Jakob S. Sigurðsson frá Steiná - Minning Fæddur 10. október 1920 Dáinn 27. maí 1991 Í dag verður til moldar borinn afabróðir minn, Jakob Skapti Sigurðsson frá Steiná í Svartárdal, Austur-Húnavatnssýslu. Daddi, eins og hann var alltaf kallaður, lést 27. maí síðastliðinn á sjúkrahúsinu á Blönduósi eftir erfið veikindi.
Daddi var fæddur 10. október 1920. Daddi starfaði alla tíð við búskap. Hann tók Hól, næsta bæ við Steiná, á leigu árið 1959 og keyptisíðan jörðina árið 1964. Á Hóli byggði hann vönduð fjárhús og rak fjárbúskap af miklum myndarbrag. Hann hafði einnig nokkur hross. Daddi var frekar hlédrægur, ekki maður margra orða en lét heldur verkin tala því vinnusemin, vandvirknin og snyrtimennskan voru einstök. Þetta sást best þegar komið var í fjárhúsin á Hóli, það var eins og að ganga inn í helgidóm. Þrátt fyrir hlédrægni þá gat Daddi svo sannarlega gert að gamni sínu og verið skemmtilegur í viðræðum. Það kom jafnvel fram þegar ég heimsótti hann í hinsta sinn fyrir þrem vikum, helsjúkan á sjúkrahúsinu. Þá var hugurinn skýr og áhuginn á þjóðmálum mikill og þessi góðlátlega glettni, sem einkenndi hann, var ekki langt undan.
Daddi var fróður um menn og málefni og lét stundum í ljós skoðanir sem maður uppgötvaði löngu seinna að voru réttar.