Sra Gísli í Budapest missti föður sinn ungur, en ólst upp hjá móður sinni, er var sænsk og hjet Charlotha Dahlgreen. Hann tók guðfræðispróf i Osló árið 1902, dvaldi svo við þýska og enska háskóla til frekari undirbúnings undir æfistarf sitt og fór síðan á vegum norsks Gyðingatrúboðsfjelags til Rúmeníu. Þar var hann í 19 ár, en fluttist fyrir 6 árum til Budapest. Hann er tungumálamaður meiri en alment gerist, les 12—15 tungumál og talar þau flest, t. d. öll Balkanmálin. Hann prjedikar á frönsku einu sinni í mánuði í lítilli kirkju, sem sambyggð er við prestsetur hans í Budapest og hefir auk þess stóran söfnuð „Kristtrúar Gyðinga" í borginni. Á þýsku er sá óskýrði „söfnuður" kallaður „Verein Christusglaubiger Juden".
Sra Gísli bjó með móður sinni mörg ár. Hún andaðist eitt ófriðarárið, er Þjóðverjar sátu um Galatz, hafði borðað fisk úr Dóná, sem eitraður var orðinn.