Guðríður Guðmundsdóttir frá Gauksmýri Fædd 2. maí 1897 Dáin 6. júlí 1992. Móðirin var Ólöf Sigurðardóttir, húsfreyja þar en faðirinn Guðmundur Sveinsson frá Múla.Ólöf hafði misst mann sinn, Sigurvalda Þorsteinsson, frá þrem dætrum og gerðist Guðmundur þá ráðsmaður hennar næstu ár. Hann og Sigurvaldi voru systkinasynir.
Litla stúlkan var skírð Guðríður, en vegir foreldranna lágu ekki saman til frambúðar. Guðmundur kvæntist, eignaðist þrjú börn og fluttist síðar til Vestmannaeyja. Ólöf giftist Birni J. Jósafatssyni og bjó áfram á Gauksmýri. Alls eignaðist hún ellefu börn.
Þegar Guðríður var um það bil ársgömul samdist svo um að hún færi í fóstur til Þorbjargar Þorsteinsdóttur frænku sinnar og Hallgríms Jónssonar á Hnjúki í Vatnsdal. Þar ólst hún upp í skjóli góðra fósturforeldra, sem hún unni og bar virðingu fyrir. Þau áttu sjálf tvö börn á lífi, Engilráðu og Jón. Og þarna, undir Hnjúknum, með fegurð dalsins í fangið, átti Guðríður bernskusporin, hoppaði þúfu af þúfu eins og vorfuglarnir, teygaði ilm af töðu og reyrgresi, veltist í snjónum, sem vafði hóla og hæðir á vetrum. Ekki er ótrúlegt að áhrif og andblær hinnar fjölbreytilegu náttúru hafi örvað hæfileika Guðríðar til ljóðagerðar, því hún var vel skáldmælt. Hún fluttist til Vestmanneyja um1920-1925. Guðríður fór fljótt að vinna í Eyjum og varð starf hennar mest í sambandi við matargerð og matsölu. Á því sviði var hún mjög vel virt og vel látin, enda sérlega hreinleg, snyrtileg og að öllu leyti vel fær í slíku starfi. Mörg ár vann hún einmitt sem matráðskona í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, og naut mikils trausts og virðingar allra sem hennar starfa nutu á því sviði.
Þessi orð mín eru aðeins um yfirborð hennar persónuleika. En þegar skyggnst er undir yfirborðið, er það nú svo með flestar persónur, að þá kemur ýmislegt fram sem ekki sést við fyrstu kynni. Hjá Guðríði var þar mjög bjart um að litast, tvö mikil og björt ljós, fögur og skær. Viskuljós var þar skært því hún var bæði miklum gáfum gædd og mikið víðlesin, hafði margt lært á þeirra tíma vísu og hagmælt var hún með ágætum. En hitt aðalljósið var ljós mannkærleika og einlægrar vináttu, trúmennsku og tryggðar á öllum sviðum. keypti hún íbúð í Garðastræti 16, af Engilráðu fóstursystur sinni, sem bjó þar með sínu fólki. Í Reykjavík setti Guðríður upp flatkökugerð í bílskúr, ásamt annarri konu. Jafnframt því prjónaði hún barnapeysur á prjónavél og seldi í búð. Þegar Guðríður var 77 ára tók hún að sér að líta til með átta ára dreng í Svíþjóð, um eins árs bil, en foreldrar hans, Anna Eydal og Jóhannes Magnússon, voru þá í Lundi við læknanám. Áður hafði hún verið með þeim á Húsavík sem dagmamma drengsins.
Hinn 19.júní 1986 fluttist Guðríður í dvalarheimilið Seljahlíð. Hún naut verunar þar í góðum félagsskap meðan heilsan leyfði. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki heimilisins fyrir hjálp og þolinmæði í veikindum hennar og íbúum hússins fyrir hlýjan hug og vináttu.