Bæjartóftin stendur á töluverðum bæjarhóli, gangabær með fimm húsum og hlaði til vesturs. Göngin eru um 11m löng og hefur baðstofan verið fyrir enda þeirra að austan um 3x7m að innanmáli. Næst baðstofunni að sunnan er minna hús (um 2x4m) með grónum hleðslum í suðurenda, hugsanlega leifum hlóða og líklegt að þar hafi eldhúsið verið. Gengt því hinu megin ganganna er lítið hús (2x3,5m) með grjótbekk meðfram vesturvegg, hugsanlega stallur eða jata fyrir búpening. Ysta húsið að sunnanverðu er um 2,3x5m en gengt því norðan ganganna er síðasta húsið, 3,1x3,6m, engar greinilegar dyr eru úr því og óvíst hvort innangengt hefur verið í það úr göngunum. Utanmál tóftarinnar er 16,5x17,5, vegghæð er frá 30-150sm og mesta breidd um 2,5m. Mikið grjót er í veggjum og sjást sumstaðar 5-9 steinaraðir, torf er bæði úr streng og að því er virðist kvíahnaus, að mestu gróið en rof er á nokkrum stöðum vegna ágangs sauðfjár. Aðrar upplýsingar Í úttekt frá 1829 eru eftirfarandi hús skráð: baðstofa, búrhús, eldhús, göng frá baðstofu til útidyra, fjárhúskofi innan bæjar fyrir 17 eða 18 kindur. Þar segir einnig að heytóftir séu tvær, gamlar og hrörlegar en ekki kemur fram hvort þær hafi verið við bæinn (Ós í Nesjum. Skjalasafn umboðanna. Þingeyrarklaustursumboð. Nr. 99).