Ingibjörg Jóna Jónsdóttir, kjólameistari, fæddist í Bolungarvík 14. apríl 1923. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans - háskólasjúkrahúss í Fossvogi 29. desember síðastliðinn.
Ingibjörg stundaði barna- og unglingaskólanám í Bolungarvík. Hún var í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1942 til 1943 og lauk síðar iðnnámi í Reykjavík. Hún tók sveinspróf í kjólasaum og varð meistari í þeirri grein. Síðar sigldi hún til Svíþjóðar og stundaði þar nám í handavinnukennslu. Þegar heim kom tók hún að sér að kenna saumaskap og handavinnu á námskeiðum víða um land, aðallega þó á Vestfjörðum. Þá varð hún handavinnukennari Húsmæðraskólans á Blönduósi í fjóra vetur árin 1946 til 1950 og munu hinir fjölmörgu nemendur hennar minnast hennar með þökk og virðingu. Hún var áhugasamur kennari, iðin, dugleg og drífandi.
Eftir að Ingibjörg Jóna flutti suður og hætti kennslu setti hún upp saumastofu í Reykjavík. Síðar sameinuðu þau stofur sínar, hún og Guðmundur Ísfjörð Bjarnason klæðskeri, og fengu þau brátt húsnæði í Kirkjuhvoli bak við Dómkirkjuna í Reykjavík. Sameiginlega stofnuðu þau svo fataverslunina Pandóru og ráku hana í Kirkjuhvoli þar til 1985 er þau seldu, höfðu þá verslað í yfir 30 ár. Guðmundur Kr. sem varð eiginmaður Ingibjargar, eins og fram kemur hér á eftir, átti ásamt öðrum heildverslunina J. Ásgeirsson og Jónsson og flutti það fyrirtæki m.a. inn fatnað til sölu í Pandóru.
Útför Ingibjargar fer fram frá Háteigskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30.