Var á Hóli, Sauðanessókn, N-Þing. 1930. Kennari og rithöfundur síðast bús. í Raufarhafnarhreppi.
Oddný Guðmundsdóttir rithöfundur og kennari Fædd 15. febrúar 1908. Dáin 2. janúar 1985.
Hún Oddný er dáin. Fórst í umferðarslysi á Raufarhöfn að kvöldi 2. ... »
Var á Hóli, Sauðanessókn, N-Þing. 1930. Kennari og rithöfundur síðast bús. í Raufarhafnarhreppi.
Oddný Guðmundsdóttir rithöfundur og kennari Fædd 15. febrúar 1908. Dáin 2. janúar 1985.
Hún Oddný er dáin. Fórst í umferðarslysi á Raufarhöfn að kvöldi 2. janúar s.l. Undarleg eru örlögin og erfitt að sætta sig við, þegar vinir, sem eru í fullu fjöri eru hrifnir brott fyrirvaralaust, er okkur þykir að enn eigi svo margt ógert og langa leið framundan hérna megin árinnar. Með hryggð og söknuði kveðjum við nú Oddnýju Guðmundsdóttur og þökkum samfylgdina.
Oddný Gunnhildur Guðmundsdóttir var fædd á Hóli á Langanesi N.-Þing. Foreldrar hennar voru Guðmundur bóndi á Hóli Gunnarsson bónda að Djúpalæk Péturssonar og kona hans Kristín Gísladóttir bónda í Kverkártungu Árnasonar. Oddný átti tvo bræður Gísla og Gunnar.
Gísli var alþingismaður N.-Þingeyinga og seinna Norðurlandskjördæmis eystra langa tíð.
Gunnar er járnsmiður og býr í Reykjavík.
Heima á Hóli ólst Oddný upp og sleit sínum barnsskóm. Þar á Hóli á Langanesi hef ég séð síðsumars, grasið grænna og safaríkara en annarsstaðar og þar eru margir stórir huldusteinar.
Oddný fékk í vöggugjöf góðar gáfur, sem hún ræktaði vel alla ævi. Hún tók gagnfræðapróf frá Akureyrarskóla 1929. Dvaldi í Svíþjóð við nám og störf, var jafnframt um tíma, fréttaritari ríkisútvarpsins þar í landi. Árið 1936 stundaði Oddný nám við Norræna lýðháskólann í Genf í Sviss. Á þessum námsárum ferðaðist hún víða um Evrópu m.a til Sovétríkjanna. Það var gaman að heyra hana minnast þeirra tíma.
Ævistarf Oddnýjar Guðmundsdóttur var að kenna börnum og unglingum, aðallega farkennsla í sveitum, þ.e. kenna heima á bæjum til skiptis. Kennslan var Oddnýju meira en starfið eitt, heldur hugsjón. Hún kenndi mjög víða um landið, var gjarnan einn vetur í stað, breytti þá til og réði sig á nýjan stað á næsta hausti. Þess vegna eignaðist hún marga vini og hélt tryggð við. Á sumrin réði hún sig oft í kaupavinnu. Úti á túni, með hrífu í hönd naut Oddný lífsins. Þegar björgunarafrekið var unnið við Látrabjarg árið 1947, sem frægt er, var Oddný á vettvangi. Þá sögu rakti hún skemmtilega í útvarpi, ekki alls fyrir löngu í þættinum „Út og suður". Sagt er að „tilvera okkar sé undarlegt ferðalag", og er það oft í mörgum skilningi. Oddný hafði alla tíð mikið yndi af ferðalögum. Þar fór hún oft á tíðum sínar eigin leiðir. Hún notaði reiðhjólið, hana Skjónu og hjólaði sína götu. Á slíkum ferðum kynntist hún íslandi vel. Þegar Oddný var fimmtug skrifaði hún, „Hef hjólað nær alla akvegi landsins samfylgdarlaust." Ísland og íslensk tunga var Oddnýju Guðmundsdóttur helgidómur. Oft þótti henni menn misbjóða landi og tungu. þá greip hún gjarnan pennann, var hvöss og viðhafði enga tæpitungu. Hún hafði ríka réttlætiskennd, málsvari minnimáttar, mannréttindakona. Hún var „vinstrisinni", og virkur félagi á þeim vettvangi. Hennar draumur var: - ísland úr NATO - Herinn burt - Oddný var rithöfundur. Ritaði margar skáldsögur, gaf út Ijóðabækur, þýddi mikið, bæði bækur og framhaldssögur í blöð, flutti erindi í útvarp, skrifaði smásögur og fjölmargar greinar í blöð og tímarit. Og aðaláhugamálið alltaf það sama: - að skapa betri heim -. „Orðaleppar" og „Ljótar syrpur" þætti hennar um íslenska tungu og menningu, skrifaði hún marga og birti í Þjóðviljanum og Tímanum. Þessir pistlar og fleiri í sama dúr voru frábærir og vel eftir þeim tekið, skipuðu höfundi í heiðurssæti. Oddný Guðmundsdóttir var fjölskylduvinur okkar í Austurgörðum svo lengi ég man eða m.k. 40 ár. Alltaf var hátíð þegar hún kom, hafði frá svo mörgu að segja og var fyndin, kát og skemmtileg, og átti svo auðvelt með að blanda geði við alla, unga sem aldna. Já, hún var vinur vina sinna. Og hún var einkar lagin og næm að veita aðstoð, með nærveru sinni þar sem sorg var í húsi og erfiðleikar. Þess minnast margir. Og nú er hún Oddný dáin. Laugardaginn 5. janúar s.l. var minningarathöfn Oddnýjar í kirkjunni á Raufarhöfn. Sú athöfn var ógleymanleg og kirkjan þéttsetin. Konur stóðu heiðursvörð með logandi kerti í hendi - merki friðar. Þannig var hún kvödd með virktum og þökk á Raufarhöfn. Innilegustu samúðarkveðjur sendi ég Margréti, Gunnari, Sólveigu og öðrum ástvinum. Það er gott að minnast Oddnýjar Guðmundsdóttur, hún var kona sönn og heiðarleg. Blessuð sé hennar minning.
Þórarinn Björnsson
«