Jóhann Kristinn Daníelsson (Jói Dan), kennari og söngvari, fæddist 18. nóvember 1927 að Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal. Hann lést á dvalarheimilinu Dalbæ, Dalvík, 23. nóvember 2015. Jóhann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1946 og íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1949. Hann var við nám í Jærens Folkehöjskola á Jaðri í Noregi og Statens Gymnastikkskole í Ósló 1951-1952. Jóhann lauk söngkennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1959. Hann var íþróttakennari á Blönduósi og víðar 1949-56, á Ólafsfirði 1956-57 og sá um söngkennslu á Dalvík 1957-63, nema veturinn 1958-59 er hann var íþróttakennari í Reykjavík. Jóhann var kennari við Oddeyrarskóla á Akureyri 1964-74, en þá flutti hann öðru sinni með fjölskyldu sinni til Dalvíkur þar sem hann kenndi tónlist og varð meðal annars formaður Tónlistarskóla Dalvíkur. Hann varð síðar bókasafnsvörður í Dalvíkurskóla til ársins 2000.
Jóhann söng fyrst opinberlega níu ára gamall. Hann stundaði söngnám í Reykjavík og á Akureyri, hjá Sigurði Demetz Franssyni og Ingibjörgu Steingrímsdóttur, og kom víða fram sem einsöngvari með karlakórum og fleirum. Hann söng nær óslitið frá 16 ára aldri með ýmsum kórum víðs vegar um landið; Karlakór Blönduóss, Karlakór Ólafsfjarðar, Karlakór Akureyrar, Karlakórnum Geysi, Karlakór Fóstbræðra og síðast Karlakór Dalvíkur, sem gerði hann síðar að heiðursfélaga. Síðar söng hann einnig með samkór eldri borgara í Dalvíkurbyggð. Þrjár plötur voru útgefnar með söng Jóhanns; Jóhann Daníelsson og Eiríkur Stefánsson syngja einsöngva og tvísöngva (1976), Í kvöldró (1981) og síðast safnplata, Jóhann Daníelsson, með upptökum af söng hans frá árunum 1964-2004 (2010).
Jóhann tók þátt í leiklistarlífi Akureyrar og Dalvíkur í gegnum árin með söng og leik og átti hlutverk í myndinni Land og synir, þar sem hann söng eftirminnilega lagið „Við fjallavötnin fagurblá“.
Jóhann verður jarðsunginn frá Dalvíkurkirkju á morgun, 6. desember 2015, og hefst athöfnin klukkan 13.30.