Helga Þorsteinsdóttir 3.11.1917 - 10.2.1994. Var í Langholti, Hraungerðissókn, Árn. 1930. Húsfreyja Þorleifskoti og síðast bús. í Þorlákshöfn.
Hún var fædd í Langholti í Hraungerðishreppi, yngst 14 alsystkina, barna Helgu Einarsdóttur og Þorsteins Sigurðssonar bónda þar. Þrjú barnanna dóu ung að aldri en 11 komust upp.
Móðir Helgu dó í spönsku veikinni, 1918, og var hún því aðeins rúmlega ársgömul þegar móðir hennar lést. Lát góðrar eiginkonu og umhyggjusamrar móður var fjölskyldunni allri mikið áfall en eldri systkinin gengu þeim yngri í móður stað og hvíldi ábyrgðin þá þyngst á herðum Margrétar sem var elst og stóð fyrir heimilishaldinu fyrstu árin eftir lát móður sinnar. Börnin lögðu öll sitt af mörkum þegar þau höfðu aldur til, hjálpuðu til bæði utan húss og innan og unnu baki brotnu að fordæmi föður síns sem var kjarkmikill og atorkusamur.
Fjölskyldan var mjög samhent og hefur verið æ síðan þar eð systkinin vöndust því frá blautu barnsbeini að treysta hvert á annað.
Jarðarförin fór fram frá Þorlákskirkju í Þorlákshöfn 19.2.1994.