Sigríður Þorsteinsdóttir (1875-1965) Húsfreyja á Ljósvallagötu 32

Identity area

Type of entity

Person

Authorized form of name

Sigríður Þorsteinsdóttir (1875-1965) Húsfreyja á Ljósvallagötu 32

Parallel form(s) of name

  • Sigríður Þorsteinsdóttir Húsfreyja á Ljósvallagötu 32

Standardized form(s) of name according to other rules

Other form(s) of name

Identifiers for corporate bodies

Description area

Dates of existence

12.2.1875 - 5.11.1965

History

Húsfreyja í Reykjavík. Húsfreyja á Ljósvallagötu 32, Reykjavík 1930.
Æviágrip.
Það er með ólíkindum hvað lagt er á suma einstaklinga og hlýtur að þurfa mikinn styrk til að rísa undir því öllu. Ég tel að amma okkar, hún Sigríður hafi haft þann styrk í ríkum mæli og kannski meiri en margir aðrir. Það veit sennilega enginn hvað nærri henni hefur gengið það sem hún reyndi á sinni löngu ævi. Einhverrar skólagöngu hefur hún notið. Í minningargrein um hana er hún sögð hafa gengið í Kvennaskólann í Reykjavík (stofnaður 1875) en ekki getið um hvaða ár það hefur verið. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og áföll stór og smá hefur hún vafalaust átt sínar góðu stundir líka. Það sem hér fer á eftir eru að mestu þurrar upptalningar byggðar á þeim upplýsingum og heimildum sem mér eu tiltækar.

10 ára gömul er hún send í fóstur til Theodóru skáldkonu og Skúla Thoroddsen, sýslumanns á Ísafirði, trúlega vegna heimilisástæðna hjá foreldrunum. (Hugsanlega vegna ofstopa og jafnvel ofbeldis föður hennar. Ég hef þó ekki fundið í Dómabókum Borgarfjarðarsýslu frá þessum tíma að Þorsteinn hafi verið dæmdur.) Árið 1888 lést Þorsteinn faðir hennar. Árið 1890, 15 ára er hún komin í vist/fóstur að Valþjófsstað í Fljótsdal hjá Soffíu Emelíu Einarsdótur vinkonu Maríu móður hennar. Ekki er ósennilegt að Theodóra hafi talið Sigríði fyrir bestu að fara annað, því um þetta leyti var fast sótt að Skúla vegna meintra mistaka og/eða vanrækslu í embættisrekstri. (Skúlamálin svokölluðu). Eftir því sem ég best veit var Theodóra henni meira en fóstra, þær voru miklar vinkonur. Sú vinátta hélst meðan báðar lifðu. Soffía Emelía var kona sr. Sigurðar Gunnarssonar, sem var prestur á Valþjófsstað, en fékk 1894 veitingu fyrir Stykkishólms-prestakalli og flutti þangað. Ekki er annað séð en Sigríður hafi orðið eftir fyrir austan þegar Soffía og sr. Sigurður fluttu í Stykishólm. Þar mun hún hafa kynnst Jóni Gunnarssyni bróður sr. Sigurðar og öll efni virðast hafa staðið till að þau tækju saman en það fór á annan veg, því hann lést þrítugur árið 1896. Honum var þannig lýst "Efnilegur maður en heilsuveill".

Árið 1892, skömmu eftir að Sigríður fluttist austur varð það slys að bróðir hennar sr. Pétur Andreas Maack Þorsteinsson prestur á Stað í Grunnavík drukknaði í Grunnavíkinni. Hann lét eftir sig eiginkonu og þrjú ung börn auk þess sem kona hans Vigdís Einarsdóttir gekk með það fjórða. Skv. manntali 1901 er Sigríður skráð "hjú" á Brekku í Fljótsdal.

Nokkru síðar gekk hún að eiga Sigurð Brynjólfsson bóndason þar, en þeirra sambúð var stutt, hann lést í desember 1903. Saman áttu þau eina dóttur, Sigríði Sigurveigu, sem var skírð við kistu föður síns. 1906 er Sigríður farin að búa á Víðivöllum fremri og hjá henni er tengdafaðir hennar Brynjólfur Þórarinsson ráðsmaður. Hann var þá ekkjumaður. Fáum árum seinna (1909-1911??) kom að Víðivöllum (Elís) Tryggvi Ólafsson. Eftir það er saga þeirra hin sama því hann varð seinni maður Sigríðar.

Í Íslendingabók er Tryggvi sagður barnsfaðir Sigríðar og hún barnsmóðir hans, sem þýðir að þau hafi ekki gengið í hjónaband. Hins vegar segir í minningargrein um Tryggva að þau hafi gengið í hjónaband 24. júlí 1911.Saman áttu þau þrjá syni. Elstur var Ólafur 1913-1993. Fimm árum síðar, 1918 fæddust svo tvíburabræðurnir Gunnar Brynjólfur, sem var fatlaður og lést aðeins 19 ára, 1937 og Sigurður Pétur (d.1987).

Móðir Sigríðar, María Bóthildur lést 22. mars 1918. Árið 1930 hættu þau Sigríður og Tryggvi búskap, þá bæði orðin heilsuveil. Þau fluttust til Reykjavíkur og bjuggu á Ljósvallagötu 32.

  1. janúar, 1944 fórst togarinn Max Pemperton með allri áhöfnn út af Snæfellsnesi. Ekki er vitað hver orsök þess slyss var. Bróðursonur Sigríðar, Pétur Andreas Maack var skipstjóri á togaranum og sonur hans og alnafni var fyrsti stýrimaður. 29. sept. þetta sama ár lést Kristín tengdadóttir hennar (móðir okkar Tryggva) eftir stutt veikindi, aðeins 25 ára. 26. ágúst 1947 lést Tryggvi (afi) eftir skammvinn veikindi. Á einhverju árabili eftir lát Tryggva héldu Sigríður og Sæbjörg Sigurðardótir (1896-1990) heimili saman á Víðimel 31. Móðir Sæbjargar, (Ingibjörg) Sigurbjörg Sigurðardótir og Tryggvi voru þremenningar.

Places

Akranes; Ísafjörður; Stykkishólmur; Valþjófsstaður; Brekka á Fljótsdal; Víðivellir fremri; Reykjavík

Legal status

Functions, occupations and activities

1885- 10 ára gömul send í fóstur til Theodóru og Skúla Thoroddssen sýslumanns á Ísafirði. Ekki er vitað með vissu hversvegna, jafnvel vegna ofstopa og framkomu föður hennar. Frá Theodóru og Skúla fór hún 15 ára gömul hugsanlega vegna þess ófriðar sem var í kringum Skúla. Skúlamálin svo kölluð þar sem hann var borinn þungum sökum vegna meintrar vanrækslu í embættisrekstri.
1888- Lést Þorsteinn faðir hennar.
1890- Komin í vist/fóstur á Valþjófsstað í Fljótsdal. Hjá Soffíu vinkonu Maríu móður hennar. Soffía var gift sr. Sigurði Gunnarssyni. Þar var hún einungis fá ár því sr. Sigurður fékk 1894 fékk hann veitingu fyrir Stykkishólmsprestakalli og fluttist þangað.
1892- 8. Sept. drukknaði sr. Pétur Andreas Maack bróðir Sigríðar, prestur á Stað í Grunnavík í Grunnavíkinni framundan prestssetrinu. Hann lét eftir sig eiginkonu og ung börn og eitt ófætt. Það var drengur sem bar nafn föður síns Pétur Andreas Maack, seinna virtur togaraskipsstjóri.
1896- Lést Jón Gunnarsson vinur Sigríðar. (Sennilega unnusti)
1903- 2. des.lést Sigurður Brynjólfsson sem Sigríður var þá nýlega gift. Saman áttu þau eina dóttur, Sigríði Sigurveigu, sem var skírð við kistu föður síns.
1918- 6. febrúar fæðir Sigríður tvíbura, Sigurð Pétur og Gunnar Brynjólf, sem var vanheill og heyrnalaus. Var haldin einhverjum sjúkdómi sem ég veit ekki hver var.
1918- 22. mars lést María Bóthildur móðir Sigríðar.
1937- 15. mars lést Gunnar Brynjólfur á sjúkrahúsi í Reykjavík.
1944- 11. janúar fórst togarinn Max Pemperton með allri áhöfn einhverstaðar nærri Snæfellsnesi. Skipstjóri var bróðursonur Sigríðar, Pétur Andreas og sonur hans og nafni Pétur Andreas fyrsti stýrimaður þrítugur að aldri. Ekki er vitað hvað varð togaranum að grandi, hugsanlega lent í mikilli straumröst sem getur myndast á þessum slóðum eða rekist á tundurdufl.
1944- 29. september lést Kristín tengdadóttir Sigríðar (móðir mín) eftir örfárra daga veikindi.
1947- 26. ágúst lést Tryggvi eiginmaður hennar og afi okkar eftir skammvinn veikindi.

Mandates/sources of authority

Internal structures/genealogy

Framætt Sigríðar:
Sigríður var fædd 12. febrúar 1875 á Akranesi og lést 5. nóv. 1965 í Reykjavík. Hún var næst yngst af ellefu alsystkinum, en fjögur þeirra dóu í frumbernsku. Þrír bræður hennar fluttu til Vesturheims.

Foreldrar Sigríðar: Þorsteinn Guðmundsson kaupmaður f. 27. febrúar 1830 í Vörum í Garði, látinn 20. ágúst 1888 og kona hans 10.6.1858; María Bóthildur Jakobína Pétursdóttir Maack f. 3. apríl 1836 í Reykjavík, látin 22. mars 1918. Þorsteinn settist að á Akranesi 1872 og var fyrsti fasta-kaupmaður þar eftir löggildingu Akraness sem verslunarstaðar 16. júní 1864. Fram að þessu höfðu einungis verið torfbæir á Akranesi eins og víðast á Íslandi. Þorsteinn byggði sér hús úr timbri. Það var annað timburhúsið sem byggt var á Skaganum.

Foreldrar Þorsteins: Guðmundur Jónsson f. 1795 á Stafnesi í Hvalsnessókn, látinn 31. mai 1861 í Útskála sókn og Þórunn Þorsteinsdóttir f. 1798 í Útskálasókn. Af heimildum sést að þau hafa 1845 verið búandi í Kóngsgerði í Útskálasókn þar sem Guðmundur er skráður sjómaður.

Foreldrar Guðmundar, Jón Björnsson, f. 1764, d. 20. mars 1814 og kona hans, Sigríður Bjarnadóttir f. 1759, d. 1820 hafa 1801 búið á Loddu í Hvalsnessókn.

Foreldrar Þórunnar, Þorsteinn Einarsson f. 1756 á Vindási í Kjós, d. 20. mars 1826 og kona hans Margrét Sveinsdóttir f. 1774, d. 1843 hafa 1801 búið á Gauksstöðum í Útskálasókn. Þorsteinn var aðstoðarprestur á Helgafelli , Snæf. 1906-1812, prestur á Útskálum 1812-1813 og á Staðarhrauni, Mýr. frá 1822 og til dauðadags. (1814-1821?)

Foreldrar Maríu Bóthildar Jakobínu voru Peter Andreas Maack f. 1812 í Sleswig Holtstein (Holtsetalandi) látinn 1841. Ætt hans verður því ekki rakin lengra. Eiginkona hans var Þóra Einarsdóttir Hannessen f. 1802 í Stokkseyrarsókn, látin ??

Foreldrar Þóru voru Einar Hannesson f. 1745 í Strandahreppi og seinni kona hans Ane Lisbet Vettesen, fædd Aamundson. Hún var fædd 1765, sennilega í Bergen þar sem faðir hennar Ámundi Helgason var beykir. Einar Hannesson var bóndi á Hvalsnesi 1784 og 1801 í Garði í Stokkseyrarsókn. 1816 er hann kominn til Reykjavíkur og sagður snikkari í Ullar-stofunni.

Petar Andreas er ættfaðir Maack-ættarinar á Íslandi, en þýskur að uppruna. Hann var verslunarstjóri og veitingamaður í Reykjavík og Hafnarfirði. Þóru kvæntist hann 9. ágúst 1834. Sambúð þeirra hefur ekki verið löng því Peter Andreas lést aðeins sjö árum síðar. Samkv manntali 1816 er Þóra, þá 14 ára, sögð tökubarn í Robbshúsi í Reykjavíkursókn. Þóra giftist aftur 26. júlí 1848 Þorfinni Jónatanssyni 1823-1883.

Systkini Sigríðar:
1) Pétur Andrés Maack Þorsteinsson 29. mars 1859 - 8. sept. 1892. Prestur í Grunnavík
2) Þorfinnur Þorsteinsson 2.3.1861 látinn í King Wasington 14. nóv. 1932.
3) Guðmundur Bjarni Guðmundsson 13.8.1862 – 1862. Sagður Guðmundsson í Íslendingab.
4) Þóra Þorsteinsdóttir 28.11.1863 – 1863.
5) Þóra Þorsteinsdóttir 29.11.1864 – 1864.
6) Bernharður Hartvig Thorsteinsson 9.6.1866, látinn í Vancover Kanada 3. jan. 1950. Fór til Vesturheims 1888
7) Gurie Villedine [Willedina] Þorsteinsdóttir 27.12.1868 látin í Flensburg í Þýskalandi 1. nóv. 1962.
8) Guðmundur Bjarni Þorsteinsson 17.1.1870. Fór til Vesturheims 1890, óvíst hvaðan.
9) Katrín Þorsteinsdóttir. 4.9.1871 – 1871
10) Einar Thorsteinsson Maack 10. nóv. 1878 - 19. mars 1969. Verslunarmaður í Reykjavík

Eins og fyrr er getið létust fjögur systkinin í frumbernsku. Þrír bræður fluttu vestur um haf. Um þá hef ég enga vitneskju enn sem komið er. Það er vitað um örlög sr. Péturs Andrésar og Einars sem var verslunarmaður, en um Guie Villedine hef ég engar upplýsingar aðrar en þær að á manntali 1880 er hún til heimilis hjá foreldrum sínum á Akranesi.

Unnusti Sigríðar; Jón Gunnarsson 17. mars 1866 - 15. maí 1896. Var í Brekku, Valþjófsstaðarsókn í Hróarstungu, N-Múl. 1870. „Efnilegur maður en heilsuveill“ segir Einar prófastur.
Maður Sigríðar; Sigurður Brynjólfsson 2. jan. 1879 - 2. des. 1903. Var í Brekku, Valþjófsstaðarsókn, N-Múl. 1901. Bóndi í Brekku í Fljótsdal, N-Múl.
Barn þeirra;
1) Sigríður Sigurveig Sigurðardóttir 31. maí 1903 - 5. nóv. 1989. Var skírð við kistu föður síns; Var á Ljósvallagötu 32, Reykjavík 1930. Kennari. Síðast bús. í Borgarnesi.
Maki 2; Elís Tryggvi Ólafsson 19. sept. 1874 - 26. ágúst 1947. Léttadrengur í Brekkugerði, Valþjófsstaðarsókn, N-Múl. 1890. Endurskoðandi og skrifstofumaður í Reykjavík. Fyrrverandi bóndi á Ljósvallagötu 32, Reykjavík 1930.
Synir þeirra;
2) Ólafur Tryggvason 11. okt. 1913 - 20. júní 1993. Var á Ljósvallagötu 32, Reykjavík 1930. Læknir í Reykjavík, síðast bús. í Reykjavík.
3) Gunnar Brynjólfur Tryggvason 6. feb. 1918 - 15. mars 1937. Nemandi í Málleysingjaskólanum, Reykjavík 1930.
4) Sigurður Pétur Tryggvason 6. feb. 1918 - 14. júní 1987. Sparisjóðsstjóri og stöðvarstjóri Pósts og síma á Hvammstanga. Var á Ljósvallagötu 32, Reykjavík 1930. Síðast bús. í Hvammstangahreppi. Kona hans Kristín Guðmundsdóttir 20.7.1919 - 29.9.1944 Var á Auðunnarstöðum, Víðidalstungusókn, V-Hún. 1930. Sonur þeirra Gunnar Sigurður trésmiður Blönduósi.

General context

Relationships area

Related entity

Árni Pálsson (1878-1952) prófessor Reykjavík (13.9.1878 - 7.11.1952)

Identifier of related entity

HAH03562

Category of relationship

family

Type of relationship

Árni Pálsson (1878-1952) prófessor Reykjavík

is the cousin of

Sigríður Þorsteinsdóttir (1875-1965) Húsfreyja á Ljósvallagötu 32

Dates of relationship

Description of relationship

Sambýliskona Skúla (1919-1994) sonar Árna var Ragnhildur Björnsdóttir Maack (1911-2000). Fyrri maður Ragnhildar var Pétur Andrés Pétursson Maack (1915-1944) faðir hans var Pétur Maack skipsstjóri Max Pemperton sem fórst 1944, bróðursonur Sigríðar

Related entity

Gunnar Sigurður Sigurðsson (1942) Húsasmiður Blönduósi (16.1.1942-)

Identifier of related entity

HAH10021

Category of relationship

family

Type of relationship

Gunnar Sigurður Sigurðsson (1942) Húsasmiður Blönduósi

is the grandchild of

Sigríður Þorsteinsdóttir (1875-1965) Húsfreyja á Ljósvallagötu 32

Dates of relationship

16.1.1942

Description of relationship

Access points area

Subject access points

Place access points

Occupations

Control area

Authority record identifier

HAH04993

Institution identifier

IS HAH

Rules and/or conventions used

Status

Final

Level of detail

Full

Dates of creation, revision and deletion

GPJ 26.6.2019

Language(s)

  • Icelandic

Script(s)

Sources

®GPJ ættfræði
Íslendingabók.
Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands.
Áar og niðjar Péturs Einarssonar og Ingileifar Sigurðardóttur.
Landið þitt Ísland.
Ýmsar minninga greinar.
gss júní 2012, endurskrifað apríl 2016

Maintenance notes

  • Clipboard

  • Export

  • EAC

Related subjects

Related places