Þann 5. febrúar sl. fórst vélbáturinn Heiðrún frá Bolungarvík með 6 menn innanborðs, einn þessara sex var Páll Ísleifur Vilhjálmsson frá Brandaskarði, A.-Hún. Páll var yngsta barn þeirra Jensínu Hallgrímsdóttur og Vilhjálms Benediktssonar bónda í Brandaskarði A-Hún. Jensína var Bolvíkingur en réðist tvítug að aldri norður í Húnavatnssýslu. Þar giftist hún Vilhiálmi Benediktssyni, húnvetnskum bóndasyni og hófu þau búskap árið 1930 á eignarjörð Vilhjálms, Brandaskarði, og eignuðust fimm börn.
Þau Jensína og Vilhjálmur voru um margt ólík, hún var skapmikil, en glöð og létt í lund, góður fulltrúi hinna óvilsömu Bolvíkinga, hamhleypa til allra verka og aldrei óvinnandi. Vilhjálmur var skáldmæltur vel og kaus gjarnan að sitja með penna í hönd og una í sínum draumaheimi en það var ekki hent fátækum bónda, og það áttu þau Vilhjálmur og Jensína sameiginlegt að þau vildu ekki vera upp á aðra komin.
En til þess að bjargast áfram á þeim kreppuárum, sem þau hófu búskap varð að vinna hörðum höndum og Vilhjálmur lét ekki sitt eftir liggja að vinna fyrir hópnum sínum en leitaði sér svo styrks í kveðskap þegar þreytan var að buga hann. Hann lýsir því sjálfur í einni vísu sinni:
Oft mér hugljúft yndi bar
ómþýð ljóðahending.
Hún í erjum vetrar var
vörn og þrautalending.
Með samstilltu átaki þeirra og hlífðarlausri vinnu búnaðist þeim fljótt vel og er börnin komust á legg voru þau dugleg að hjálpa og lét Páll ekki sinn hlut ekki eftir liggja þó yngstur væri, sérstaklega var hann góður og hjálpsamur móður sinni.
Páll var greindur vel og skemmilegur í viðmóti og fljótur til svars og lét ekki sinn hlut fyrir neinum og kærði sig kollóttan hvort hann deildi við kóng eða klerk.
Fríður sýnum var Páll meðsérkennileg leiftrandi augu, sem stundum virtust sjá út yfir hinn þrönga vanalega sjóndeildarhring.
Páll dvaldist nær óslitið í foreldrahúsum til 18 ára aldurs en þá slasaðist hann alvarlega og var vart hugað líf, og samur maður varð hann aldrei. Hann fór að heiman og dvaldi víða, vann ýmist til sjós eða lands og þótti hvarvetna hinn bezti starfsmaður.