Þorkell Vignir, son Skíða ens gamla, hann nam Vatnsskarð allt ok Svartárdal. Þannig segir í Landnámu, bls. 230, útgáfu Hins íslenska fornritafélags, Reykjavík, 1968. "Landnám Þorkels er einkennilegt. Það er í tveimur sýslum. Bæir í Vatnsskarði eru í Skagafjarðarsýslu allir nema hinn vestasti, Vatnshlíð, og liggja sýslumörk þar um vatnið. Hinn hlutinn, Svartárdalur, er í Húnavatnssýslu. Það er mikil byggð." Svo ritar Haraldur Matthíasson í hinni merku bók sinni, Landið og Landnáma, I. bindi, Örn & Örlygur, 1982.
Fyrsti bær fyrir austan Bólstaðarhlíð er bærinn Gil, en litlu austar Fjós, jörð, sem þrír bræður, Einar, Guðmundur og Friðrik Björnssynir, gáfu til skógræktar. Einar Björnsson (1891-1961) og Guðmundur M. Björnsson (1890-1970) voru kenndir við Sportvöruhús Reykjavíkur, en Friðrik Björnsson var læknir (1896-1970). Þeir bræður voru frá Gröf í Víðidal, systursynir Guðmundar Magnússonar prófessors frá Holti í Ásum Péturssonar. "Guðmundarnir", þrír prófessorar í læknisfræði við Háskóla Íslands, voru allir Húnvetningar (skipaðir í stöður sínar 17. júní 1911 við stofnun HÍ). Guðmundur Björnsson, Guðmundur Hannesson og sá er fyrr er nefndur, Guðmundur Magnússon. Má telja með ólíkindum, að ein sýsla skyldi geta af sér slíka afburðamenn, sem lögðu grunninn að íslenskri læknamenntun.
Bærinn stendur norðan Gilslækjar ofan við Svartárdalsveg. Vestan árinnar rís Skeggsstaðafjall veggbratt og skriðurunnið, en í norðri Húnaver og Bólsstaðarhlíð með Hlíðarfjall í baksýn. Djúpt klettagil gengur upp til Svartárdalsfjalls og eru þar fjárhús og tún ofan brúna. Túnrækt bæði framræst mýrlendi og valllendi. Jörðin landlítil en landgott er til fjallsins. Íbúðarhús byggt 1964 429 m3. Fjós fyrir 10 gripi. Fjárhús yfir 480 fjár. Hesthús fyrir 10 hross. Hlaða 300 m3. Tún 22 ha. Veiðiréttur í Svartá.