Guðmundur Jónsson, fyrrverandi skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri, fæddist á Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu 2. mars 1902. Hann andaðist á Hrafnistu í Hafnarfirði að morgni fimmtudagsins 28. nóvember síðastliðins. Foreldrar Guðmundar voru Jón Guðmundsson bóndi á Torfalæk Guðmundssonar, f. 22.1. 1878, d. 7.9. 1967, og Ingibjörg Björnsdóttir bónda frá Marðarnúpi í Vatnsdal, f. 28.5. 1875, d. 10.9. 1940. Bræður Guðmundar: Björn Leví veðurfræðingur og læknir, f. 4.2.1904, d. 15.9. 1979, kona hans var Halldóra Guðmundsdóttir, Jóhann Frímann umsjónarmaður, f. 5.2. 1904, d. 20.3. 1980, kona hans var Anna Sigurðardóttir, Jónas Bergmann, fv. fræðslustjóri í Reykjavík, f. 8.4. 1908, kona hans er Guðrún Ögmundsdóttir Stephensen, Ingimundur, f. 18.6. 1912. d. 20.5. 1969, Torfi fv. bóndi á Torfalæk, f. 28.7. 1915, kona hans var Ástríður Jóhannesdóttir. Þá ólu foreldrar Guðmundar upp þrjár stúlkur, Ingibjörgu Pétursdóttur, Sigrúnu Einarsdóttur og Björgu Gísladóttur.
Guðmundur kvæntist 21.5. 1926 Maríu Ragnhildi Ólafsdóttur frá Brimnesgerði í Fáskrúðsfirði, f. 16.2. 1896, d. 12.9. 1980, dóttur Ólafs Finnbogasonar bónda og konu hans Sígríðar Bjarnadóttur húsfreyju. Börn Guðmundar og Ragnhildar: Jón Ólafur, f. 10.11. 1927, d. 26.5. 1985, deildarstjóri Bútæknideildar landbúnaðarins á Hvanneyri, en kona hans var Sigurborg Ágústa Jónsdóttir, f. 24.5. 1930. Þau eignuðust fimm börn, Ragnhildi Hrönn, Jón, Guðbjörgu, Guðmund og Sigríði Ólöfu. Sigurður Reynir, f. 6.7. 1930, fv. skólastjóri við Heiðarskóla í Borgarfirði, kona hans var Katrín Árnadóttir kennari, f. 10.8. 1930. Þau eignuðust fimm börn, Guðbjörgu, Guðmund, Reyni, Ernu og Ragnhildi, sonur Sigurðar og Lísbet Gestsdóttur er Haukur. Sambýliskona Sigurðar er Laufey Kristjánsdóttir. Ásgeir, f. 16.1. 1933, fv. forstjóri Námsgagnastofnunar, kona hans er Sigríður Jónsdóttir, fv. námsstjóri, f. 20.8. 1933, en börn þeirra eru Brynhildur, Ingibjörg, og Margrét. Kjördóttir er Sólveig Gyða blómaskreytingarkona, f. 17.7. 1946, maður hennar er Gunnar Ólafsson vélstjóri, f. 22.1. 1951, en börn þeirra eru Guðmundur Freyr, Inga María, Sigrún Klara, látin, og Gunnar Óli.
Guðmundur varð búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal 1921. Búfræðikandídat frá Búnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1925. Guðmundur var settur skólastjóri á Hólum í Hjaltadal 1925-1926, vann við mælingar hjá Búnaðarfélagi Íslands 1926-1928. Kennari við Bændaskólann á Hvanneyri 1928-1947, settur skólastjóri á Hvanneyri 1944-45 og síðan skipaður skólastjóri þar 1947-1972. Guðmundur og Ragnhildur fluttu til Reykjavíkur er hann lét af störfum.
Guðmundur hafði forgöngu um stofnun framhaldsdeildar við Bændaskólann 1947 sem var fyrsti vísir að háskólanámi í búfræði hér á landi. Forstöðumaður Búreikningaskrifstofu ríkisins var hann frá stofnun 1936 til 1947. Formaður Verkfæranefndar ríkisins 1946-1965. Í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða (sexmannanefndin) 1943. Formaður Búnaðarráðs 1945-1947. Formaður nefndar um starfshætti framhaldsdeildar á Hvanneyri 1954-1956 og 1959-1960. Í tilraunaráði búfjárræktar 1960-1965. Formaður nefndar til að endurskoða lög um bændaskóla 1960-1962. Auk starfa sinna var Guðmundur virkur í félagsmálum; fyrsti formaður Búnaðar- og garðyrkjukennarafélags Íslands 1972-1973, var meðal stofnenda Rotary og Oddfellowa í Borgarfirði, formaður í deild Norræna félagsins í Borgarfirði, einn af stofnendum Félags sjálfstæðismanna á Vesturlandi 1960 og formaður til 1964 og formaður kjördæmaráðs 1963-1968. Heiðursfélagi Búnaðarfélags Íslands 1972, Búnaðar- og garðyrkjukennarafélags Íslands 1974 og Félags íslenskra búfræðikandidata 1981. Guðmundur var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1964.
Guðmundur var stofnandi og ritstjóri Búfræðingsins 1934-1954. Samdi form fyrir búreikninga 1930-1932, leiðbeindi bændum um færslu þeirra og gerði skýrslur um niðurstöður þeirra. Samdi og fjölritaði kennslubækur fyrir bændaskólana. Árið 1939 tók hann saman sögu Bændaskólans á Hvanneyri 50 ára og aftur er skólinn varð 90 ára 1979. Hann skrifaði greinar um landbúnað í blöð og tímarit og flutti erindi á bændafundum, námskeiðum og í útvarp. Eftir að embættisstörfum lauk skrifaði hann og ritstýrði þessum bókum: Tilraunaniðurstöður í landbúnaði 1900-1965 og 1966-1980. Íslenskir búfræðikandidatar 1974 og 1985. Bókatal 1978. Þá ritstýrði hann bókaflokknum Bóndi er bústólpi í 7 bindum sem út komu á árunum 1980-1986.
Útför Guðmundar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði.