Halldór Sigfússon 2. maí 1908 - 16. ágúst 1991. Var á Hverfisgötu 30, Reykjavík 1930. Skattstjóri í Reykjavík. Síðast bús. í Reykjavík.
Enda þótt Halldór væri einbúi, var hann ekki einmana eða heldur einfari. Þess er fyrst að geta, að hann hafði leigjanda í séríbúð húss síns. Síðustu þrjá áratugina var sá leigjandi snæfellsk kona, ættuð af Skógarströnd, María Guðmundsdóttir að nafni. Hún var saumakona og bjó með móður sinni, meðan henni entist aldur. Eftir fárra ára leigutíma fór María að matreiða fyrir Halldór. Síðar tók hún að sér öll venjuleg heimilisstörf fyrir hann. Þau rækti hún af mikilli alúð og samvizkusemi. Halldór galt þeim konum báðum, Maríu og móður hennar, virðingu sína og háttvísi.