Byggt 1899 af Sigurði Oddleifssyni búfræðingi. Hann bjó þar 1899-1901 en flutti svo vestur um haf 1902. Lóðasamningur og útmælingargjörð voru til með vissu, en ég [JA] hef ekki séð þau plögg.
Lóðin var 1260 ferálnir [496,4 m2]. Hansína ekkja sra Þorvaldar kaupir hús og lóð af Sigurði. Hún býr í húsinu með Ásgeiri syni sínum til 1910. Ásgeir kvæntist Hólmfríði 1909 og flytjast þau þá til tengdaforeldranna í Hjálmarshús [Jónasarhús].
1911 flyst Ingibjörg Hjálmarsdóttir systir Zophoníasar í Hansínuhús, hann byggði þá yfir systur sína. Í virðingargjörð frá 18.2.1914 segir um hús Ingibjargar; Stærð þess að utanmáli er 6x4 m. Hæð undir þakskegg er 2,2 m. í mæni 2,8 m. Það er allt úr timbri með vanalegri grind og liggjandi klæðningu. Kjallari er undir 2/3 af húsinu, hlaðinn úr steini og lagður í sement. Fyrsta gólfið er skipt í 3 herbergiog inngang. Eru tvö herbergi þiljuð, veggfóðruð og máluð, eitt er aðeins þiljað. Þak er úr heilþykkum borðum á sperrur. Þar yfir þakpappi og yst rifflað þakjárn menjumálað og útveggir einnig málaðir. Í húsinu er múrpípa, eldavél og 1 ofn.
Við húsið eru 2 skúrar, annar við útidyr 1,26 x 1,57 m. Hæð 2 m. Hann er með einfaldri klæðningu, hinn skúrinn er við húshliðina að að stærð 2 x 3 m. hæð 1,9 m. Hann er klæddur með heilþykkum borðum og pappi yfir. Þök á skúrum þessum eins og aðalhúsinu. Meðfylgjandi lóð er sögð 484 m2. Ekki var komin vatnslögn í húsið 1916, en brunnur var snemma gerður í lóðinni og er hann enn þar, en jarðvegur yfir.
Ásgeir kaupir hið nýbyggða hús af Ingibjörgu 23.5.1914. Zophonías tengdafaðir Ásgeirs, sem hafði byggt sér hús 1905, seldi það og byggði sér annað hús, Lindarbrekku. Hann seldi húsið 19.2.1923 Stefáni Þorkelssyni og byggði yfir sig viðbyggingu við Ásgeirshús. Þessa viðbyggingu seldi Zophonías Torfalækjarhreppi og Bkönduóshreppi 13.6.1928. Ásgeir kaupir hana svo af hreppnum 17.4.1943.
Ásgeir býr svo í húsinu til um 1960. Þorvaldur sonur hans bjó þar þar til hann byggir yfir sig utan ár [Hvanná] og fór Ásgeir þá með honum.
Sigurður H Þorsteinsson keypti Ásgeirshús og bjó þar þar til hann byggði yfir sig utan ár. Þá settist Sigurgeir Sverrisson að í Ásgeirshúsi og bjó í því uns það brann 1970.