Elliðaey er þriðja stærsta eyja Vestmannaeyja, (stundum nefnd Ellirey), og er 0,45 km² að flatarmáli. Eyjan er víðast sæbrött, lægri að austanverðu þar sem greitt er uppgöngu um Austurflá þar sem reipi hefur verið komið fyrir. Elliðaey er mjög grösug og þar var heyjað fyrrum og einnig hagaganga fyrir sauðfé og jafnvel nautgripi. Gífurlega mikið varp er þar og fuglatekja. Eyjan er hæst að norðan, það er Hábarð (114 metrar yfir sjávarmáli). Á eyjunni eru tveir gjallgígar, Litli Bunki og Stóri Bunki. Talið er að eyjan hafi myndast í eldgosi sem hefur verið töluvert stærra en Surtseyjargosið, fyrir um 5-6 þúsund árum.
Graslendi þekur alla eyjuna og hefur gríðarlegur fjöldi lunda grafið sér holur þar. Í eyjunni er sauðfé beitt og lundaveiði er stunduð á sumrin.
Deildar meiningar eru um nafn eyjunnar en Elliðaeyjarnafnið dregur hún sennilega af skipi því að hún er lík stafnháu skipi. En sumir segja að nafnið Ellirey sé vegna þess að eyjan taki nafn sitt af tveimur hellum H-ellirey, en önnur eyja í Vestmannaeyjum dregur nafn sitt af hellum, Hellisey.
Í bókinni Örnefni í Vestmannaeyjum segir að Elliðaey sé „[...] í tilliti til stærðar og frjósemi Heimaeyjunni næst. Hún liggur frá N. til S. og er breiðust að norðan, en mjóst að sunnan. Að vestan og norðan er eyjan afar há, og eru hamrarnir næstum þverhníptir. Þó eru hillur og bekkir hér og hvar í þeim, á hverjum rilla og svartfugl verpa.“
Austan til í eyjunni er hún mjög lág, og þar er uppganga í lítilli vík, sem kölluð er Höfnin.
Elliðaey er á náttúruminjaskrá því þar eru mjög miklar og sérstæðar sjófuglabyggðir. Í Elliðaey er að finna helstu varpbyggðir storm- og sjósvölu á Íslandi, sem telja tugþúsundir para. Fýll og langvía verpa mikið í Elliðaey, auk lunda.
Bólið í Elliðaey.
Á eyjunni er stórt veiðihús í eigu Elliðaeyjarfélagsins, sem stundar þar lundaveiði á sumrin og eggjatöku á vorin. Í gamla daga var veiðihúsið kallað „ból“. Fyrsta bólið sem reist var í eynni stendur enn. Er það notað sem geymsla og stendur vestan við "Skápana“. Árið 1953 var nýtt ból reist við rætur Hábarðs því gamla húsið stóðst ekki tímans tönn. 1985 var hafist handa við að byggja nýtt veiðihús á tveimur hæðum sem var áfast húsinu sem byggt var 1953. Lokið var við þá byggingu 1987. 1994 kom í ljós að bólið frá 1953 var orðið það illa farið að ekki var hægt að nota það lengur. Var það þvi rifið og annað hús reist í staðinn á sama stað, lauk þeirri byggingu 1996. Á árunum 2000-2001 var reist lítið hús vestan við bólið sem hýsir gufubað Elliðaeyjarfélagsins.