LEIFUR heppni stendur traustum fótum á Skólavörðuholtinu. Stöpullinn undir styttunni, sem er úr graníti, er settur saman af 18 steinbjörgum, og er heildarþyngd stöpulsins hátt í fimmtíu tonn. Sjálf myndin af Leifi vegur hins vegar um eitt tonn.
Styttan og stöpullinn mynda saman eina órofa heild. Stöpullinn er hugsaður sem skipsstafn og þykir hann ekki síður merkilegur frá listrænu sjónarmiði en styttan sjálf.
Gjöf Bandaríkjamanna
Bandaríkjamenn gáfu Íslendingum styttuna í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930. Árið 1929 var haldin samkeppni í Bandaríkjunum um gerð styttu af Leifi heppna til að gefa Íslendingum. Samkeppnina vann bandaríski listamaðurinn Alexander Stirling Calder og hann mun hafa gert bæði styttuna og stöpulinn.
Árið 1931 kom stöpullinn til landsins. Eins og fyrr segir er stöpullinn settur saman úr 18 einingum og vegur hver um sig nokkur tonn.
Bandaríkjamenn höfðu af því nokkrar áhyggjur að í Reykjavík fyndist ekki nógu sterkt farartæki til að flytja verkið frá höfninni uppá Skólavörðuholt. Á þessum tíma fannst þó einn vörubíll í bænum sem talinn var nógu sterkbyggður í verkefnið. Hann dugði þó ekki til. Því var brugðið á það ráð að fá Tryggva Magnússon, glímukappa, til að hjálpa bílnum síðasta spölinn, a.m.k. þegar þyngstu björgin voru flutt.
Það var svo 17. júlí 1932 sem Coleman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi afhenti þáverandi forsætisráðherra, Ásgeiri Ásgeirssyni, styttuna að gjöf. Og síðan þá hefur Leifur staðið óhreyfður á Skólavörðuholtinu.
Engin teikning til
Engin teikning hefur fundist af stöplinum og það er því ýmsum vandkvæðum bundið að taka styttuna niður og ekki síður að koma henni fyrir á ný. En þótt ekki hafi verið lagt í að hreyfa styttuna hefur verið töluverður ágangur við hana. Bandaríkjamönnum mun hafa blöskrað svo mjög umgengnin við styttuna fyrstu árin að brugðið var á það ráð að setja vörð um styttuna. Var sá styttuvörðurinn starfandi fram undir stríð. Mun Leifur heppni vera eina styttan í borginni sem sérstakur vörður var staðinn um.
Annar Leifur á Rhode Island
Þegar heimsýningin var haldin í New York 1939 óskuðu Íslendingar eftir að fá að gera eftirmynd af Leifi heppna til að hafa á sýningunni. Fékk íslenska nefndin leyfi til að nota gifsmótin af upphaflegu styttunni, sem þá voru geymd á Smithsonian Institution í New York, til að gera nákvæma eftirmynd.
Eftir sýninguna þurfti hins vegar að finna nýju styttunni framtíðarstað. Voru hugmyndir á lofti um að koma henni fyrir í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Henni mun þó hafa verið fundinn staður í hafnarborginni Rohde Island. Þar stendur styttan nálægt sjó og horfir Leifur til hafs.