Kristín Björnsdóttir (1909-1994) Litlu-Giljá
- HAH01661
- Person
- 1.6.1909 - 11.10.1994
Kristín Björnsdóttir var fædd á Litlu-Giljá í Húnavatnssýslu 1. júní 1909. Hún lést í Reykjavík 11. október síðastliðinn. Í Reykjavík starfaði hún í mörg ár á Landsímastöðinni, með árshléi er hún var í London og lærði m.a. á hið nýja langlínusamband til Íslands, sem opnað var er hún kom heim. Árið 1937 fór hún alfarið utan og dvaldist í París og síðar á Ítalíu, þar sem hún var í stríðsfangabúðum fasista í þrjú ár.Á þeim tíma voru kreppuár á Íslandi og fór sendinefnd þaðan til að fá lán fyrir Ísland hjá Hambrosbanka, þar sem Ísland var á barmi gjaldþrots. Var sendinefndin undir forystu Magnúsar Sigurðssonar landsbankastjóra. Elín dóttir Magnúsar var náin vinkona Kristínar. Af þeim sökum kom Magnús í heimsókn til Kristínar og bar sig illa vegna synjunarinnar. Kristín kvað hann ekki þurfa að örvænta, þar sem hún þekkti áhrifamenn, sem gætu komið þessu í lag, sem hún og gerði og bjargaði þar þjóðarhag Íslendinga í bili. Hefir hún aldrei hlotið þakklæti sem skyldi. Eftir það ferðaðist hún mikið um Evrópu, en dvaldi lengst í París. Var hún einstök málamanneskja.
Í stríðsbyrjun var hún stödd í Belgíu og mun hafa flust fljótlega til Ítalíu. Á Parísarárunum buðust henni leikkonustörf hjá Alexander Corda. Hafði hún oft orð á því að það boð hefði hún átt að þiggja.
Erlendis kynntist hún ýmsum frammámönnum og um tíma var hún málakennari Eddu Mussolini og kynntist þar mörgum háttsettum Þjóðverjum, sem eindregið vildu fá hana sem njósnara í Kaíró. Höfðu þeir í ríkum mæli afhent henni ýmis gögn til þess starfa. Þegar hún neitaði eindregið, þótti Þjóðverjum ekki fært annað en setja hana í fangelsi á Ítalíu með ýmsum öðrum pólitískum föngum. Þurfti hún að dvelja þar við illan aðbúnað í 3 ár, eða þar til Bandaríkjamenn komu til sögunnar og leystu fangana.
Í stríðslok hélt hún til New York, þar sem hún gekk í skóla stórfyrirtækisins IBM og fór að vinna fyrir það. Haustið 1946 réðst hún til starfa í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og alþjóðasamtökunum lagði hún krafta sína í meira en tvo áratugi. Við starfslok 1969 fluttist Kristín til Íslands og bjó í Reykjavík til æviloka. Útför hennar fer fram frá Áskirkju í dag.