Búðardalur er þorp í Dölum, við botn Hvammsfjarðar. Þorpið er nú hluti af sveitarfélaginu Dalabyggð og er stjórnsýslumiðstöð þess. Íbúar Búðardals voru 274 árið 2015.
Í Laxdælasögu er Búðardalur nefndur og sagt frá því að Höskuldur Dala-Kollsson lenti skipi sínu fyrir innan Laxárós þegar hann kom úr Noregsferð og hafði ambáttina Melkorku með sér: „Höskuldur lenti í Laxárósi, lætur þar bera farm af skipi sínu en setja upp skipið fyrir innan Laxá og gerir þar hróf að og sér þar tóftina sem hann lét gera hrófið. Þar tjaldaði hann búðir og er það kallaður Búðardalur. Síðan lét Höskuldur flytja heim viðinn og var það hægt því að eigi var löng leið.“
Verslun hófst í Búðardal árið 1899 er Bogi Sigurðsson, kaupmaður, byggði þar fyrsta húsið, sem var bæði íbúðar- og verslunarhús. Þetta hús var síðar flutt á Selfoss og stendur þar enn. Um aldamótin hóf Kaupfélag Hvammsfjarðar verslunarrekstur í Búðardal og var þar nær allsráðandi uns það varð gjaldþrota 1989.