Hallgrímur Sigurvaldason, Eiðsstöðum Fæddur 6. apríl 1917 Dáinn 6. júní 1993 Enn hefur fækkað um einn hér í sveitinni okkar, Hallgrímur á Eiðsstöðum lést á sunnudaginn var, eftir vanheilsu nokkur undanfarin ár. Ekki efa ég að hann hafi verið hvíldinni feginn, því að fjarri var það skapgerð hans að vera upp á aðra kominn eftir að heilsa hans gaf sig.
Eiðsstaðir er fremsti bær í byggð á vestanverðum Blöndudal, framar eru Eldjárnsstaðir og Þröm, en eru nú í eyði. Á Eiðsstöðum hafa búið síðan 1953 bræðurnir Hallgrímur og Jósef, en bjuggu þar áður fram á Eldjárnsstöðum. Bæir þessir liggja hátt yfir sjó, Eiðsstaðir auk þess í bratta og því erfið til ræktunar þó að landrými sé þar nóg. Veðursæld er þar þó meiri en víða annars staðar og það sagði Hallgrímur mér eitt sinn, að það væri viðburður ef stórhríð stæði þar yfir í heilan dag. Saman hafa þeir bræður því búið á þessari jörð í 40 ár og aðallega stundað fjárbúskap, haft kú til heimilisafnota og fáein hross. Hallgrímur var stór maður og þrekmikill og hefur á sínum yngri árum örugglega verið með þrekmestu mönnum hér um slóðir. Var hann bæði áræðinn og fylginn sér við vinnu og tamdi sér þann sið að kvarta aldrei á hverju sem gengi. Í göngur og eftirleitir fór hann í allmörg haust og var þá mjög oft sendur í lengstu göngur og hefur þá vart dregið af sér. Til er sögn er segir frá því, er hann og fleiri voru í göngum hér á heiðinni og voru á ferð við Seyðisá. Þetta var síðla hausts og krap og snjóruðningur kominn í ána og því ill yfirferðar. Menn þurftu að komast yfir ána til náttstaðar, en leist hún ófær og hugðu því til gistingar á öðrum stað. Hallgrímur hugði að ánni, þagði um stund og sagði síðan stundarhátt: "Ég ætla ekki að gista hér í nótt," og fór yfir og hinir á eftir.
Ævistarf Hallgríms var að mestu unnið á Eiðsstöðum og Eldjárnsstöðum, hann fór lítið að heiman, vann þó í mörg haust við fláningu á sláturhúsinu. Hann var natinn við skepnur og vildi hirða þær mjög vel. Eitt sinn er ég kom í gamla bæinn til hans síðla vetrar, sýndi hann mér lambhrúta er þar voru og spurði hvort þeir væru ekki þokkalegir. Hefi ég vart séð þvílíkt eldi á hrútum fyrr eða síðar.
Hallgrímur var í eðli sínu hlédrægur maður, fór sjaldan á mannamót, en var þó afar eftirtektarsamur og minnugur í hátterni annarra og gleymdi fáu sem við hann var sagt. Komst hann oft meinlega að orði, þannig að orðin "hittu". Er staup var haft við hönd hýrnaði hann allur og gat þá orðið býsna hnýflóttur til orða þannig að skeytin misstu ekki marks. Trygglyndur var hann og vinafastur.
Hinn 12. júní var gerð frá Svínavatnskirkju útför Hallgríms Sigurvaldasonar, bónda á Eiðsstöðum í Blöndudal. Með honum er góður maður genginn, sem ljúft er að minnast við ævilok.