[Hans Peter] Pétur Duus 22.3.1795 - júlí 1868. Höndlunarfaktor á Skagaströnd, Spákonufellssókn, Hún. 1835. Faktor í Garðabæ, Stokkseyrarsókn, Árn., 1845. Kaupmaður í Keflavík, Útskálasókn, Gull. 1860. Fæddur í Kaupmannahöfn.
„Peter Duus kaupir verslunina í Keflavík 3. júní 1848 af Martin Smith sem hafði rekið þar verslun um árabil. Peter Duus var kvæntur Ástu Tómasdóttur Bech. Þau voru ung þegar þau kynntust í Reykjavík. Foreldrar Ástu bjuggu á Kjalarnesi. Ásta hafði búið lengi í Kaupmannahöfn þegar þau Peter Duus hittast. Þau giftu sig fljótlega og fóru til Kaupmannahafnar en stoppuðu ekki lengi þar því Peter bauðst verslunarstjórastaða í Reykjavík. Þaðan fara þau til Skagastrandar og síðan til Eyrarbakka þar sem þau efnuðust vel. Þegar þau frétta að verslunin í Keflavík var til sölu hafa þau trúlega verið fljót að grípa tækifærið, því þá var Keflavík stærsti verslunarstaðurinn á suð-vesturlandi. Þegar þau kaupa verslunina eru fyrir í Keflavík tvær verslanir, K-nudtzons verslun og Verslun Sveinbörns Ólafssonar (Miðverslun). Seinna kom Ziemsen, sem við þekkjum sem Ziemsen í Rvík. Kaupverð eignanna var 3.700 ríkisdalir. Ef miðað er við verkamannalaun í þá daga og í dag, myndi eignin reiknast á kr.19.824.000.
Peter Duus og Ásta innleiddu ýmsar nýjungar í Keflavík t.d létu þau gera stóran matjurtagarð við íbúðarhús sitt og ræktuðu þar ýmsar káltegundir. Deilur hlutust af við Leirubændur og dómsmál vegna landamerkja, en kartöflugarður hjónanna utan í Hólmsbjargi reyndist vera innan Leirulands.
Peter Duus og Ásta eignuðust 4 börn sem hétu, Hans Pétur, Lovísa Henrietta Florentina, Anna Guðrún og Lúðvík Tómas Henrik.
Áfram reka þau verslunina með miklum myndarbrag til ársins 1868 eða í 20 ár. Þóttu þau hin mestu sómahjón og segir Sr. Sigurður Sívertsen á Útskálum svo um Ástu: „Hún var mikill kvenskörungur. Mesta reglukona, stjórnssöm, utanhúss sem innan.“ Um Peter Duus sagði Sigurður: „Hann var reglu- og atorkumaður, áreiðanlegur, stjórnsamur, vandaður húsfaðir og tápmikill.“
Hans Pétur Duus tók við Duusverzlun eftir föður sinn Pétur Duus. Hafði faðir hans selt honum verzlunina í hendur 1864 og var verzlunin þá metin á 15000 ríkisdali. Hann rak verslunina í 4 ár.
Árið 1868 taka við versluninni sonur þeirra Hans Peter, og tengdasonur Daníel Johnsen. Þeir ráku verslunina saman í 6 ár en þá kaupir Hans Peter Daníel mág sinn útúr fyrirtækinu.