Inga fæddist 13. júlí 1903 að Árnesi á Ströndum, en flutti ung með foreldrum sínum, Daníel Gestssyni og Valgerði Níelsdóttur, í Vestur-Húnavatnssýslu. Hún varí vist með foreldrum sínum á ýmsum bæjum uns hún fór í kaupavinnu um eða uppúr fermingu.
Þegar börnin uxu úr grasi byggðu þau Inga og Sigurður nýtt hús niðri í þorpinu 1947 og heitir það Sólland, sem tónlistarskólinn er starfræktur nú. Þau fluttu í húsið 1948. Húsið er byggt á sólríkum stað.
Inga tók til að rækta tré, blóm og garðávexti í nýja garðinum sínum og dafnaði þetta allt vel hjá henni. Síðasta húsið sem þau fluttu í á Hvammstanga var Breiðagerði og þaðan lá leiðin til Reykjavíkur haustið 1967.
Inga og Sigurður höfðu það fyrir reglu eftir að þau eignuðust tengdabörn og barnabörn að bjóða öllum í hádegismat á aðfangadag jóla, það má því með sanni segja að jólin hafi byrjað snemma dags hjá okkur og var alltaf mikil tilhlökkun að koma til þeirra. Sigurður hjálpaði henni alltaf við að ganga frá í eldhúsinu á eftir matnum. Ég man alltaf eftir því þegar ég kom fyrst í heimsókn til þeirra, þá unglingsstúlka nýflutt frá Þórshöfn, hvað mér þótti þetta skrítið að sjá karlmann við uppvaskið en svo að sjálfsögðu vandist þetta og til allrar lukku erfðu drengirnir þetta frá honum og margt fleira gott.
Inga kom á Sjúkrahúsið á Hvammstanga 22. október 1983 og eru því orðin nærri því sjö ár sem hún hefur verið sjúklingur hér, áður var hún búin að dvelja á elliheimilinu Grund í Reykjavík.