Benedikt Guðmundsson (1905-1990) Staðarbakka í Miðfirði
- HAH01106
- Einstaklingur
- 30.11.1905 - 17.1.1990
Benedikt Guðmundsson bóndi á Staðarbakka lést í sjúkrahúsinu á Hvammstanga að morgni 17. janúar sl. á 85. aldursári. Hann hafði kennt sér lasleika um nokkurn tíma. Eigi að síður kom fráfall hans á óvart eins og oft vill verða þegar fólk er kvatt burt af þessum heimi. Tveim dögum fyrir andlát Benedikts heimsótti ég hannað Staðarbakka, hann hafði þá daginn áður komið heim af sjúkrahúsinu á Hvammstanga eftir nokkurra daga veru þar. Hann var þá hress og eins og ætíð áður fróðlegt og gaman við hann að ræða.
Þegar góður vinur hverfur héðan á braut þyrpast fram minningar liðinna daga sambland af trega og eftirsjá eftir ónotuðum tækifærum til samvista. Við fráfall þessa mæta manns hverfur af sjónarsviðinu litríkur sveitahöfðingi og drengur góður sem ætíð reyndi að leysa hvers manns vanda ef til hans var leitað og vann ómetanleg störf fyrir sveit sína og hérað.
Benedikt fæddist 30. nóvember 1905 í Hnausakoti í V-Hún. Benedikt fluttist með foreldrum sínum að Staðarbakka 1907 og hefur átt þar heimili æ síðan.
Eftir lát föður síns 1930 stóð hann ásamt Gísla bróður sínum fyrir búi móður sinnar til ársins 1945 er hann ásamt eiginkonu sinni Ásdísi Magnúsdóttur frá Torfastöðum í Núpsdal hóf búskap á hálfri jörðinni Staðarbakka og ráku þar myndarbú þartil fyrir nokkrum árum að sonur þeirra Rafn tók við jörðinni.