Eva Þórarinsdóttir (1912-2007)
- HAH02204
- Person
- 18.2.1912 - 19.7.2007
Eva Liljan Þórarinsdóttir frá Varmadal í Vestmannaeyjum fæddist á Sunnuhvoli á Blönduósi 18. febrúar 1912. Eva ólst upp í Katadal á Vatnsnesi og á Hvammstanga fram undir tvítugt en eftir það var hún í vinnumennsku á Akureyri og einnig á Hæli í Hreppum. Um miðjan fjórða áratug síðustu aldar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum í Hrísey í Eyjafirði en þar voru þau bæði við störf. Hún við beitningar og hann sem sjómaður.
Eva og Elías hófu búskap í Langa Hvammi við Kirkjuveg árið 1935 og gengu í hjónaband árið 1942 en lengst af bjuggu þau í Varmadal við Skólaveg og voru jafnan kennd við hann. Hún var heimavinnandi húsmóðir nánast alla tíð, enda barnmargt heimili til að sjá um og húsbóndinn oft sumarlangt að heiman. Eftir að Elías lést þá bjó hún áfram í Varmadal en síðustu 12 árin bjó hún á dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum, Hraunbúðum, og líkaði dvölin þar vel. Hún lést á heimili sínu, dvalarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 19. júlí 2007.
Útför Evu verður frá Landakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30. Jarðsett verður í Landakirkjugarði.