Húsfreyja í Reykjavík. Húsfreyja á Ljósvallagötu 32, Reykjavík 1930.
Æviágrip.
Það er með ólíkindum hvað lagt er á suma einstaklinga og hlýtur að þurfa mikinn styrk til að rísa undir því öllu. Ég tel að amma okkar, hún Sigríður hafi haft þann styrk í ríkum mæli og kannski meiri en margir aðrir. Það veit sennilega enginn hvað nærri henni hefur gengið það sem hún reyndi á sinni löngu ævi. Einhverrar skólagöngu hefur hún notið. Í minningargrein um hana er hún sögð hafa gengið í Kvennaskólann í Reykjavík (stofnaður 1875) en ekki getið um hvaða ár það hefur verið. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og áföll stór og smá hefur hún vafalaust átt sínar góðu stundir líka. Það sem hér fer á eftir eru að mestu þurrar upptalningar byggðar á þeim upplýsingum og heimildum sem mér eu tiltækar.
10 ára gömul er hún send í fóstur til Theodóru skáldkonu og Skúla Thoroddsen, sýslumanns á Ísafirði, trúlega vegna heimilisástæðna hjá foreldrunum. (Hugsanlega vegna ofstopa og jafnvel ofbeldis föður hennar. Ég hef þó ekki fundið í Dómabókum Borgarfjarðarsýslu frá þessum tíma að Þorsteinn hafi verið dæmdur.) Árið 1888 lést Þorsteinn faðir hennar. Árið 1890, 15 ára er hún komin í vist/fóstur að Valþjófsstað í Fljótsdal hjá Soffíu Emelíu Einarsdótur vinkonu Maríu móður hennar. Ekki er ósennilegt að Theodóra hafi talið Sigríði fyrir bestu að fara annað, því um þetta leyti var fast sótt að Skúla vegna meintra mistaka og/eða vanrækslu í embættisrekstri. (Skúlamálin svokölluðu). Eftir því sem ég best veit var Theodóra henni meira en fóstra, þær voru miklar vinkonur. Sú vinátta hélst meðan báðar lifðu. Soffía Emelía var kona sr. Sigurðar Gunnarssonar, sem var prestur á Valþjófsstað, en fékk 1894 veitingu fyrir Stykkishólms-prestakalli og flutti þangað. Ekki er annað séð en Sigríður hafi orðið eftir fyrir austan þegar Soffía og sr. Sigurður fluttu í Stykishólm. Þar mun hún hafa kynnst Jóni Gunnarssyni bróður sr. Sigurðar og öll efni virðast hafa staðið till að þau tækju saman en það fór á annan veg, því hann lést þrítugur árið 1896. Honum var þannig lýst "Efnilegur maður en heilsuveill".
Árið 1892, skömmu eftir að Sigríður fluttist austur varð það slys að bróðir hennar sr. Pétur Andreas Maack Þorsteinsson prestur á Stað í Grunnavík drukknaði í Grunnavíkinni. Hann lét eftir sig eiginkonu og þrjú ung börn auk þess sem kona hans Vigdís Einarsdóttir gekk með það fjórða. Skv. manntali 1901 er Sigríður skráð "hjú" á Brekku í Fljótsdal.
Nokkru síðar gekk hún að eiga Sigurð Brynjólfsson bóndason þar, en þeirra sambúð var stutt, hann lést í desember 1903. Saman áttu þau eina dóttur, Sigríði Sigurveigu, sem var skírð við kistu föður síns. 1906 er Sigríður farin að búa á Víðivöllum fremri og hjá henni er tengdafaðir hennar Brynjólfur Þórarinsson ráðsmaður. Hann var þá ekkjumaður. Fáum árum seinna (1909-1911??) kom að Víðivöllum (Elís) Tryggvi Ólafsson. Eftir það er saga þeirra hin sama því hann varð seinni maður Sigríðar.
Í Íslendingabók er Tryggvi sagður barnsfaðir Sigríðar og hún barnsmóðir hans, sem þýðir að þau hafi ekki gengið í hjónaband. Hins vegar segir í minningargrein um Tryggva að þau hafi gengið í hjónaband 24. júlí 1911.Saman áttu þau þrjá syni. Elstur var Ólafur 1913-1993. Fimm árum síðar, 1918 fæddust svo tvíburabræðurnir Gunnar Brynjólfur, sem var fatlaður og lést aðeins 19 ára, 1937 og Sigurður Pétur (d.1987).
Móðir Sigríðar, María Bóthildur lést 22. mars 1918. Árið 1930 hættu þau Sigríður og Tryggvi búskap, þá bæði orðin heilsuveil. Þau fluttust til Reykjavíkur og bjuggu á Ljósvallagötu 32.
- janúar, 1944 fórst togarinn Max Pemperton með allri áhöfnn út af Snæfellsnesi. Ekki er vitað hver orsök þess slyss var. Bróðursonur Sigríðar, Pétur Andreas Maack var skipstjóri á togaranum og sonur hans og alnafni var fyrsti stýrimaður. 29. sept. þetta sama ár lést Kristín tengdadóttir hennar (móðir okkar Tryggva) eftir stutt veikindi, aðeins 25 ára. 26. ágúst 1947 lést Tryggvi (afi) eftir skammvinn veikindi. Á einhverju árabili eftir lát Tryggva héldu Sigríður og Sæbjörg Sigurðardótir (1896-1990) heimili saman á Víðimel 31. Móðir Sæbjargar, (Ingibjörg) Sigurbjörg Sigurðardótir og Tryggvi voru þremenningar.