Eg fór í refamennskuna. Það voru hérna þrjú refabú, tvö þeirra stór.
Refa-Björn, sem kallaður var, sá um bú hér uppi undir Brekku.
Kolka var með annað sem hét Silfri, og var þar sem Héraðshælið er núna.
Síðan voru Páll Geirmundsson og fleiri komnir með eitt á melunum heldur vestar en þar sem nýja kirkjan er og ég var fenginn til þess að sjá um það bú.
Ég hafði aldrei komið nærri tófum, og vinnan hjá mér byrjaði þannig að það þurfti að hreinsa dýrin í öllum búunum þremur. Þeir Svavar frá Móbergi og Björn Jónsson sem höfðu verið í þessu í nokkur ár spyrja mig hvað ég vilji helst gera. Ég sagði að mér væri alveg sama. „Þú vilt kannski taka dýrin", segja þeir.
Þeir fengu mér töng og ég fór inn í fyrsta búrið. Tófan fer náttúrulega yfir mig og undir og alls staðar því að ég kunni ekki að taka dýr. Þeir hlógu svo mikið að mér að þeir urðu að leggjast á grasið úti. En það endaði nú samt með því að ég tók hvert einasta dýr og þeir voru orðnir skrítnir á svipinn í lokin.
Ég fékk aldrei bit en þeir voru alltaf með einhverja putta reifaða. Við Svavar hlógum mikið einu sinni, við fórum í heimsókn upp til Björns þegar við vorum búnir í okkar búum. Þá var hann með prímus með vatnsfötu á og einn putta niðri og var að sótthreinsa hann eftir bit.
Þeir voru klaufar að láta bíta sig. Þegar tófurnar voru hreinsaðar var sett töng í kjaftinn á þeim, pillur ofan í þær og laxerolía. En svo kom verðfall.
Fyrst gafst Björn upp og þá tókum við Svavar það bú að okkur, síðan gafst Svavar upp og þá drap ég þetta allt niður. Það var feikna verk. Ég hreinsaði skinnin líka og spýtti þau." Viðtal við Sverri Kristófersson