fiskimið.
Íbúðarhús byggt 1913, steinsteypt 353 m3. Fjós steypt 1914 yfir 5 gripi. Fjárhús með kjallar byggð 1940 úr torfi og grjóti fyrir 100 fjár. Hlaða byggð 1914 steinsteypt 100m3. Hlaða byggð 1942 ja´rnklædd 350 m3. Geymsla byggð 1960 járnklædd 114 m3. Tún 6,4 ha.

Örlygsstaðir II. Nýbýli Byggt úr Örlygsstaðalandi 1965. Bærinn stendur skammt frá Brekkunni, rétt norðan við Dalalæk, en sunnan lækjarins eru fjárhúsin. Þar hét áður Gamlistekkur.
Íbúðarhús byggt 1965 og 1966 steinsteypt 308 m3. Hlaða steypt 1968, 1569 m3. Blásarahús og súgþurrkun byggt 1968 úr steinsteypu 115 m3. Fjárhús með kjallara steypt 1971 fyrir 400 fjár. Geymsla byggð 1971 úr steinsteypu 304 m3.

Lækjarhlíð í Svartárdal

  • HAH00376
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1979-

Áður en girt var utanum safnið í Lækjarhlíð 1979 var féð passað af nokkrum mönnum. Sáu Lýtingar aðallega um það. Voru það fremur erilsöm og illa þökkuð skil. Allir þeir sem í göngum höfðu verið voru skyldugir að hjálpa til við yfirreksturinn. Var oftast farið að reka féð úr hlíðinni um klukkan sex að kvöldi. Á þeim tíma sem féð var flest tók yfirreksturinn langan tíma.

Sama haustið og slysið varð við Stafnsrétt 1976 var sett upp færanleg brú á hjólum. Síðan hún kom er yfirrekstur fjárins allur annar og auðveldari. Þegar safnið var komið í nátthagann var það á ábyrgð vökumanns þar til dráttur hófst að morgni.

Var svo lengi mælt fyrir í fjallskilaseðlum að dráttur skyldi hefjast er markljóst var orðið. Hinn fyrri Stafnsréttardagur er nú að kvöldi kominn. Við höfum séð safnið steypast ofanaf dalbrúninni við Fossa, séð alla fjárbreiðuna í Lækjarhlíðinni og fylgst með stóðdrætti. Allt stórkostlegt sjónarspil.

Þjófakvísl á Grímstunguheiði

  • HAH00608
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1000-2019)

Ein af mörgum upptakakvíslum Vatnsdalsár heitir Þjófakvísl. Vestan við hana, fast upp við Stórasand, er stór, þurr grasflesja. Þar er síðasti áningarstaður gangnamanna áður en þeir leggja á auðnir Stórasands. Aðrar kvíslar eru; Strangakvisl, upptök hennar eru suður undir Krókshrauni á Stórasandi. Í hana fellur fjöldi lækja og kvisla, svo sem Öldumóðukvísl, Þjófakvísl, Hestlækur, Miðkvísl og Fellakvísl, Kólkukvisl. Eftir það nefnist áin Vatnsdalsá. Á leið hennar til byggða falla í hana nokkrir lækir og koma þeir helztu úr Refkelsvatni, Galtarvatni, Þórarinsvatni og Svlnavatni á Grimstunguheiði.

Sumarið 1971 fór Björn Bergmann þangað og þá taldi sig sjá þar nokkurn veginn örugg merki um uppþornað votlendi og það jafnvel fyrir austan kvíslina, en þar er blettur, sem hefur blásið talsvert upp. Síðar sagði Lárus Björnsson í Grímstungu honum, að þarna hefði verið blautt á fyrsta áratug aldarinnar, en hann kvaðst ekki muna, hvenær flesjan hefði þornað.

Sundlaugin á Blönduósi

  • HAH00730
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1969-

Árið 1969 var byggð sundlaug úr trefjaplasti bak við það skólahús. Notaðir voru búningsklefar leikfimihússins. Sundlaugin er hituð með olíu, og þar hafa síðan verið haldin sundnámskeið á hverju vori og laugin verið opin nokkra mánuði á ári hverju.

Veiðihús við Móberg í Langadal

  • HAH00598
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 2004-

Á fundi í Veiðifélagi Blöndu og Svartár var tekin ákvörðun um að byggja veiðihús fyrir Blöndu. Níu eigendur lands við Blöndu gáfu kost á landi undir veiðihúsið en valdir voru þrír staðir sem ákveðið var að láta félagsmenn velja milli á almennum félagsfundi.

Langflest atkvæði fékk staður í landi Gunnsteinsstaða í Bólstaðarhlíðarhreppi. Í samræmi við það keypti veiðifélagið 1,65 ha lóð fyrir húsið af Pétri Péturssyni í Hólabæ, eiganda jarðarinnar.

Framkvæmdir hófust síðan með útboði á jarðvinnu og vegagerð að nýju húsi í september. Verkið hlaut Fjörður ehf. og átti að ljúka hluta þess fyrir 29. október 2005 sem stóðst. Þá var boðinn út næsti áfangi verksins sem var að steypa botnplötu og sökkla. Það verk fékk Stígandi hf. Blönduósi og var því lokið að svo miklu leyti að hægt var að bjóða út aðalbyggingu veiðihúss við Blöndu í desember. Útboð fyrir það verk var opnað 29. desember 2005. Lægsta tilboð átti Krákur ehf. Blönduósi og hlaut það fyrirtæki verkið. Húsið er timburhús byggt á steyptum grunni og stærð þess 701,8 fermetrar.

Vélsmiðjan Blönduósi

  • HAH00602
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1960 -

Vélsmiðja Húnvetninga er bifreiðaverkstæði, sem Kaupfélag Húnvetninga og Búnaðarsamband A.-Hún. byggðu og settu á stofn árið 1960. Það stendur upp með Langadalsvegi.

Þar er nú veitingastaður, bifreiðaverkstæði og blómabúð.

Ýmsir hafa komið þar að ss Gestur Þórarinsson, með pípulagningar og alhliða vélsmiðju, Óli Adnegaard með bílaverkstæði, bókhaldsstofa Gísla Grímssonar.

Baldurshagi / Indriðabær Blönduósi

  • HAH00083
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1910 -

Eign Magnúsar Stefánssonar 1916. Stóð einn sér og austast af bæjarþyrpingu þeirri, sem lá heim til og meðfram Miðsvæði.
Elínborgarbær mt 1920. Jónsbær 1910. Filippusarbær 1916. Baldurshagi 1930.

Stóð einn og sér og austast af bæjarþyrpingu þeirri, er var í mýrinni og fyrir enda götu þeirrar sem lá heim til og meðfram Miðsvæði, bæ Valdimars Jóhannssonar. Skátar eignuðust þarna skúr, en þá mun hreppurinn verið búinn að eignast bæinn. Byggður 1910 af Jóni Jónssyni er bjó þar með Teitnýju Jóhannesdóttur.

24.3.1911 veðsetti Jón, Magnúsi kaupmanni bæinn og hefur Magnús líklega eignast hann við fráfall Jóns.

Guðmundarhús borgara 1881-1887

  • HAH00653
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1881 - 1887

Á milli Skagfjörðshúss (Bjargs, en aðeins ofar og nær ánni en Friðfinnshús) og Pósthússins (Gistihúsið Glaðheimar).
Byggt haustið 1881.

Reynivellir Blönduósi

  • HAH00679
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1922 -

Húsið byggði Jóhann Jóhannsson 1922.

Mangahús Blönduósi

  • HAH00122
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1943 -

Magnús keypti 4.4.1940 af Guðmundi Kolka „skúr þann er hann á í svonefndum Hnjúkaklaufum“ Þetta var lítið sumarhús sem Guðmundur hafði byggt þarna uppfrá.
Magnús endurbyggði húsið á lóð Bala og bjó þar. 1950 er honum talin 110 m2 lóð en 9.1.1943 er hús hans virt 4.85 x 3,25 m.

Skagfjörðshús 1879

  • HAH00668
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1898 -

Skagfjörðhús (Sólveigarhús / Hús Hjartar Jónassonar). Var þar sem Blöndubyggð 8 er nú, en heldur ofar en Bjarg. Solveigarhús 1898. Hús Hjartar Jónassonar 1905.

Sólheimar Blönduósi

  • HAH00471
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1907 -

Sólheimar Blönduósi. Áður fyrsta verslunarhús Magnúsar kaupmanns (hús Jóns Stefánssonar, bróður Magnúsar 1910, einnig Kristjánshús 1910)

Sólvellir Blönduósi

  • HAH00130
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1928 -

Sólvellir Blönduósi. Gautsdalur 1928
Byggt 1928 af Karli Helgasyni, síðar póstmeistara. Karl fær 228 ferfaðma lóð hjá Halldóru Ingimundardóttir í Enni 10.5.1928.

Tunga Blönduósi

  • HAH00137
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1922 - 1987

Tunga Blönduósi. Byggð 1922 af Birni Björnssyni er bjó þar til 1943. Hannes Ólafsson til 15.6.1950. Ólafur Sigurjónsson, Valgarð Jörgensen og Bóthildur Halldórsdóttir. Útihús.
Rifið 1987

Vallholt Blönduósi

  • HAH00676
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1920)

Vallholt Blönduósi. (Vellir) sunnan við réttina á Miðholti.
Þar er í dag aðsetur tækja Júlíusar Líndal.

Vertshús Blönduósi

  • HAH00492
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1877 - 1918

Vertshús 1877 - brann 1918. (sama stað og Hannahús). Síðar Kaupfélagsútibú. [Vertshúsið stóð sunnan undir Verslunarhúsi Magnúsar þar sem seinna var pósthús].

Zophoníasar bílskúr, Aðalgata 3b

  • HAH00631
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1939 -

Zophoníasarbílskúr 1939. Breytt í íbúð 1948, Aðalgata 3b.

Zophonías Zophoníasarson byggði bílskúr 1939.

Hann er brunametin 20.1.1940. Skúr þessum var breytt í íbúð 1948, risið hækkað og veggir um 20-30 cm.

Þar bjó fyrstur Zophonías yngri. Síðar bjuggu þar Guðjón Ragnarsson og Kolbrún Zohníasardóttir, Hörður Ríkharðsson og Sigríður Aadnegard, Guðmundur Halldórsson og Ragnheiður Ólafsdóttir.

Vátryggingarfélag Íslands Blönduósi (1989-2013)

  • HAH10041
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1989-2015

Vá­trygg­inga­fé­lag Íslands hf, VÍS, var stofnað form­lega 5. fe­brú­ar árið 1989 við sam­ein­ingu Sam­vinnu­trygg­inga og Bruna­bóta­fé­lags Íslands sem rek­ur sögu sína allt aft­ur til árs­ins 1917. Bruna­bóta­fé­lag Íslands (síðar Eign­ar­halds­fé­lagið Bruna­bóta­fé­lag Íslands) var stofnað til að ann­ast bruna­trygg­ing­ar sam­kvæmt lög­um um bruna­trygg­ing­ar á Íslandi. Sam­vinnu­trygg­ing­ar gt. (gagn­kvæmt trygg­inga­fé­lag) voru stofnaðar 1946 fyr­ir for­göngu Sam­bands ís­lenskra sam­vinnu­fé­laga. Við stofn­un VÍS var meg­in­hluti vá­trygg­inga­stofna Bruna­bóta­fé­lags­ins og Sam­vinnu­trygg­inga færður til nýja fé­lags­ins sem tók yfir mest all­an rekst­ur stofn­fé­laga sinna árið 1989 og hóf rekst­ur al­hliða vá­trygg­inga­starf­semi. Viðskipta­vin­ir VÍS voru frá upp­hafi ein­stak­ling­ar, fyr­ir­tæki og stofn­an­ir. Útibúið á Blönduósi var stofnað 1989 og var Skarphéðinn Ragnarsson fyrsti og eini svæðisstjóri þess en útibúið var lagt niður í lok júní 2013.

Veiðifélag Langavatns- og Fjallabaksár á Skaga (1994-)

  • HAH10045
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1994-

Veiðifélagið var stofnað 9.maí 1994 og formaður þess er Sveinn Sveinsson frá Tjörn. Langavatn á Skaga liggur rétt rúmlega 13 km. norðan Skagastrandar. Það er 3,5 km2 og í rétt rúmlega 200 m h.y.s. Til að komast að vatninu er ekið sem leið liggur eftir þjóðvegi 745 frá Skagaströnd að gatnamótum við Steinnýjarstaði. Þaðan liggur um 6 km. slóði inn að vatninu vestanverðu. Umsjónarmaður vatnsins og veiðivörður er Árný Hjaltadóttir, húsfreyja að Steinnýjarstöðum, sími 452-2745 / 860-2745 sem jafnframt annast sölu veiðileyfa. Um vatnið er veiðifélag, Veiðifélag Langavatns og Fjallabaksár á Skaga, en það er í eigu þeirra býla sem land eiga að vatninu.

Bakki í Vatnsdal

  • HAH00037
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (950)

Gamalt býli, en var í eyði frá 1908-1953 að núverandi eigendur reistu þar nýbýli. Meðan jörðin var í eyði lá hún undir Eyjólfsstaði og var nytjuð þaðan. Nú hafa risið þar miklar byggingar yfir fólk og fénað og ræktun mikil. Bærinn stendur á sléttlendi skammt frá fjallsrótum, en var áður á hólbarði niður við Vatnsdalá, þar sem nú eru fjárhúsin. Ræktunarland er gott og talsvert þurrt sléttlendi með og í nánd bið Vatnsdalsá. Íbúðarhús byggt 1954, 437 m3. Fjós fyrir 28 gripi. Fjárhús yfir 260 fjár. Hlöður 994 m3. Véla og verkfæraeymsla 310 m3. Tún 33,2 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá.

Hvammkot á Skaga

  • HAH00317
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (1900) - 1949

Hvammkot fór í eyði 1949.

Hvítárbrú í Borgarfirði

  • HAH00321
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1.11.1928 -

Við Ferjukot er Hvítárbrú, sem vígð var 1.11.1928 og var mikil samgöngubót. Þó lokaðist þjóðvegurinn oft við Ferjukot vegna vatnavaxta en Hvítá flæddi oft yfir veginn þar og var þá ófært í Ferjukot nema á báti.

Kleifar Blönduósi

  • HAH00112
  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1952 -

Kleifar standa á vesturbakka Blöndu gengt Hrútey. Kristinn Magnússon byggði þar upp 1952, en áður var þar Klifakot. Íbúðarhús 1952 492 m3, fjós fyrir 12 gripi, fjárhús fyrir 220 fjár. Tún 15,5 ha.

Grímstunga í Vatnsdal

  • HAH00044
  • Fyrirtæki/stofnun
  • (950)

Forn kirkjujörð og prestssetur til 1847. Bærinn stendur á sléttu hólbarði rétt sunnan Álku spöl neðan brekkna. Takmarkast jörðin af Vatnsdalsá að austan, en Álku að vestan. Beitarhús [Kvisthagi] móti Forsæludal. Þar hét Litlidalur áður. Fyrrum átt jörðin alla Grímstunguheiði suður á há Stórasand. Fjölfarinn reiðvegur lá yfir yfir heiðarnar niður hjá Grímstugu. Heimagrafreitur er efst í túni. Í túnjaðri var Grímstungukot, en sel við Selkvísl, er skilur heimaland og heiði. Skútabær við Álku á Skúteyrum. Grímstungusel var í Fremridal. Íbúðarhús byggt 1921, 754 m3. Fjós fyrir 11 gripi. Fjárhús yfir 255 fjár. Hlaða 450 m3. Votheysgryfjur 120 m3. Haughús 160 m3. Tún 29,3 ha. Veiðiréttur í Vatnsdalsá og Álku.

Vopnafjarðarkirkja 1902

  • Fyrirtæki/stofnun
  • 1902 -

Vopnafjarðarkirkja er úr timbri sem tekur um 250 manns í sæti. Í kirkjunni er altaristafla eftir Jóhannes Kjarval sem sýnir frelsarann tala til fólksins. Kirkjan er þjónuð frá Hofi.

Ófeigsstaðir í Kinn

  • Fyrirtæki/stofnun

Nafnið Ófeigsstaðir gæti verið afbökun af hinu forna nafni "Offrustadir" sem þýðir Fórnarstaður [hugdetta mín], en það nafn kemur fyrir í fornunum handritum.

Leifur heppni Eiríksson (um965) landafundamaður

  • Fyrirtæki/stofnun
  • (960)

LEIFUR heppni stendur traustum fótum á Skólavörðuholtinu. Stöpullinn undir styttunni, sem er úr graníti, er settur saman af 18 steinbjörgum, og er heildarþyngd stöpulsins hátt í fimmtíu tonn. Sjálf myndin af Leifi vegur hins vegar um eitt tonn.

Styttan og stöpullinn mynda saman eina órofa heild. Stöpullinn er hugsaður sem skipsstafn og þykir hann ekki síður merkilegur frá listrænu sjónarmiði en styttan sjálf.

Gjöf Bandaríkjamanna

Bandaríkjamenn gáfu Íslendingum styttuna í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930. Árið 1929 var haldin samkeppni í Bandaríkjunum um gerð styttu af Leifi heppna til að gefa Íslendingum. Samkeppnina vann bandaríski listamaðurinn Alexander Stirling Calder og hann mun hafa gert bæði styttuna og stöpulinn.

Árið 1931 kom stöpullinn til landsins. Eins og fyrr segir er stöpullinn settur saman úr 18 einingum og vegur hver um sig nokkur tonn.

Bandaríkjamenn höfðu af því nokkrar áhyggjur að í Reykjavík fyndist ekki nógu sterkt farartæki til að flytja verkið frá höfninni uppá Skólavörðuholt. Á þessum tíma fannst þó einn vörubíll í bænum sem talinn var nógu sterkbyggður í verkefnið. Hann dugði þó ekki til. Því var brugðið á það ráð að fá Tryggva Magnússon, glímukappa, til að hjálpa bílnum síðasta spölinn, a.m.k. þegar þyngstu björgin voru flutt.

Það var svo 17. júlí 1932 sem Coleman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi afhenti þáverandi forsætisráðherra, Ásgeiri Ásgeirssyni, styttuna að gjöf. Og síðan þá hefur Leifur staðið óhreyfður á Skólavörðuholtinu.

Engin teikning til

Engin teikning hefur fundist af stöplinum og það er því ýmsum vandkvæðum bundið að taka styttuna niður og ekki síður að koma henni fyrir á ný. En þótt ekki hafi verið lagt í að hreyfa styttuna hefur verið töluverður ágangur við hana. Bandaríkjamönnum mun hafa blöskrað svo mjög umgengnin við styttuna fyrstu árin að brugðið var á það ráð að setja vörð um styttuna. Var sá styttuvörðurinn starfandi fram undir stríð. Mun Leifur heppni vera eina styttan í borginni sem sérstakur vörður var staðinn um.

Annar Leifur á Rhode Island

Þegar heimsýningin var haldin í New York 1939 óskuðu Íslendingar eftir að fá að gera eftirmynd af Leifi heppna til að hafa á sýningunni. Fékk íslenska nefndin leyfi til að nota gifsmótin af upphaflegu styttunni, sem þá voru geymd á Smithsonian Institution í New York, til að gera nákvæma eftirmynd.

Eftir sýninguna þurfti hins vegar að finna nýju styttunni framtíðarstað. Voru hugmyndir á lofti um að koma henni fyrir í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Henni mun þó hafa verið fundinn staður í hafnarborginni Rohde Island. Þar stendur styttan nálægt sjó og horfir Leifur til hafs.

Djúpidalur í Skagafirði

  • Fyrirtæki/stofnun

Djúpidalur er bær í Blönduhlíð í Skagafirði og stendur í mynni Dalsdals, sem gengur inn til austurs sunnan við fjallið Glóðafeyki. Dalurinn greinist um Tungufjall (eitt af þremur með því nafni í Blönduhlíðarfjöllum) og ganga álmurnar langt inn í fjallgarðinn. Um dalinn fellur Djúpadalsá eða Dalsá og er í djúpu og allhrikalegu gili í dalsmynninu. Hún hefur myndað víðáttumiklar eyrar á láglendinu sem eru nú að gróa upp. Þar á eyrunum var Haugsnesbardagi háður 1246. Kirkja eða bænhús var í Djúpadal fyrr á öldum en lagðist af snemma á 18. öld.

Mera-Eiríkur Bjarnason, sem var bóndi í Djúpadal frá 1733, var frægur fyrir hrossaeign sína og átti í útistöðum við Skúla Magnússon sýslumann á Stóru-Ökrum, sem reyndi að sanna á hann tíundarsvik en tókst ekki. Frá Mera-Eiríki er Djúpadalsætt og búa afkomendur hans enn í Djúpadal.

Glóðarfeykir

  • Fyrirtæki/stofnun

Glóðafeykir er fjall í austanverðum Skagafirði, í miðjum Blönduhlíðarfjöllum beint á móti Varmahlíð, svipmikið, burstmyndað og klettótt ofan til en þó fremur auðgengt. Glóðafeykir, sem oft er kallaður Feykir eða Feykirinn er 910 m hár.

Djúpir dalir ganga inn í Tröllaskagafjallgarðinn beggja vegna Glóðafeykis, Flugumýrardalur að norðan en Dalsdalur að sunnan. Tveir bæir standa uppi undir fjallsrótum, Flugumýri að norðan og Djúpidalur í mynni Dalsdals. Sagt er að Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns Arasonar biskups, hafi sumarið 1551 falið sig í tjaldi í Húsgilsdragi á bak við Glóðafeyki fyrir hermönnum sem Danakonungur sendi til Hóla.

Ungmennafélag sem starfaði í Akrahreppi frá því snemma á 20. öld og til 1995 var nefnt eftir fjallinu, Ungmennafélagið Glóðafeykir. Héraðsfréttablaðið Feykir er einnig kennt við fjallið.

Vegahnjúkur / Vegaskarð á Möðrudal

  • Fyrirtæki/stofnun

Hnjúkarnir, sem eru úr móbergi, standa á þráðbeinni gossprungunni og fara mjókkandi til suðurs. Þeir sem sjást á myndinni standa hver á sínu gosopi og verða þannig pýramídalaga, en norðar myndar goshryggurinn samfellu,“ segir Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra. Hann er gjörkunnugur þessum slóðum og hefur skrifað mikið um þær, meðal annars í árbókum Ferðafélags Íslands. Möðrudalur fór úr alfaraleið þegar vegurinn um svonefnda Háreksstaðaleið út eftir Jökuldalsheiði komst í gagnið fyrir um 15 árum. Vel sést þó til keilnanna úr fjarlægð frá þjóðvegi 1.

Baula (934 m)

  • Fyrirtæki/stofnun

Baula er keilumyndað fjall úr granófýr eða ljósgrýti, u.þ.b.50 norður af Borgarnesi og vestan eða ofan Norðurárdals í Borgarfirði. Baula er 934 metra há og myndaðist í troðgosi fyrir rúmlega 3 milljónum ára, þegar súr bergkvika á uppleið tróðst inn í jarðlagastafla skammt undir yfirborðinu. Þegar að bergkvikan svo storknaði myndaðist innskot í staflann, harðara og fastara fyrir en hraunlögin í kring. Jöklar hafa svo unnið á ytra bergi í aldanna rás og eftir stendur Baula.

Fjallið var fyrst klifið svo vitað sé árið 1851 og þótti afrek, en þrátt fyrir að Baula sé bratt fjall og skriðurunnið er uppgangan auðveld að suðvestan eða suðaustan. Vestan og norðan Baulu eru Litla-Baula og Skildingafell og þar á milli Sátudalur. Úr Sátudal rennur Dýrastaðaá í gljúfrum með fjölda fossa og sameinast Norðurá hjá Hóli og Hafþórsstöðum. Fjallið er bratt og skríðurunnin og torfærulaust en seinfarið, en mögulegt að ganga á fjallið að suðaustan eða suðvestan frá Bjarnardal. Hálflaust stórgrýti á leiðinni.

Niðurstöður 1 to 100 of 1161