Nýja Blöndubrúin vígð
Um 1000 manns hvaðanæfa af Norður- og Vesturlandi sóttu vígsluhátíðina.
Á sunnudaginn var fór fram vígsla nýrrar brúar á Blöndu, um 30 km. framan við Blönduós. Var byrjað á brúargerð þessari fyrir 2 árum og henni að mestu lokið í fyrrahaust. Við vígsluathöfnina fluttu ræður: Hermann Jónasson samgöngumálaráðherra, Geir Zoéga vegamálastjóri, Jón Pálmason þingmaður Austur-Húnvetninga og Guðbrandur Ísberg sýslumaður. Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum flutti kvæði, er hann hafði ort í tilefni þessa viðburðar. Tveir karlakórar úr héraðinu sungu, og dansað var á brúnni fram eftir kvöldi.
Veður var bjart og fagurt þennan dag, og sóttu um 1000 manns vígsuna, fyrst og fremst Húnvetningar, en auk þeirra margt manna víðs vegar að af Norður- og Vesturlandi og sunnan úr Reykjavík.
Blöndubrúin nýja er um 100 metra löng, með 4 metra breiðri akbraut. Þetta er hengi brú að samskonar gerð og brúin yfir Jökulsá hjá Grímsstöðum. Hún er mikið mannvirki og kemur til með að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur að verulegum mun. Verkstjóri við byggingu brúarinnar var Þorvaldur Guðjónsson Akureyri.
(Íslendingur 24. tölublað 27.06.1951)
Hin nýja 100 m. langa Blöndubrú vígð í dag.
Í dag verður vígð hin nýja hengibrú yfir Blöndu, en brúin er skammt frá Löngumýri í Blöndudal. Brú þessi er í tölu stærstu brúa landssins og er af henni hin mesta samgöngubót.
Þetta mikla brúarmannvirki er 100 m. að lengd og akbrautin eftir brúnni 4 metrar á breidd. Er brúin svipuð mjög Ölfusárbrúnni.
Byggð á einu ári.
Þessi nýja Blöndubrú er um 30 km. leið fyrir ofan Blönduósbrúna. Byrjað var á brúarsmíðinni árið 1949. Var brúarsmíðinni sjálfri lokið 1950. Þá var eftir að múrhúða yfir alla steypu og aðeins þá var eftir að mála hana. Því er nú lokið og hin nýja Blöndubrú er hvít að lit og fallegt mannvirki til að sjá, með fjórum 15 metra háum turnum, er halda uppi burðarstrengjum brúarinnar.
Mikil samgöngubót.
Húnvetningar fagna mjög þeirri stórlega auknu samgöngubót sem brú þessi hefur í för með sjer og eins skapar hún meira öryggi við flutninga á vetrum.
Þegar vígsluhátíðin fer fram í dag verða þar m.a. viðstaddir landbúnaðar- og samgöngumálaráðherra, vegamálastjóri og ýmsir leiðandi menn þar nyðra.
(Morgunblaðið 140. tölublað 24.06.1951)
Nýja Blöndubrúin vígð
Nýja brúin á Blöndu hjá Löngumýri í Blöndudal verður vígð í dag með mikilli viðhöfn. Meðal ræðumanna þar munu verða Geir Zoëga, vegamálastjóri, Hermann Jónasson, samgöngumálaráðherra o.fl. Borgfirðingar, sem eru á ferð í Húnavatnssýslu í boði Vatnsdælinga og Þingbúa munu fara til vígslunnar ásamt gestgjöfum sínum og búist er við fjölmenni úr héraðinu. Að lokinni vígslu mun verða stiginn dans á brúnni, mega menn þá gæta sín, ef vel er veitt, að falla ekki fyrir borð.
(Tíminn 139. tölublað 24.06.1951)
Nýja Blöndubrúin vígð í fyrradag
NÝJA BRÚIN yfir Blöndu hjá Löngumýri var vígð á sunnudaginn að viðstöddu miklu fjölmenni. Munu 800-1000 manns hafa verið viðstödd brúarvíglsuna, þar af margir utan héraðs menn. Ræður fluttu Hermann Jónasson samgöngumálaráðherra, Geir G. Zoëga vegamálastjóri, Jón Pálmason alþingismaður og Guðbrandur Ísberg sýslumaður, en Gísli Ólafsson skáld frá Eiríksstöðum flutti kvæði. Þá sungu Karlakórinn Húnar á Blönduósi og Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Dansað var á brúnni um kvöldið.
(Alþýðublaðið 140. Tölublað 26.06.1951)
Ný Blöndubrú vígð.
Blöndubrúin nýja hjá Löngumýri var vígð í gær að viðstöddu miklu fjölmenni, ekki aðeins úr Húnavatnssýslum, heldur og úr ýmsum nærliggjandi byggðarlögum og sýslum.
Hófst athöfnin með því að vegamálastjóri, Geir G. Zoëga bauð gesti velkomna. Þá sungu tveir karlakórar, Húnar frá Blönduósi og Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, en að því loknu hélt Hermann Jónasson samgöngumálaráðherra vígsluræðuna, Geir G. Zoëga vegamálastjóri lýsti brúarsmíðinni, en aðrar ræður héldu þingmaður Austur-Húnavatnssýslu, Jón Pálmason, og Guðbrandur Ísberg sýslumaður. Gísli Ólafsson skáld flutti brúardrápu. Sungið var milli ræðuhalda og eins á eftir.
Um kvöldið var dansað á brúnni, en hjlómsveit frá Sauðárkróki lék fyrir dansinum.
Nærri lætur, að 800-1000 manns hafi verið viðstatt brúarvígsluna. Veður var eins fagurt og frekast var unnt að kjósa sér.
Brúin er 112 metra löng og er að henni hin mesta samgöngubót, því áður var aðeins ein brú á Blöndu, niður við ósa hennar.
(Vísir 142. Tölublað 25.06.1951)