Björn Ólafsson Guðmundsson 26. nóvember 1895 - 11. október 1974 Ráðherra. Var í Reykjavík 1910. Stórkaupmaður á Njálsgötu 5, Reykjavík 1930. Stórkaupmaður í Reykjavík 1945.
Hann fór ungur að vinna fyrir sér og hóf sjálfstæðan atvinnurekstur rúmlega tvítugur að aldri. Hann var sjálfmenntaður með ágætum, og starfshæfni hans og starfareynsla öfluðu honum sívaxandi trausts, eins og æviferill hans ber glöggt vitni. Fyrirtæki hans á sviði verslunar og iðnaðar stóðu jafnan á traustum grunni og efldust jafnt og þétt. Störfum að félagsmálum sinnti hann af heilum hug, og þar sem hann á annað borð lagði hönd á plóginn, var ekki slegið slöku við. Skýrast dæmi um það traust, sem hann naut til ábyrgðarstarfa, er val hans í ríkisstjórn, þegar leitað var út fyrir þingsali við val ráðherra á tímum heimsstyrjaldar og mikils vanda í viðskipta- og verðlagsmálum.
Björn Ólafsson var baráttumaður fyrir einstaklingsfrelsi og frjálsri verslun á Íslandi. Hann var um langt skeið einn af eigendum dagblaðsins Vísis, skrifaði mikið í blaðið og átti þar vettvang til baráttu fyrir þjóðmálaskoðunum sínum. Oft stóð styr um athafnir hans og framkvæmdir, eins og jafnan verður um slíka menn. Hann hélt fast við stefnu sína, var heilsteyptur í hvívetna, einarður og ákveðinn, djarfur og stórhuga.