Pálmi Guðnason (1915-1994) Blönduósi, Ægissíðu á Skagastönd
- HAH01830
- Einstaklingur
- 8.11.1915 - 23.3.1994
Bræðurnir lifðu sín bernskuár á Laxárdalnum sem um þær mundir var fjölmenn sveit með á þriðja tug byggðra býla, þó í dag séu aðeins tvö eftir. Er dalurinn nú aðallega notaður til hrossabeitar.
Laxárdalurinn er ein af þeim sveitum landsins sem á örlagaríkan hátt varð fyrir flótta fólksins til þéttbýlisstaða, sem uxu ört á þessum árum. Er þetta svo kunn saga að ekki er bætandi við orðræðu þar um. En Laxárdalurinn var leik- og starfsvangur bræðranna fjögurra, fyrst tíu ár í Kárahlíð, önnur tíu á Vesturá og svo þriðja áratuginn í Hvammi, þar framar í dalnum, en árið 1948 yfirgáfu þau Guðni og kona hans Laxárdalinn og fluttu til Skagastrandar þar sem þau bjuggu upp frá því.
Það varð hlutskipti Pálma að fara að heiman tólf ára gamall. Segir það sögu um fátækt foreldranna og er varla annars að vænta en skilnaðurinn við foreldrana hafi haft mótandi áhrif á hinn unga dreng þótt lítt ræddi Pálmi um það frekar en aðra einkahagi sína.
Í einfaldri og yfirlætislausri frásögn lét Pálmi eftir sig greinargóða lýsingu á lífshlaupi sínu frá því hann fór að heiman, fyrst að Blöndudalshólum til Bjarna bónda og kennara Jónassonar og konu hans Önnu Sigurjónsdóttur, og barnaskóla sótti hann að Finnstungu. Var það á þeim árum sem kennt var með farskólasniði. Urðu vistir hans á nokkrum bæjum í Bólstaðarhlíðarhreppi og víðar austan Blöndu, en af og til var hann heima á Laxárdalnum hjá foreldrum sínum. Reyndist félagsskapur þeirra Pálma og Steingríms varanlegur og ekki tjaldað til skamms tíma. Þar með var skólagöngunni lokið og við tók skóli lífsins. Kransæðasjúkdómur og missir sjónar á öðru auga batt enda á starfsferil Pálma um miðjan áttunda áratuginn. Frá árinu 1970 varð aðsetur hans alfarið á Blönduósi. Var heimilið, hátt á annan áratug, hjá þeim hjónum Ragnari Þórarinssyni og Svanhildi Þorleifsdóttur og varð hann sem einn af fjölskyldunni upp frá því. Náið sambad varð milli Pálma og barna þeirra hjóna og lengdist þráðurinn til barnabarnanna, en árið 1987 flutti Pálmi í Hnitbjörg á Blönduósi þar sem hann dvaldi upp frá því. Pálmi Guðnason kaus sér engan einn lífsförunaut og eignaðist ekki afkomendur, en samskipti hans við samferðamennina voru vinsamleg og áfallalaus. Hann var nokkur einfari og hleypti fáum mjög nálægt sér. Aðeins örfáir vissu um hæfileika hans til að njóta listar og gleði og einnig þess sem hann gat miðlað af þekkingu sinni af lestri bóka og meðfæddum hæfileikum. Um það varð aðeins vitað með undantekningum og í þröngum hópi. Mun sanni nærri að þeir bræðurnir fjórir af Laxárdalnum hafi verið sannir fulltrúar hinnar rómuðu alþýðumenningar á Íslandi meðan þar var enn lítið mengað bændasamfélag. Allir munu þeir hafa átt sín sérsvið og hugðarefni þótt Rósberg Snædal risi þar hæst og skilji varanlegust merki eftir sig í formi meitlaðs bundins máls og frásagna af æskustöðvunum á Laxárdal, bæði landinu og fólkinu sem þar bjó. Enginn efi er á því að Pálmi átti hliðstæða hæfileika og bróðir hans, þótt hann kysi að dylja þá fyrir flestum öðrum. Hann fór mikið einn með sjálfum sér. Labbaði sér til heilsubótar, fékk sér kaffisopa á greiðasölustöðum, og fylgdist með því sem fyrir augun bar. Sótti sér bækur á Héraðsbókasafnið og var vandlátur á lesefni. Valdi jafnan fræðibækur af einhverju tagi en sneiddi hjá skáldssögum. Var þekking hans þess vegna mikil um hin margvíslegustu efni, t.d. um byggðasögu landsins, svo að hvar sem leið hans lá um önnur héruð vissi hann mjög um staðhætti og sögu.
Hann var jarðsettur frá Blönduósskirkju laugardaginn næstan fyrir páska.