Þorsteinn Björn Gíslason fæddist í Forsæludal í Vatnsdal, A-Hún., 26. júní 1897. Foreldrar hans voru Gísli Guðlaugsson, f. 1850, d. 1906, bóndi þar, síðar í Sunnuhlið í sömu sveit, og seinni kona hans, Guðrún S. Magnúsdóttir, f. 1870, d. 1953, húsfreyja.
Þorsteinn varð stúdent í Reykjavík árið 1918 og guðfræðiprófi lauk hann frá Háskóla Íslands árið 1922.
Þorsteinn var settur prestur í Þingeyraklaustursprestakalli og skömmu síðar var honum veitt kallið. Gegndi hann embættinu til nóvemberloka 1967 er hann fékk lausn. Hafði hann þá gegnt prestsstörfum í rúm 45 ár í Þingeyraklaustursprestakalli. Hann var prófastur Húnavatnsprófastsdæmis frá 1951 til 1967. Þorsteinn bjó í Ási í Vatnsdal sumarið 1922, á Akri veturinn 1922-1923 en síðan í Steinnesi. Um árabil var Þorsteinn með unglingaskóla í Steinnesi sem var vel sóttur. Eftir að Þorsteinn fékk lausn frá embætti fluttist hann til Reykjavíkur og bjó þar til æviloka.
Þorsteinn gegndi mörgum trúnaðarstörfum í sveit sinni. Hann stundaði kennslu um langt árabil, starfaði í fræðsluráði, var í stjórn sýslubókasafns, Sögufélags Húnvetninga, sýslunefndarmaður og stjórnarmaður í Kaupfélagi Húnvetninga. Þá átti hann sæti í stjórn Guðbrandsdeildar Prestafélags Íslands, í stjórn Prestafélags Hólastiftis og var kirkjuþingsmaður um margra ára skeið.
Kona Þorsteins var Ólína Benediktsdóttir, f. 2.11. 1899, d. 26.2. 1996, húsfreyja og organisti.
Börn Þorsteins og Ólínu eru Sigurlaug Ásgerður, f. 1923, fv. bankagjaldkeri, bús. í Reykjavík; Guðmundur Ólafs, f. 1930, fv. dómprófastur, bús. í Garðabæ, og Gísli Ásgeir, f. 1937, geðlæknir, bús. í Reykjavík. Barnabarn Þorsteins og sonur Gísla er Jón Ármann Gíslason, prófastur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.
Þorsteinn lést 8. júní 1980.