Oddný Guðmundsdóttir (1908-1985) kennari og rithöfundur

Identity area

Type of entity

Person

Authorized form of name

Oddný Guðmundsdóttir (1908-1985) kennari og rithöfundur

Parallel form(s) of name

  • Oddný Gunnhildur Guðmundsdóttir (1908-1985) kennari og rithöfundur

Standardized form(s) of name according to other rules

Other form(s) of name

Identifiers for corporate bodies

Description area

Dates of existence

  1. feb. 1908 - 2. jan. 1985

History

Var á Hóli, Sauðanessókn, N-Þing. 1930. Kennari og rithöfundur síðast bús. í Raufarhafnarhreppi.

Oddný Guðmundsdóttir rithöfundur og kennari Fædd 15. febrúar 1908. Dáin 2. janúar 1985.
Hún Oddný er dáin. Fórst í umferðarslysi á Raufarhöfn að kvöldi 2. janúar s.l. Undarleg eru örlögin og erfitt að sætta sig við, þegar vinir, sem eru í fullu fjöri eru hrifnir brott fyrirvaralaust, er okkur þykir að enn eigi svo margt ógert og langa leið framundan hérna megin árinnar. Með hryggð og söknuði kveðjum við nú Oddnýju Guðmundsdóttur og þökkum samfylgdina.
Oddný Gunnhildur Guðmundsdóttir var fædd á Hóli á Langanesi N.-Þing. Foreldrar hennar voru Guðmundur bóndi á Hóli Gunnarsson bónda að Djúpalæk Péturssonar og kona hans Kristín Gísladóttir bónda í Kverkártungu Árnasonar. Oddný átti tvo bræður Gísla og Gunnar.
Gísli var alþingismaður N.-Þingeyinga og seinna Norðurlandskjördæmis eystra langa tíð.
Gunnar er járnsmiður og býr í Reykjavík.
Heima á Hóli ólst Oddný upp og sleit sínum barnsskóm. Þar á Hóli á Langanesi hef ég séð síðsumars, grasið grænna og safaríkara en annarsstaðar og þar eru margir stórir huldusteinar.
Oddný fékk í vöggugjöf góðar gáfur, sem hún ræktaði vel alla ævi. Hún tók gagnfræðapróf frá Akureyrarskóla 1929. Dvaldi í Svíþjóð við nám og störf, var jafnframt um tíma, fréttaritari ríkisútvarpsins þar í landi. Árið 1936 stundaði Oddný nám við Norræna lýðháskólann í Genf í Sviss. Á þessum námsárum ferðaðist hún víða um Evrópu m.a til Sovétríkjanna. Það var gaman að heyra hana minnast þeirra tíma.
Ævistarf Oddnýjar Guðmundsdóttur var að kenna börnum og unglingum, aðallega farkennsla í sveitum, þ.e. kenna heima á bæjum til skiptis. Kennslan var Oddnýju meira en starfið eitt, heldur hugsjón. Hún kenndi mjög víða um landið, var gjarnan einn vetur í stað, breytti þá til og réði sig á nýjan stað á næsta hausti. Þess vegna eignaðist hún marga vini og hélt tryggð við. Á sumrin réði hún sig oft í kaupavinnu. Úti á túni, með hrífu í hönd naut Oddný lífsins. Þegar björgunarafrekið var unnið við Látrabjarg árið 1947, sem frægt er, var Oddný á vettvangi. Þá sögu rakti hún skemmtilega í útvarpi, ekki alls fyrir löngu í þættinum „Út og suður". Sagt er að „tilvera okkar sé undarlegt ferðalag", og er það oft í mörgum skilningi. Oddný hafði alla tíð mikið yndi af ferðalögum. Þar fór hún oft á tíðum sínar eigin leiðir. Hún notaði reiðhjólið, hana Skjónu og hjólaði sína götu. Á slíkum ferðum kynntist hún íslandi vel. Þegar Oddný var fimmtug skrifaði hún, „Hef hjólað nær alla akvegi landsins samfylgdarlaust." Ísland og íslensk tunga var Oddnýju Guðmundsdóttur helgidómur. Oft þótti henni menn misbjóða landi og tungu. þá greip hún gjarnan pennann, var hvöss og viðhafði enga tæpitungu. Hún hafði ríka réttlætiskennd, málsvari minnimáttar, mannréttindakona. Hún var „vinstrisinni", og virkur félagi á þeim vettvangi. Hennar draumur var: - ísland úr NATO - Herinn burt - Oddný var rithöfundur. Ritaði margar skáldsögur, gaf út Ijóðabækur, þýddi mikið, bæði bækur og framhaldssögur í blöð, flutti erindi í útvarp, skrifaði smásögur og fjölmargar greinar í blöð og tímarit. Og aðaláhugamálið alltaf það sama: - að skapa betri heim -. „Orðaleppar" og „Ljótar syrpur" þætti hennar um íslenska tungu og menningu, skrifaði hún marga og birti í Þjóðviljanum og Tímanum. Þessir pistlar og fleiri í sama dúr voru frábærir og vel eftir þeim tekið, skipuðu höfundi í heiðurssæti. Oddný Guðmundsdóttir var fjölskylduvinur okkar í Austurgörðum svo lengi ég man eða m.k. 40 ár. Alltaf var hátíð þegar hún kom, hafði frá svo mörgu að segja og var fyndin, kát og skemmtileg, og átti svo auðvelt með að blanda geði við alla, unga sem aldna. Já, hún var vinur vina sinna. Og hún var einkar lagin og næm að veita aðstoð, með nærveru sinni þar sem sorg var í húsi og erfiðleikar. Þess minnast margir. Og nú er hún Oddný dáin. Laugardaginn 5. janúar s.l. var minningarathöfn Oddnýjar í kirkjunni á Raufarhöfn. Sú athöfn var ógleymanleg og kirkjan þéttsetin. Konur stóðu heiðursvörð með logandi kerti í hendi - merki friðar. Þannig var hún kvödd með virktum og þökk á Raufarhöfn. Innilegustu samúðarkveðjur sendi ég Margréti, Gunnari, Sólveigu og öðrum ástvinum. Það er gott að minnast Oddnýjar Guðmundsdóttur, hún var kona sönn og heiðarleg. Blessuð sé hennar minning.

Þórarinn Björnsson

Places

Legal status

Hinn 10. þessa mánaðar var til moldar borin Oddný Guðmundsdóttir kennari og rithöfundur. Hún var fædd að Hóli á Langannesi og ólst þar upp í foreldrahúsum ásamt bræðrum sínum, Gísla og Gunnari. Oddný tók gagnfræðapróf á Akureyri árið 1929 og stundaði síðar nám við Foreby Folkhögskola í Svíþjóð árið 1933, Norræna lýðháskólann í Genf árið 1936 og International Höjskole í Danmörku árið 1937. Árið 1940, að loknu námi, hóf Oddný lífsstarf sitt, kennarastarfið. Hún stundaði farkennslu víða um land og valdi þá oft afskekkta staði t.d. kenndi hún víða á Vestfjörðum og á Ströndum. Mér þykir trúlegt að hún hafi verið síðasti farkennari á íslandi. Á sumrin vann hún ýmis störf, oftast til sveita, og ferðaðist þá um landið á hjóli. Oddný var alltaf sískrifandi og var meðal annars fréttaritari íslenska ríkisútvarpsins meðan hún var við nám í Svíþjóð. Árið 1943 kom út eftir hana fyrsta skáldsagan, „Svo skal böl bæta“. Síðar komu út eftir hana skáldsögurnar „Veltiár“, „Tveir júnídagar“, „Á því herrans ári“ og „Skuld". Einnig skrifaði hún smásögur og greinar í blöð og tímarit. Nokkur leikrit samdi hún og voru sum þeirra flutt í útvarpinu, t.d. „Vellygni-Bjarni“, „Hraði“ og „Fósturlandsins freyja". Einnig fékkst hún við þýðingar. Árið 1982 kom út eftir hana unglingabók, „Haustnætur í Berjadal" og sama ár kom út ljóðabók, „Kvæði og kviðlingar". Kynni okkar Oddnýjar hófust þegar hún var kennarinn minn veturinn 1948-49 á Skógarströnd. Vinátta okkar hefur haldist síðan. Það voru alltaf fagnaðarfundir þegar Oddný kom á hjólinu sínu á sumrin og dvaldi þá oft um lengri tíma hjá foreldrum mínum. Oddný var fræðabrunnur og veitti okkur krökkunum óspart af þeim brunni. Oddný var einstaklega trygglynd og góður vinur vina sinna. Heyrt hef ég að hún hafi á ferðum sínum um landið oft staldrað við á barnmörgum heimilum og saumað alklæðnað á allan hópinn ef þess þurfti með. I gegnum árin höfum við Oddný oft átt góðar stundir saman þegar við ræddum sameiginleg áhugamál. Oddný hafði brennandi áhuga á þjóðmálum og óbugandi trú á landi og þjóð. Friðarmál og mannréttindi voru henni ofarlega í huga og alltaf var hún trúr málsvari þeirra sem minna mega sín í lífinu. Einnig hafði hún unun af að ræða um bókmenntir og listir. Eitt áhugaefni held ég þó að hafi verið ofar flestu öðru hjá Oddnýju en það var ritun og meðferð á íslensku máli. Hún ritaði margar greinar í blöð um þetta efni og gaf út bókina „Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur". Síðustu árin, eftir að Oddný hætti kennslu, dvaldist hún á Langanesi í grennd við æskujstöðvar sínar, á Þórshöfn, Bakkafirði og Raufarhöfn, og hélt áfram aðstunda ritstörf, og á Raufarhöfn var hún búsett er hún lést. Með Oddnýju er horfin merkileg kona og einn besti útvörður íslenskrar tungu, en verk hennar munu lifa og bera henni vitni um ókomin ár. Ég þakka Oddnýju fyrir allar þær ánægjustundir sem við áttum saman og sendi ættingjum hennar og vinum samúðarkveðjur. Ég vil svo ljúka þessum línum með síðasta ljóðinu úr ljóðabók Oddnýjar:

Ekki var stormurinn alltaf hlýr
utan við gamla bœinn.
Eldarnir brunnu allir þrír
til ösku handan við sœinn.

Forlögin verða flestum dýr.
Og fjarri er, að ég kveini.
Eldarnir brunnu, allir þrír,
engri skepnu að meini.

Emilía Guðmundsdóttir

Functions, occupations and activities

Mandates/sources of authority

Internal structures/genealogy

General context

Relationships area

Access points area

Subject access points

Place access points

Occupations

Control area

Authority record identifier

HAH09548

Institution identifier

IS-HAH

Rules and/or conventions used

Status

Final

Level of detail

Partial

Dates of creation, revision and deletion

MÞ 15.11.2023

Language(s)

  • Icelandic

Script(s)

Maintenance notes

  • Clipboard

  • Export

  • EAC

Related subjects

Related places